20.05.1921
Efri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2421 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

135. mál, heimild til lántöku fyrir ríkissjóð

Sigurður Eggerz:

Jeg skal ekki þreyta háttv. deild með langri ræðu. Enda gerist þess ekki þörf, því að jeg hefi oft lýst hjer skoðun minni á nauðsyn þessarar lántöku.

En það er eitt atriði, sem jeg vil minna á. Jeg kann illa við að hafa lánsheimild eins ótakmarkaða og hún er í þessu frv. Þar er ekkert hámark. Þetta segi jeg þó ekki af því, að jeg sje hræddur um, að stjórnin misbeiti heimildinni, en jeg tel yfirleitt óviðkunnanlegt að veita lánsheimild þannig lagaða. Ef til vill kem jeg því með brtt. til 3. umr., en þó ekki, ef jeg sje, að málinu væri með því teflt í voða, því að það gleður mig mjög, að alt þingið er komið á þá skoðun, að nauðsyn sje að taka lán.