09.05.1921
Efri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2349 í B-deild Alþingistíðinda. (2484)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Halldór Steinsson:

. Jeg þóttist hafa gert ítarlega grein fyrir skoðun minni á 6. gr. þessa frv. við 2. umr. málsins, og fyrir því tel jeg óþarfa að fara mörgum orðum um brtt. mína og háttv. 1. landsk. þm. (S. F.) á þskj. 532.

Jeg sagði þá, að jeg teldi þessa endurskoðun óþarfa, því þegar bankinn væri orðinn eign ríkisins gæti ríkisstjórnin orðið mestu ráðandi um stjórn hans. En til þess að kveða skýrt á um þetta, þá hefi jeg, ásamt 1. landsk. þm. (S. F.), komið með áðurgreinda brtt., um að ríkisstjórnin skipi tvo af þremur bankastjórum bankans. Jeg vænti því, að þessi brtt. fái góðar undirtektir. Og skal svo geta þess, að ef þessi brtt. verður samþ., þá er aðeins eftir einn agnúi á þessu frv., og hann er hin endanlega ákvörðun um seðlaútgáfuna.

En þrátt fyrir þennan agnúa vildi jeg leggja til, að þetta frumvarp yrði nú samþ. eins og það nú verður með brtt.

Að endingu skal jeg svo geta þess, að jeg er samþykkur þeim, sem stungið hafa upp á því að skipa nefnd, sem svo tæki sjer sjerfræðing til aðstoðar, til þess að athuga öll bankamálin í heild sinni. Og sje þetta gert, þá lít jeg svo á, að þingið gerði skyldu sína í bankamálunum, þar sem það hjálpaði bankanum fram úr mestu vandræðunum, og gerði jafnframt gangskör að því, að bankamálunum í heild sinni yrði í náinni framtíð skipað í sæmilegt horf. Gæti þá enginn með sanngirni legið því á hálsi fyrir slælegar aðgerðir í þessu efni.