06.05.1921
Efri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2341 í B-deild Alþingistíðinda. (2478)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Björn Kristjánsson:

Jeg ætlaði ekki að taka frekar til máls að þessu sinni, en það voru orð háttv. þm. Snæf. (H. St.) í dag, sem koma mjer til þess.

Út af þeim ákvæðum 6. gr., að hafa tvo menn til eftirlits með stjórn og rekstri bankans. sagði háttv. þm., að bankinn hefði nú yfirstjórn, sem ekki þyrfti að styrkja.

Jeg skal taka það fram að jeg og flm. frv. álitum, að nauðsynlegt væri að hafa þannig lagaða endurskoðendur í bankanum. Þetta er því orsök þess, að þetta ákvæði komst inn í frv. Og stakk jeg sjálfur upp á að hafa þannig lagaða „kritisk Revision“ við Landsbankann, er jeg var þar bankastjóri.

Þá þótti honum óhæfilegt, að sameinað Alþingi ætti að kjósa þessa menn. En jeg teldi, að það væri ekki heppilegra að stjórnin ætti að skipa þá. Vel getur verið um aðra heppilegri leið að ræða, en hann sýndi ekki fram á hana.

Þá þótti honum óheppilegt, að þessir menn væru launaðir af bankanum. Jeg fyrir mitt leyti teldi heppilegra, að þeir væru launaðir af ríkissjóði, en af hlífð við ríkissjóð vildum við ekki setja þetta ákvæði inn í frv., og skyldi jeg því vera fyrstur manna til þess að gangast inn á þetta, ef háttv. þingmaður vill koma með brtt. um það.

Ennfremur þótti háttv. þm. (H. St.), að það hefði verið óhæfa að segja, að peningamálanefndin hefði sofið í 7 vikur. Þó nú þetta þyki hart, þá er það samt satt, því að við komum saman nær því á hverjum degi og gerðum ekkert, og því líkt ósamkomulag hefi jeg aldrei þekt, síðan jeg kom á þing.

Hvað snertir áhrifin utan þings á þingmennina, þá skal jeg algerlega undanskilja hv. þm. Snæf. (H.St.). En allir þingmenn eru ekki þannig settir.

Þá talaði hann um, að við hefðum ekki haft hag bankans fyrir augum, er við sömdum frv., því að ef frv. yrði samþykt, þá misti bankinn seðlaútgáfurjettinn. En slíkt liggur við borð, hvort sem er. Er þá eigi annað fyrir stjórnina en að gefa út bráðabirgðalög, einmitt eins og þessir hv. þingmenn vilja nú. Það ætti því ekki að vera mikill vandi fyrir stjórnina. Jeg skal taka það fram, að jeg hefi alls ekki vantraust á þinginu sem heild, heldur á einstöku mönnum, því að menn eru altaf misjafnlega sjálfstæðir. Og fyrir því er svo komið í þetta sinn, að þetta mál málanna er ekki komið lengra, og engin vissa er fyrir því, að það komist nokkurntíma í viðunandi mynd út úr þinginu.

Jeg þarf ekki að svara neinu verulegu í ræðu háttv. 2. landsk. þm. (S. E.), því að hann kom ekki með nein rök á móti því, sem jeg sagði. En jeg vil aðeins svara því, sem hann skaut að mjer og vildi láta deildina skilja, að jeg hefði staðið á bak við þá rannsókn, sem gerð var á Landsbankanum 1909. En því er þar til að svara, að það eru þeir sömu menn, sem standa á bak við þetta mál og stóðu á bak við rannsóknina þá; hafa þeir gert sjer það að pólitískri starfsemi að hafa miður góð áhrif á bankamál landsins.

Jeg átti engan þátt í því.

Jeg sagði við 1. umr. um frv. þetta, að jeg byggist ekki við, að nein sú brtt. kæmi fram við það, sem til bóta væri. Þó mun jeg geta sætt mig við brtt. háttv. þm. Snæf. (H. St.). Tel hana vera til lítilla skemda. Líka mun jeg nokkurnveginn geta sætt mig við brtt. á þskj. 501, þótt jeg álíti hana ekki til bóta, hvorki fyrir bankann eða þjóðina.