13.05.1921
Neðri deild: 69. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2411 í B-deild Alþingistíðinda. (2533)

135. mál, heimild til lántöku fyrir ríkissjóð

Fjármálaráðherra (M. G.):

Jeg vil þakka háttv. þm. Dala. (B. J.) fyrir hugulsemina, því það er langt frá því, að jeg taki það illa upp fyrir honum að bera fram þetta frv., eða ætli að leggjast á móti því. Jeg sje þó ekki ástæðu til að taka endanlega afstöðu til frv., fyr en sjeð verður um gerðir þingsius í bankamálunum. Sumir álíta rjettara að setja ákvæði þessa frv. inn í hin fyrirhuguðu lög um bankamálin. Stjórnin er líka með þessu sett í nokkurn vanda. Vildi jeg t. d. gjarnan fá að vita, hve mikið er ætlast til, að þetta fjelag fái að láni, sem háttv. þm. Dala. (B. J.) talaði sjerstaklega um.

Jeg vil stinga upp á, að frv. verði hleypt til 2. umræðu, því þá verður væntanlega betra að taka afstöðu til þess. Jeg veit ekki um það enn, hvort háttv. deild vill láta ríkið veita Íslandsbanka lán. Fyr en það er afgert, er ekki rjett að gera út um þetta frv. Því er rjett að láta það heldur vera samferða Íslandsbankafrv. Jeg veit ekki, hvað háttv. þm. Dala. (B. J.) meinti með sumu af því, sem hann sagði. En jeg get tekið það aftur fram, að jeg tek flutning þessa frumvarps alls ekki sem neina óvináttu frá hans hálfu.