17.05.1921
Neðri deild: 71. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2352 í B-deild Alþingistíðinda. (2494)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Magnús Kristjánsson:

Þegar frv. á þskj. 520 var hjer til 2. umr., urðu undirtektir ekki sem skyldi, eða eins og hefði mátt búast við, að þær yrðu. Þess vegna berum við flm. þess frv. fram brtt. á þskj. 617 við þetta frv., sem hjer liggur fyrir.

Það er ekki meining mín að ræða málið ítarlega nú, því það hefir þegar verið gert, en aðeins minnast á brtt. og þau atriði, sem standa í nánu sambandi við þær. En jeg get ekki komist hjá að minnast lítillega á þær tvær stefnur, sem koma fram í þessum tveim frv., á þskj. 520 og 541.

Úr því það lítur út fyrir, að hv. deild geti ekki fallist á frv. á þskj. 520, sem hún þó verður að játa, að sje það besta, sem komið hefir fram í málinu, þá finnum við flm. frv. okkur knúða til þess að koma fram með brtt. á þskj. 617.

Við 2. gr. frv. viljum við gera þá breytingu, að í stað þess að frv. gerir ráð fyrir, að seðlainnlausn Íslandsbanka verði jafnhá upphæð á ári hverju, frá 1. maí 1922 til loka leyfistímans, leggjum við til, að hún verði ein miljón á ári fyrstu árin, en fari síðan lækkandi þannig, að allir seðlarnir verði innleystir fyrir lok leyfistímans.

B.-lið brtt. þarf ekki að skýra; það er svo sjálfsagt, að seðlarnir gangi til þjóðbankans, að um það geta engar deilur orðið. —

Þá er brtt. við 5. gr. frv. Þar kemur fram sá stefnumunur, sem áður hefir verið minst á. Í Ed.-frv. er gert ráð fyrir, að ríkisstjórnin skuli, eins fljótt og verða má, kaupa hluti í Íslandsbanka, þannig, að hlutafje bankans aukist um 100%. Við álítum aftur á móti heppilegra, ef nauðsynlegt er að hjálpa honum, að gera það þá með því, að ríkissjóður gangi í ábyrgð fyrir bankann, eða láni honum fje, þannig, að ríkið veiti honum annaðhvort ábyrgð á 6 miljónum eða 5 milj. kr. lán. En með því er ekki afráðið, að ríkið kaupi hluti í bankanum. Við álítum þetta bæði svo stórvægilegt og afdrifaríkt mál, að það sje óverjandi að hrapa að því á nokkurn hátt.

Þó að við fjellum frá aðalbreytingunni í 1. grein frv. á þskj. 520, þá höldum við fast við, að þessar brtt. eigi fram að ganga. Og jeg get lýst því yfir fyrir mitt leyti, að jeg get tæplega greitt frv. atkvæði, ef þessar brtt. verða ekki samþyktar.

3. og 4. brtt. eru afleiðingar af hinum fyrri, og þarf ekki að orðlengja um þær.

Hjer liggja fyrir fleiri brtt. Fyrst á þskj. 597 frá 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Eina af þeim, 4. brtt., get jeg aðhylst. Hinar tel jeg muni fremur spilla frv. heldur en bæta það.

Þá eru brtt. á þskj. 628; um þær er ekki annað að segja en það, að hv. flutningsmenn virðast ekki hafa hugsað málið nógu rækilega. Jeg get ekki sjeð, að brtt. eigi við frv., en því kynni að mega breyta svo fyrir 3. umr., að hægt verði að fallast á þær.

Jeg get ekki fallist á, að 6. gr. falli burt, ef frv. á að ganga fram.

Þá verð jeg lítillega að minnast á stefnumuninn, sem kemur fram í frumvörpunum.

Háttv. Ed. álítur, að mest ríði á, að landið taki Íslandsbanka á sína arma og bjargi honum út úr vandræðunum á þann hátt. Það lítur út fyrir, að sumir hv. þm. sjeu haldnir af einhverjum ótta fyrir því, að annars verði bankinn að hætta störfum sínum. Þetta hlýtur að stafa af því, að þeir hafi ekki rannsakað málið niður í kjölinn.

Jeg játa það, að það væri óheppilegt, ef Íslandsbanki hætti starfsemi sinni. En alt má kaupa of dýru verði. Jeg álít, að ríkið taki of miklar skuldbindingar á sig, ef frv. er samþ. Að kaupa hluti tel jeg óframkvæmanlega leið, meðan ekki hefir verið rannsakað ástand bankans til hlítar. En að lána gegn hæfilegum tryggingum, hygg jeg ekki eins hættulegt. Þetta er aðalskoðanamunurinn.

Þá er hitt, að hvað sem við leggjum í sölurnar til þess að koma Íslandsbanka í viðunanlegt ásigkomulag, þá verður það á kostnað Landsbankans. Því eftir því sem ríkið tekur á sig meiri skuldbindingar hans vegna, eftir því dregur meira úr vexti og viðgangi þjóðbankans. Jeg held, að með því, sem verið er að gera í þessu máli hjer á þingi, þá verði það alment álit landsmanna, að of langt sje gengið í því að hlynna að Íslandsbanka, en Landsbankinn sje látinn sitja á hakanum.

Okkur finst ekki vera rjett að veita Íslandsbanka hlunnindi á hlunnindi ofan fyrir nálega ekkert, eða að veita honum seðlaútgáfurjettinn fyrir sama gjald og upphaflega. Það er ekkert undarlegt, þó bankanum hafi verið veitt upphaflega sæmileg kjör, þegar tekið er tillit til þess, hverjar vonir menn gerðu sjer um starfsemi hans. Það sjest af inngangi laganna 1905 um stofnun Íslandsbanka, að menn gerðu sjer mjög glæsilegar vonir um hann, en því miður hafa þær vonir brostið. En nú, þegar þessar vonir eru allar þrotnar, þá er það sjerstaklega varhugavert að veita bankanum mikil hlunnindi, án þess nokkuð verulegt komi á móti, og veita seðlaútgáfurjettinn fyrir óhæfilega lágt gjald. Og það er mjög einkennilegt og varhugavert að verðlauna bankann fyrir frammistöðu hans.

Þá er aðeins eitt atriði enn, sem virðist ekki nógu athugað í Ed.-frv. 2. málsgrein 2. gr. hljóðar svo:

„Seðlaútgáfa sú, sem á þennan hátt losnar, hverfur á þessu tímabili til ríkissjóðs, og skal fyrir 1. júní 1922 ákveðið með lögum, hversu seðlaútgáfu þessari skuli komið fyrir framvegis“. Jeg vil biðja hæstv. fjrh. (M. G.) að skýra frá því, hvort bankinn eigi að hafa ótakmarkaðan seðlaútgáfurjett áfram, eða hvort á að miða við seðlaupphæð þá, sem í umferð verður 1. maí 1922.

Jeg sje svo ekki ástæðu til að fara lengra að svo komnu út í málið.