06.05.1921
Efri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2311 í B-deild Alþingistíðinda. (2471)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurður Eggerz:

Jeg get að því leyti sagt hið sama og háttv. flutningsmaður, að mál þetta var rætt töluvert hjer við 1. umræðu, og nægir því, að sumu leyti, að vísa til þess, sem jeg sagði þá. Jeg reyndi þá að draga upp sem skýrasta mynd af því ástandi, sem er nú í landi voru, og reyndi að skýra fyrir háttv. deild, hve kreppan væri alvarleg og gripi fast um sig.

Hæstv. fjrh. (M.G.) reyndi að láta myndina líta öðruvísi út. Reyndi eins og áður að varpa öðrum blæ yfir ástandið en þeim raunverulega. Hann sagði, hvað yfirfærsluna snerti, þá væri það aðeins eitt hlutafjelag, sem ekki gæti yfirfært. En þetta hlutafjelag er hvorki meira eða minna en annar aðalbanki landsins, Íslandsbanki. En við það bætist, að pósthúsinu hefir verið lokað nú um nokkurn tíma, eða því sem næst, því að eigi hefir verið hægt að yfirfæra. gegn um það, nema aðeins örlitlar upphæðir. Og við þetta má svo líka bæta Landsbankanum, því að hann hefir eigi yfirfært nema lítið eitt. En auðvitað býst jeg við, að það sje af varúð.

Það stendur því óbreytt, sem jeg sagði við 1. umr. þessa máls, að ástandið er mjög alvarlegt í landinu. Og augu þjóðarinnar hvíla enn fastara á þinginu en nokkru sinni áður.

Háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) fór þeim orðum um tillögur meiri hl. peningamálanefndar, að þær ættu að vera bjargir fyrir bankann, en yrðu nábjargir, ættu að vera ráð, en yrðu óráð. Þetta er að vísu skáldlega sagt. En jeg býst við, að þegar farið er að kryfja tillögur okkar til mergjar, þá verði annað ofan á. Það er nú orðið samhuga álit meiri og minni hl. nefndarinnar, að aðalbjargráðið, að því er bankann snertir, sje hlutafjártakan. En rjett er að taka fram, að þetta ráð kom fyrst fram í nefndinni úr meiri hl., og hafði þá lítið hljóð.

En aðalágreiningurinn er nú um það, hvort skipa eigi seðlaútgáfu Íslandsbanka nú þegar út leyfistímann, eða gera fyrst bráðabirgðaráðstafanir til 1 árs, eins og meiri hl. vill, en skipa seðlaútgáfu ríkisins yfir höfuð endanlega þegar hlutafjárkaupin hafa farið fram.

Háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) gerir mikið úr því, hve nauðsynlegt sje, að bankinn fái nú þegar seðlaútgáfurjettinum endanlega skipað, og heldur því fram, að lánstraust bankans sje undir því komið.

En ef það er athugað, hvað felst í þessu skipulagi, sem hinir 8 þm. eru að bjóða, þá er mi engan veginn víst, að hluthafar Íslandsbanka fagni eins óstjórnlega yfir því og háttv. þingmaður býst við.

Í árslok 1924 má bankinn ekki hafa í umferð meira en 5 miljónir í seðlum, og frá þeim tíma til enda leyfistímans, 1933, á hann að draga inn seðla sína alla, þannig, að sem næst jafnhá fjárhæð sje dregin inn á ári hverju og tekin úr viðskiftaveltu.

Útkoman verður því sú, að eftir 4 ár verður seðlafúlga sú, er bankinn hefir í umferð, eigi meiri en samkvæmt hinum upprunalegu lögum, sem sje 21/2 miljón króna, en úr því fer hún að síga niður fyrir þá upphæð, þangað til hún verður engin. En það er vitanlegt, að þó leyfistíminn yrði eigi ákveðinn nema til eins árs, þá heldur þó bankinn aldrei minni seðlaútgáfurjetti en hann hefir eftir upprunalegu lögunum, auk þess, sem reynslan hefir altaf verið sú, að hann hefir fyrirhafnarlaust fengið seðlaútgáfurjettinn framlengdan. Það er því mikið vafamál, hvort frv. þetta vekur svo mikla gleði hjá bankanum.

Aðalatriðið er, að það þarf mjög mikla athugun og yfirvegunum, hvernig skipa eigi seðlaútgáfurjettinum framvegis og hverjir eigi að hafa seðlaútgáfurjettinn. Eins og kunnugt er, þá hefir sífeldur ófriður staðið um bankann að undanförnu. En er landið er búið að eignast bankann, mun ófriðnum linna með öllu. Bankinn mun ekki svo mjög hafa verið hræddur við það, hvernig seðlaútgáfurjettinum yrði skipað, heldur við hinn mikla óróa, sem altaf hefir verið í kring um bankann í hvert skifti er hann hefir þurft að fá seðlaútgáfurjettinn framlengdan. Og þeim óróa linnir ekki, fyr en landið er búið að fá yfirtökin yfir bankanum. Þá fyrst skapast friður um bankann, ef skipun stjórnar hans tekst ekki því óhöndulegar. Og eigi fyr en svo er komið, er hægt að koma sjerþekkingu fagmanna að við skipun seðlaútgáfurjettarins, því eins og jeg hefi tekið fram í nefndinni, þá hygg jeg, að rjett væri að fá færan erlendan bankamann til aðstoðar í þessu efni.

Jeg vil því eindregið halda því fram, að þess þurfi ekki vegna lánstrausts bankans, að gera endanlega ráðstöfun með seðlaútgáfurjettinn, heldur sje það hlutafjártaka ríkisins, sem eykur bankanum lánstraust. Og þar sem bankinn er þá kominn inn úr ófriðaröldunum, þá næst þó einnig það með hlutafjártökunni, sem bankinn hingað til hefir viljað aðallega ná með endanlegri skipun seðlaútgáfunnar, nefnilega það, að fá frið um starfsemi hans.

Háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) bar mjer það á brýn, að jeg færi með tvöfeldni í þessu máli. Þetta eru ekki vingjarnleg ummæli. Einmitt af því, að við höfum starfað saman í peningamálanefndinni, veit hann, að þetta er sú stefna, sem jeg fylgdi í upphafi og fyrstur hefi stungið upp á í nefndinni, að landið fengi yfirráðin yfir bankanum, sú stefna, sem jeg hefi altaf fylgt, af því jeg held, að hún sje sú álitlegasta, eins og málið nú horfir við.

Mjer komu því allóvart þessi ummæli þingmannsins, að jeg hafi sýnt tvöfeldni í þessu máli. En vera má, að háttv. þingmanni hafi sárnað það, að jeg skyldi drepa á óskabarn hans, stjórnina, í þessu sambandi, og fyrir þá sök hafi hann haft þessi ummæli um mig. Náið er nef augum.

Jeg get vísað til fyrri ummæla minna um brtt. okkar þm. Snæf. (H. St.) og mín; þær fara í þá átt, að gera bráðabirgðaráðstöfun á seðlaútgáfunni til eins árs.

Skal jeg þá minnast á tvær brtt., sem fram hafa komið við 5. gr. Önnur þeirra, er frá þm. Snæf. (H. St.), en hin er frá mjer. Jeg skal þá strax upplýsa það, að þó að við höfum komið með sína brtt. hvor okkar, er það ekki af því, að okkur beri nokkuð á milli, heldur af því, að jeg kunni betur við annað orðalag. Jeg kunni ekki við að segja: „Íslandsbanki skal auka“ o. s. frv. Kunni nefnilega ekki við að skipa hlutafjelagi að auka hlutafje sitt, því með lögum er ekki hægt að fyrirskipa það. Vildi jeg heldur segja: „Hlutafje Íslandsbanka má auka“ o. s. frv. En vitanlega þýðir þetta í raun og veru sama í báðum tilfellunum.

Aðalbreytingin frá frv. í báðum tillögunum er í því fólgin, að við leggjum áherslu á það, að bankinn auki hlutafje sitt um eigi minna en 100%. Flm. frv. hafa ef til vill meint þetta, en ekki orðað það nægilega skýrt í frumvarpinu, því að þeir segja „alt að 100%“, en með gr., þannig orðaðri, er frv. með öllu óaðgengilegt.

Hin breytingin, sem í tillögum okkar felst, er sú, að stjórnin geti neitað að leggja fram hlutafjáraukann eftir að matið á hlutabrjefunum er farið fram, ef henni sýnist það ekki tækilegt. En jeg hefi sett inn í mína tillögu, að hún skuli, hálfum mánuði eftir að matið er farið fram, segja til, hvort hún ætli að leggja fram hlutafjáraukann eða ekki.

Það felst í rauninni alveg það sama í brtt. háttv. þm. Snæf. (H. St.) og brtt. minni, eins og jeg hefi tekið fram. Það er aðeins örlítill orðamunur, sem þar skilur á milli. Og úr því hans till. fær hjer betri byr, þá tek jeg mína till. aftur. Áður en jeg fer svo frekar út í þetta, þá langar mig að minnast lítið eitt á brtt., sem kom frá háttv. 2. þm. Eyf. (E. Á.) og háttv. 1. landsk. þm. (S. F.). Jeg er rjett nýbúinn að sjá brtt. og skil hana svo, að samkvæmt henni geti bankinn ráðið allmiklu um það, hvað mikinn seðlaútgáfurjett hann fái aukinn þann tíma, sem eftir er af einkaleyfi hans, því samkvæmt tillögunni verður sú upphæð af seðlum, sem bankinn hefir úti 1923, lögð til grundvallar, þannig, að sú upphæð verður dregin inn með jöfnum greiðslum á hverju ári, sem eftir verður þá af einkaleyfistímanum. Ef jeg því skil þetta rjett, og á því mun enginn vafi, þá er með þessu búin til hvöt hjá bankanum til að hafa sem allra flesta seðla í veltunni, og þykir mjer það allóviturlega ráðið. Jeg verð því að telja þessa breytingu til verra eins frá landsins sjónarmiði, en ef bankinn leggur mikla áherslu á aukna seðlaútgáfu, þá verður brtt. til hagnaðar fyrir hann.

Það leiðir af till. okkar háttv. þm. Snæf.

(H. St.), að við leggjum til, að síðari málsgrein 1. gr. verði feld niður, og sömuleiðis 2. og 3. gr. En hvað viðvíkur gullforðanum, þá teljum við sjálfsagt, að hann verði fluttur upp til Reykjavíkur, enda er nú till. á leiðinni þess efnis.

Þá leggjum við til, að 6. gr. verði feld niður. Í henni er ákvæðið um endurskoðunarmenn bankans. Þetta ákvæði getur að vísu samrýmst seðlaútgáfunni, þó að til bráðabirgða sje, en jeg verð að álíta, að ekki sje ástæða til að auka enn við dýrum starfsmönnum við banka, sem ekki er stærri en þessi. En hitt vil jeg, að sú krafa sje gerð, að meiri hluti bankaráðs komi saman iðulega og ræki skyldur sínar samkvæmt lögum og reglugerðum bankans. Bankaráðið verður að finna til ábyrgðar þeirrar, — jeg verð að segja til hinnar miklu ábyrgðar, sem á því hvílir í þessu efni.

Það er meining okkar háttv. þm. Snæf. (H. St.) að leggja mikla áherslu á þetta atriði. Jeg hygg, að ef bankaráðið færi að rækja skyldu sína, þá sje eins mikil trygging fengin í því efni eins og ef endurskoðunarmenn væru til kvaddir.

Þá leggjum við einnig til, að 7. og 8. gr. verði feldar niður, enda eiga þær greinar ekki við bráðabirgðafyrirkomulagið.

Viðvíkjandi 10. gr. skal jeg aftur á móti taka það fram, að svo framarlega, sem ekki verður gengið að hlutafjárkaupunum, þá verða engin lög til um seðlaútgáfu Íslandsbanka á næsta hausti, en jeg býst ekki við, að ætlast sje til þess, að allir seðlar bankans, fram yfir 2% milj., verði innleystir fyrir þann tíma, enda væri það sama og að loka bankanum. Nú kann því ef til vill að verða svarað, að stjórnin verði þá að framlengja seðlaútgáfuna með bráðabirgðalögum. En jeg verð að telja það mjög illa farið, að þingið sleppi svo gálauslega valdi sínu í slíku stórmáli, sem jafnmikið er deilt um, í hendur stjórnarinnar. Jeg sje auk þess ekki betur en háttv. deild geti vel fallist á brtt. okkar háttv. þm. Snæf. (H. St.), að þessi lög gildi til næsta Alþingis, því hvað er eðlilegra?

Jeg ætla, áður en jeg sest niður, að geta þess, að það urðu mjer vonbrigði að heyra ræðu háttv. 1. flm. (E. Á.). Jeg hefði getað búist við því, eftir fyrstu undirtektum hans í þessu máli, að hann gæti tekið tillit til brtt. okkar háttv. þm. Snæf. En svo hefir ekki orðið. Hann hefir ekki tekið minsta tillit til aðalbrtt. okkar.

En það er eins með þessi vonbrigði og önnur, að maður verður að reyna að bera þau með þolinmæði, en verst væri það, ef þetta yrði til þess, að málið kæmist ekki í gegnum þingið.

Það var annars meining mín og hv. þm. Snæf. (H. St.), að æskilegt væri að reyna, hvort ekki sje leið til þess að koma með sjerstakt frv. um hlutafjelagskaupin. — Þetta var upphaflega tilætlun meiri hl. peningamálanefndar. Þar sem allir í þessari háttv. deild eru sammála um það, að sjálfsagt sje að auka hlutafje bankans, þá sýnist mjer, að slíkt frv. mundi eiga greiðan gang í gegnum þingið. Það væri til mikilla bóta, að þessi kjarni úr málinu kæmist klaklaust í gegnum þingið.