06.05.1921
Efri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2335 í B-deild Alþingistíðinda. (2476)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurður Eggerz:

Jeg verð að játa, að jeg heyrði ekki nema sumt af því, sem háttv. 1. landsk. þm. (S. F.) sagði. En mjer skildist á honum, að bankinn mætti hafa ástæðu til að óttast, að harkalega yrði tekið á honum, ef seðlaútgáfurjetti hans yrði nú ekki skipað til enda tímabilsins. En jeg hygg, að bankinn þurfi ekki að óttast slíkt, þegar landið er orðið stærsti hluthafi bankans, því þá væri það landinu í óhag, ef gert væri við bankann annað en það, sem honum væri hagur í.

Í ræðu háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) kom fátt nýtt fram, en þó gægðist þar fram misskilningur, sem jeg neyðist til að leiðrjetta.

Háttv. þm. (S. H. K.) sagði, að jeg segði, að höfuðstóll landsins, lánstraustið, væri horfinn. Hæstv. fjrh. (M. G.) sagði hið sama við 1. umr. þessa máls. En jeg sagði aðeins, að þessi höfuðstóll landsins hlyti að vera farinn að rýrna, eftir því að dæma, hvernig með hann hefði verið farið.

Hitt eru aðeins ráðþrotaöfgar, að bera mjer á brýn, að jeg hafi viðhaft ummæli, sem jeg aldrei hefi látið mjer um munn fara. En það dylst engum, eins og jeg hefi margtekið fram, að sterkasta vörnin um þennan dýrmæta höfuðstól var, að lán hefði verið tekið í tíma. Og þó mikið hafi verið vanrækt, þá vona jeg þó, að þjóðin sje enn eigi svo heillum horfin, að enn megi ekki takast að fá lán, en nú veit jeg, að það muni erfitt eða margfalt erfiðara. Frá bankans sjónanniði er mikill munur á fyrirkomulagi því, sem ráðgert er í frv., og brtt. háttv. 2. þm. Eyf. (E. Á.) og háttv. 1. landsk. þm. (S. F.). Það er sýnilegt, að samkvæmt brtt., ef hún verður samþykt, þá getur bankinn skapað sjer sjálfdæmi um það, hve mikið hann hafi úti af seðlum, þegar hann á að byrja að draga þá inn.

Háttv. 2. þm. S.-M. (S. H. K.) sagði, að ef brtt. okkar háttv. þm. Snæf. (H. St.) yrði samþ., þá væri sama freisting fyrir bankann til að hafa úti mikið af seðlum. En þetta er ekki rjett, því eftir okkar till. á ekki að skipa seðlaútgáfunni nema til eins árs, og ekkert sagt um, hvernig henni verði skipað framvegis, enda framtíðarseðlaútgáfan þar af leiðandi ekki bundin við það, hvað mikið verður úti af seðlum, að því ári liðnu, en samkv. brtt. hv. 2. þm. Eyf. (E. Á.) og háttv. 1. landsk. þm. (S. F.), þá er framtíðarseðlaútgáfan bundin við, hvað mikið bankinn má hafa úti af seðlum 1923. (S. H. K.: Það er búið að sanna, að þetta er vitleysa). Hvað er sannað? (S. H. K.: Það er sannað, að bankanum er það stór kostnaðarauki og óhagur að hafa úti meira af seðlum en hann nauðsynlega þarf). Þetta sýnir, hve háttv. þm. (S. H. K.) yfir höfuð er grunnskreiður í þessu máli. Bankann munar það engu, þótt hann hafi úti 2–3 miljónir kr. meira af seðlum seinasta mánuðinn á undan þeim tíma, sem hámark seðlaútgáfunnar er miðað við. En það nægir til þess að skapa honum aukna seðlaútgáfu, það sem eftir er af einkaleyfistíma hans, og því meira, sem hann bætir við sig seinasta mánuðinn, því meiri verður seðlaútgáfan.

Ef háttv. þm. (S. H. K.) skildi málið, þá mundi hann vera smáyrtari. Það er einfeldnislegt að treysta því, að bankinn hafi ekki meira úti af seðlum en hann nauðsynlega þarf, þegar hann er sjálfur látinn ráða því, hver topppunktur seðlafúlgunnar skuli vera.

Háttv. þm. (S. H. K.) heldur að öðru leyti fast við það, að svona löguð skipun á seðlaútgáfurjettinum til 1933 sje hið eina, sem bjargað geti bankanum. En þetta er marghrakið. Lánstraustið skapast við hlutafjáraukann, en ekki við skipun seðlaútgáfunnar fyrir lengri tíma, enda augljóst, að þegar landið er orðið stærsti hluthafinn, þá gæti það, ef það vildi, breytt seðlaskipun þeirri, sem nú yrði gerð. Svo ekki einu sinni er hægt að segja, að hluthafarnir erlendu hafi nokkra tryggingu fyrir, að sú skipun á seðlaútgáfunni, sem háttv. þingmaður vill flaustra af nú, haldist framvegis.

Háttv. þm. (S. H. K.) finst það einfeldnislegt af mjer að vera á móti stjórninni. Já, sumir telja rjettast að vera með öllum stjórnum, en í þeirra tölu verð jeg ei. En hitt veit háttv. þm. (S. H. K.) nú, að jeg hefi ekki verið að dvelja við ýmsar smáyfirsjónir, sem stjórnin hefir gert, en aðeins vítt hana fyrir stóru syndirnar, eins og þau hin miklu mistök, sem enginn veit enn, hvað miklu valda, að lán var ekki tekið til þess að bjarga landinu úr viðskiftakreppunni.

Þá hjelt háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) afarlangan lestur, og virtist vera að berjast við ósýnilegar verur einhversstaðar úti í bæ, sem hann sagði, að væru að reyna að veita bankanum banatilræði. Jeg læt hann einan um sínar ósýnilegu verur. En jeg verð að segja það, að eigi virðist vera neitt meiri velvilji hjá honum að fornu eða nýju til bankans en hjá okkur, þm. Snæf. (H. St.) og mjer, og jeg get ekki sjeð, að hann sýni á neinn hátt meiri vilja á að koma bankanum í rjett horf heldur en við.

Þá sagði sami háttv. þingmaður, að það væri sama og leggja bankann á höggstokkinn að ákveða ekki seðlaútgáfurjettinn nema til eins árs. (B. K.: Ekki sagði jeg nú það). Jeg skrifaði það eftir þingmanninum þegar hann sagði það. (B. K. : Jeg sagði, að það væri hægt að leggja bankann. á höggstokkinn á næsta ári, ef eigi væri ákveðið um seðlaútgáfurjettinn nema til eins árs). (S. H. K.: Alt vitlaust, sem þingmaðurinn fer með). Nú þykir mjer aðstoðarmaður háttv. 2. þm. G.-K. gerast allólmur. En aðalatriðið fyrir bankann er, að ríkið kaupi hlutabrjef í honum, eins og jeg hefi margtekið fram.

Annars er það dálítið broslegt, að það var einmitt hv. 2. þm. G.-K. (B.K.), sem í nefndinni átti fyrstu tillöguna um það að ákveða seðlaútgáfurjettinn aðeins til eins árs. (S. H. K.: Ósatt, það var enginn ákveðinn). Er það jeg eða 2. þm. Sunnmýlinga, sem hefir orðið? (S. H. K. : Jeg tala þegar farið er með bein ósannindi).

(Forseti hringir). Jeg kalla nefndina til vitnis um það, hvort jeg segi ekki satt, og það er ekki jeg, sem er vanur að fara með ósannindi. (S. H: K.: Ekki jeg heldur, eða vill hv. þm. beina því til mín?). Jeg er ekkert hræddur við hávaðann í 2. þm. Sunnmýlinga. (S. H. K.: Ó, ekki jeg heldur við háttv. 2. landsk. þm.). (Forseti hringir: Jeg slít fundi, ef menn tala svona saman, þangað til mönnum verður rórra í skapi).

Jeg veit ekki, hvað sagt er úti í bæ, eins og háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.), um það, hvernig haga skuli rannsókn á bankanum, en jeg hefi einungis haldið því fram, að fara ætti fram athugun á hag bankans, til þess að hægt sje að meta verðmæti hlutanna. En ef fara ætti fram rannsókn á honum, eins og Landsbankanum forðum, teldi jeg alveg ósæmilegt, því að sú rannsókn var ranglát og hefði getað orðið bankanum hættuleg, ef hann hefði ekki áður staðið á föstum fótum, vegna þess hve gætilega honum hafði verið stjórnað. Enda sýndi sig, að lítið varð úr því tapi, sem verið var að hrópa upp með. Mjer dettur ekki í hug að ætlast til, að slík rannsókn fari fram á Íslandsbanka. En kannske þm. G.-K. (B. K.) viti eitthvað, um það, hverjir hafa staðið á bak við gömlu rannsóknina. (B. K.: Þeir sömu, sem vilja láta þessa rannsókn fara fram).

Þá hjelt háttv. þm. (B. K.) því fram, að hin endanlega skipun á seðlaútgáfurjettinum væri aðalráðið til þess að leysa bankann úr kreppunni. En jeg hefi margtekið fram, að jeg tel það aukaatriði, en hlutafjárkaupin í bankanum sjeu aðalatriðið til þess að rjetta bankann við. Og þá fyrst, þegar þau eru gerð, sje ástæða til þess að tala um, hvernig skipa eigi seðlaútgáfurjettinum endanlega.

Þá spurði þingmaðurinn, hverjir ættu að borga þær 34 miljónir, sem einstakir menn skulduðu bankanum. Jeg veit ekki, hvernig hann spyr. Heldur hann að nokkrir aðrir eigi að borga þær heldur en þeir sjálfir, sem skulda? Því að það hefir aldrei verið meining vor að leysa menn frá skuldum þeirra, enda væri það skárra glapræðið.

Ef nú okkar fyrirkomulag, háttv. þm. Snæf. (H. St.) og mitt, verður ekki samþykt, þá berum við enga ábyrgð á því, þótt ekki rakni úr fjárkreppunni. En ef brtt. okkar verða samþyktar, þá er það trygt, að þetta frv. kemst í gegnum þingið. En eins og frv. er nú, mun það fá þungan andblástur.

Annars vildi jeg láta skipa milliþinganefnd, til þess að athuga öll bankamálin, og að hún fengi sjer svo erlendan sjerfræðing til aðstoðar, því að okkur vantar slíkan mann. Væri þetta stórnauðsynlegt, til þess að koma góðu skipulagi á bankamál vor.

Jeg skal svo að lokum taka það fram, að jeg tel hlutafjárkaupin, ef þau fara fram með fullri forsjálni, stórt sjálfstæðismál, sem allir skyldu vara sig að spyrna á móti.