19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (2516)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sveinn Ólafsson:

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) hefir að nokkru leyti tekið af mjer ómakið, þar sem hann benti rjettilega á það, að eftir tillögum háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) og eftir því sem orðin fjellu hjá hæstv. fjrh. (M. G.), þá hljóti aukaseðlarnir að verða gefnir út af Íslandsbanka, og rjetturinn er þá hjá honum, en ekki hjá ríkissjóði.

Það er því bersýnilegt, að af þessum tvennum tillögum lúta brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) meira að því að draga fram hlut Íslandsbanka gagnvart ríkinu eða gagnvart Landsbankanum.

Fyrir þá skuld álít jeg ekki, eins og jeg hefi tekið fram áður, tiltækilegt að ljá þeim lið.

Skal jeg svo ekki fjölyrða meira um þetta, en víkja nokkuð að því, sem hæstv. fjrh. (M. G.) sagði um tillögur okkar þm. Ísaf. (J. A. J.) á þskj. 654. Hann hjelt því fram, að tillögur okkar væru ekki aðgengilegar, meðal annars vegna þess, að ef þær næðu fram að ganga, þá gæti það orðið hvöt fyrir Íslandsbanka til þess að reyna að hafa sem mest af seðlum úti, þegar innlausnartími þeirra byrjaði. En jeg hygg, að það sje á valdi stjórnarinnar, hvað mikið er í umferð á þeim tíma. Það má máske segja, að bankinn gæti farið að lána sem mest út og gefa sem mest út af seðlum, rjett áður en innlausnin byrjaði. Það er óviðfeldið að gera ráð fyrir slíku, og það ætti að vera á valdi stjórnarinnar, hvort seðlaumferðin er hæfileg.

Mjer virtist hæstv. fjrh. (M. G.) aðhyllast frekar brtt. háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) heldur en okkar þm. Ísaf. (J. A. J.), en það kom ekki skýrt fram í orðum hans.

Hæstv. fjrh. (M. G.) mótmælti því, að matið á hlutabrjefunum væri ekki fulltrygt eftir frv. Munurinn á þessu er, að eftir frv. eiga fulltrúarnir að ákveða verðið, en eftir tillögum okkar eiga þeir aðeins að gera tillögur um það, og er þetta geysimikill munur. Hitt er það, eins og jeg tók fram, að ekki er verið að væna þá menn, sem kosnir verða af Alþingi, um það, að þeir meti ekki rjett verð hlutabrjefanna. Það er svo langt frá, að í till. okkar liggi nokkurt slíkt vantraust, og er því óþarfi að leggja þá meiningu inn í hana. Það væri heldur engin ástæða að gruna menn um slíkt, en trygging fyrir því, að þetta mat yrði rjett, er ekki meiri heldur en ef farið væri eftir till. okkar. Það hefir komið fram í umræðunum, þó mjer sje ekki fyllilega ljóst, hvaða þýðingu það hefir, að dómendur í hæstarjetti sjeu hluthafar í Íslandsbanka. Þótt svo væri, tel jeg enga ástæðu til að vantreysta þeim.

Að það sje ósanngjarnt gagnvart bankanum, að aðeins þingkjörnir fulltrúar segi álit sitt um það, hvað þeir telji sanngjarnt verð brjefanna, get jeg heldur ekki sjeð. Matið á að vera algerlega óhlutdrægt og bygt á nákvæmri rannsókn.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta.