09.05.1921
Efri deild: 65. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (2486)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg ætla með nokkrum orðum að gera grein fyrir brtt. á þskj. 532. Jeg leit svo á, að endurskoðendurnir væru nauðsynlegir til þess að benda ríkisstjórninni á misfellur, sem fyrir gætu komið, svo hún gæti þá gripið í taumana, ef henni sýndist. En ef ákveðið verður, að ríkisstjórnin skipi tvo af þremur bankastjórum bankans, þá fellur þörfin á endurskoðendunum að mestu eða öllu leyti niður. Jeg tel það líka galla, að fara að stofna þarna tvö ný embætti, hliðstæð bankastjórastöðunum, ef komist verður hjá að álíta það brýna nauðsyn, enda ekki laust við, að það líti svo út, sem þessir menn væru settir til höfuðs bankastjórninni.

Ennfremur vil jeg benda á, að næsta þing muni að líkindum gera nýja ráðstöfun um bankaráðið, sem menn hafa verið óánægðir með, og gæti þetta þá, þ. e. endurskoðendurnir, komið aftur til athugunar.

Svo skal jeg taka það fram, viðvíkjandi því, sem háttv. þm. Snæf. (H. St.) sagði um endanlega ákvörðun á seðlaútgáfunni, að engin ákvörðun er um það gerð í frv., hvað gera eigi við seðlana, sem Íslandsbanki skilar.

Að endingu skal jeg lýsa ánægju minni yfir því, að hv. 2. landsk. þm. (S. E.) skuli ætla að vera með frv., og tel jeg það deildinni til mikils sóma, ef hún afgreiðir það með öllum greiddum atkvæðum.