06.05.1921
Efri deild: 63. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2343 í B-deild Alþingistíðinda. (2479)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurður Hjörleifsson Kvaran:

Jeg get tekið undir með háttv. 2. þm. G.-K. (B. K.) um það, að ekki er ástæða til að svara miklu þeim rökum, sem háttv. 2. landsk. þm. (S. E.) bar fram. Þar sem það er hjer aðalatriðið, að ef nú er ekki samið um fyrirkomulag seðlaútgáfunnar fyrir allan leyfistímann, þá þarf ekki aðeins að leggja fram fje til þess að eignast meiri hlutann í bankanum, heldur er hætt við að landið þurfi líka að standa straum af rekstrarfje handa honum. Og jeg er ekki viss um, að landið væri viðbúið því. Og þessi sami háttv. þm. (S. E.) hefir nú haldið því mjög fram, að lánstraust landsins væri skert orðið, og ætti hann því fremur að fallast á rök mín. Hins vegar vil jeg ekki, að hann sje að reyna að koma á mig ábyrgð á þeim brtt., sem jeg hefi talað um hjer og mælt í móti.

Annars skal jeg virða þessum háttv. þm. (S. E.) það til vorkunnar, þótt hann væri nokkuð æstur í dag. Þeir atburðir voru að gerast í háttv. Nd., sem hafa haft miður holl áhrif á skapsmuni hans. Það er nú bráðum komið að þinglausnum, og háttv. þingmaður verður nú að líta yfir þessa vertíð sína, og sjá! hann hefir aflað lítið. Hann hefir róið alla vertíðina og aldrei fengið einn í hlut, og því hefir nú farið sem farið hefir.