19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2414 í B-deild Alþingistíðinda. (2544)

135. mál, heimild til lántöku fyrir ríkissjóð

Jakob Möller:

Jeg á brtt. á einhverju þingskjali, sem jeg get fallist á að taka aftur, og aðhyllist þá till. hæstv. fjrh. (M. G.). Jeg skil það líka vel, að hæstv. ráðherra hafi fundið einhverja þörf á því að breyta að minsta kosti fyrirsögn frv., og hann hefir líka gert það og sett „til lántöku fyrir ríkissjóð“, í stað „gjaldeyrislán“. En það væri fróðlegt að vita, hvers konar lán stjórnin hygst nú að taka. Jeg hefi fyrir mjer prentaða fjármálaræðu hæstv. fjrh. (M. G.) í þingbyrjun, og þar flokkar hann öll hugsanleg lán í 4 flokka:

Eyðslulán,

verslunarlán,

lán til arðvænlegra fyrirtækja og gróðalán („Spekulations“ -lán).

Hann tekur það skýrt fram um alla þessa flokka, að ekki gæti komið til mála, að stjórnin tæki slík lán, og hann telur óþarfa að taka gjaldeyrislán, enda nái þau lán sjaldnast tilgangi sínum. Nú vill hæstv. ráðherra kalla þetta lán til þess að bæta úr viðskiftakreppunni. En er þá um nýjan flokk lána að ræða? Eða fellur lán þetta ef til vill undir gengislán?

Þá vildi jeg spyrja, hvaða álit stjórnin hafi nú á lánspostulunum, sem hún hefir svo mikið talað um. (Fjrh.: Sama og áður). Þá skil jeg ekki, hvers vegna stjórnin fetar í fótspor þeirra. Það hefir ekki komið fram neitt nýtt í málinu; ástandið nú er aðeins eðlilegt áframhald ástandsins, sem var í þingbyrjun. Sje nú þörf á lántöku, hverju nafni sem nefnist, þá var það áreiðanlega þá líka.

Þetta ætti að vera nægilegt, til þess að sýna háttv. deildarmönnum snarsnúning stjórnarinnar,en hitt er eftir að vita, hvað valdið hefir.