20.05.1921
Efri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2405 í B-deild Alþingistíðinda. (2525)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Halldór Steinsson:

Það mun óhætt að segja, að þetta mál, bankamálið, hefir verið langvandasamasta málið, sem fyrir þessu þingi hefir legið, og um það hefir líka verið háð hörðust barátta. Baráttan hefir snúist um það, hvort styðja bæri Íslandsbanka. reisa hann við og gera starfhæfan, eða hvort alt skyldi halda áfram að sitja fast í sama feninu og áður.

Viðreisnarstefnan hefir nú orðið ofan á, sem betur fór. Og það er þessari háttv. deild að þakka. Hún sýndi svo góðan skilning og mikla festu í málinu, að háttv. Nd. varð að haga gerðum sínum með hliðsjón af vilja þessarar deildar. Þess vegna getum við skoðað þetta frv. ennþá sem okkar verk, því að breytingar þær, sem það hefir tekið í háttv. Nd., eru mjög smávægilegar. Jeg vona því, að háttv. deild sýni frv. sama sóma og áður og afgreiði það í einu hljóði sem lög.