19.05.1921
Neðri deild: 74. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2415 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

135. mál, heimild til lántöku fyrir ríkissjóð

Jakob Möller:

Jeg get ekki trúað öðru en að það hafi komið háttv. deildarmönnum á óvart, hvernig hæstv. ráðherra (M. G.) vill flokka þetta lán. Hann telur það lán til arðvænlegra fyrirtækja, en til hlutakaupa í Íslandsbanka skilst mjer, að ekki hafi verið stofnað í þeim tilgangi. Það mun að minsta kosti vera meining þingsins, að það sje ekki gert til þess að græða á hlutunum, heldur til þess að afla landinu gjaldeyris erlendis. En ef hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) ætlar að taka lánið sem lán til arðvænlegra fyrirtækja og til að græða á því, þá hefir hann hringsnúist enn harkalegar en jeg hugði. Jeg hjelt, að hann líti á lán þetta sem neyðarúrræði, en hann þykist nú líta á það sem „spekulation“. Á þeim lánum hneykslaðist hann mest í þingbyrjun, en það lítur út fyrir, að margt hafi breyst í höfði hæstv. ráðherra (M. G.) síðan. Þá var talað um, að rjett hefði verið að taka lán í Ameríku, og það hefði að vísu að nokkru leyti verið „spekulation“, en „spekulation“, sem landið hefði grætt á. Úr því, að lán átti að taka, eða þurfti að taka, þá hefði það ekki átt að fæla stjórnina frá því að leita þess í Ameríku, að víst mátti telja, að landið gæti grætt hálft lánið á gengismismun, þó að kalla mætti það „spekulation”. Nú verður varla um neina slíka „spekulation“ að ræða. Það er víst ekki annað fyrir en að krjúpa enn einu sinni sambandsþjóð vorri, og á því græðist ekki. Danska krónan er nú í lágu verði, en þegar greiða á lánið verður hún líklega komin í fult verð. Þetta er því þveröfug „spekulation“, eða „spekulation“, sem tapast á.

Hæstv. stjórn getur skemt sjer við það að hæla sjálfri sjer fyrir varkárni. Aðrir verða víst ekki til þess. Og sú varkárni hefir orðið landinu dýr, því að nú neyðist hæstv. stjórn til þess að taka lán, sem jeg býst við, að með rjettu megi kalla því nafni, sem hæstv. ráðherra (M. G.) viðhafði áðan. Jeg býst við því, að það reynist oss sannnefnt „óskapalán“.

Það var eðlilegt, að hæstv. ráðherra (M. G.) reyndi að bera í bætifláka fyrir hringsnúning sinn, en jeg læt háttv. deild um að dæma um það, hvernig honum hafi tekist það.