20.05.1921
Efri deild: 75. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2406 í B-deild Alþingistíðinda. (2526)

117. mál, seðlaútgáfa Íslandsbanka hlutafjárauka o. fl.

Sigurður Eggerz:

Jeg tók það fram við síðustu umr. þessa frv. hjer í deildinni, að vegna ákvæða, sem þá komust inn í það, gat bankinn ráðið miklu um það, hve mikla seðlaútgáfu hann hefði framvegis, með því að hafa nógu mikið úti af seðlum, þegar hann byrjaði að draga inn seðlana samkv. frv. Nú hefir þessu verið breytt í háttv. Nd., með því að setja inn í frv. ákvæði um það, að bankinn megi ekki hafa úti meiri seðla en 8 milj. kr. 31. okt. 1922. Þetta tel jeg til bóta.

Þrátt fyrir það, þótt jeg telji enn vera töluverðan galla á frv., þann galla, að seðlaútgáfu bankans er nú skipað fyrir lengri tíma, en það átti ekki að gera fyr en á eftir hlutabrjefatökunni, með aðstoð fagmanns, eins og jeg hefi áður lagt áherslu á, þá er þó fengið þar aðalatriðið, sem eru kaup á hlutabrjefunum til handa ríkissjóði. Mun jeg því fylgja frv.