06.05.1921
Efri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (2470)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Flm. (Einar Árnason):

Þegar mál þetta var fyrst á dagskrá, var það rætt allmikið; þess vegna skal jeg ekki fara mikið út í efni frv. nú, en snúa mjer að þeim brtt., sem fram hafa komið.

Eru þá fyrst tvær brtt., sem komið hafa fram við 5. gr. — Önnur frá háttv. þm. Snæf. (H. St.), en hin frá háttv. 2. landsk. þm. (S. E.). Við flm. frv. höfum athugað brtt. þessar, og höfum fallist á brtt. háttv. þm. Snæf. (H. St.). Þessi brtt. er í raun og veru ekki efnisbreyting, heldur kveður hún skýrara á um þá hugsun, sem í greininni liggur og var tilætlun okkar flm., sem sje, að það fari fram nákvæm rannsókn á hag bankans, áður en lagt er út í hlutafjárkaup. Þetta er ekki nema sjálfsagt. En jeg vil taka það fram, að þó við teljum nauðsynlegt og sjálfsagt að rannsaka allan hag bankans, þá viljum við ekki, að það skiljist á þá lund, að við með þessu ákvæði viljum gera hann tortryggilegan í augum almennings.

Skal jeg svo eigi fara frekar út í þetta, þar sem enginn ágreiningur er um till., en snúa mjer að brtt. á þskj. 451, sem þeir flytja í fjelagi háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) og háttv. þm. Snæf. (H. St). Brtt. þessar fara í þá átt að fella úr frv. það framtíðarskipulag á seðlaútgáfurjettinum, sem í frv. er gert ráð fyrir; stendur þá aðeins eftir í frv. ákvæðin um hlutafjárkaup ríkisins og seðlaútgáfan til eins árs.

Við flm. getum ekki fallist á að fella niður þessar greinar frv. að þessu sinni, því við viljum láta frv. þannig lagað fara til háttv. Nd., svo, hún geti tekið ákvörðun um það eins og það nú er.

1. brtt. á þskj. 451, við 1. gr., gengur í þá átt að stytta seðlaútgáfurjett Íslandsbanka frá 1. des. 1924 til 1. maí 1922. Um þessa brtt. er það að segja, að nokkrir af okkur flm. hafa getað fallist á hana, en aðrir telja hana varhugaverða, en vilja þó ekki setja sig beinlínis á móti henni. Jeg býst því við, að brtt. þessi verði samþ., og fyrir því hefi jeg leyft mjer, ásamt háttv. 1. landsk. þm. (S. F.), að koma með brtt. á þskj. 501, til þess að samrýma 2. gr. frv. við 1. gr. þess, ef áður greind brtt. á þskj. 451 verður samþ.

Ætla jeg svo eigi að segja meira að svo stöddu, fyr en jeg hefi heyrt ástæður þær, sem flm. brtt. bera fram. Fæ jeg þá ef til vill ástæðu til að tala frekar.