03.05.1921
Neðri deild: 61. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2425 í B-deild Alþingistíðinda. (2578)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Frumvarp þetta er framkomið að tilhlutun stjórnar Síldveiðifjelags Íslands, eins og sjá má af þskj. 402. Stjórn fjelagsins hefir látið frv. fylgja greinargerð; en þó þykir mjer viðkunnanlegra að bæta þar við nokkrum orðum.

Það er oft tekið svo til orða, að fiskimiðin kring um strendur Íslands sje einhver auðugasta gullnáma heimsins. Þetta er auðvitað eins og það er virt; en það er víst, að þetta má til sanns vegar færa; en þá er um leið að líta á það, hvort þessi gullnáma hafi ávalt orðið þjóðinni til blessunar. Mjer virðist nokkuð skorta á það, að svo hafi ætíð verið. Þjóðina skorti lengi hagsýni og áræði til þess að notfæra sjer þessi gæði, og framleiðslan var lengi framan af ekki verslunarvara. En útlendingar komu snemma auga á þessi auðæfi og hagnýttu sjer þau. En eftir því sem þjóðin mannaðist, fóru menn að veita því eftirtekt, að óviðfeldið væri að útlendingar tækju öll þessi gæði rjett fyrir húsdyrum vorum. Þess vegna hafa menn nú á síðustu árum lagt meira kapp á það að hagnýta sjálfir auðsuppsprettur landsins. Og þá óviðfeldið væri að útlendingar tækju öll vor stendur fullkomlega jafnfætis sjómönnum annara landa, ef ekki feti framar. En það má segja, að fullgeist hafi verið af stað farið. Þjóðin hefir varið tugum milj. til þess, að atvinnuvegurinn væri stundaður með þeim tækjum og á þann hátt, sem samsvaraði kröfum nútímans. En því miður hefir reynslan orðið sú, að sú viðleitni virðist ekki hafa svarað kostnaði.

Og ástæðurnar liggja í því, að samkepni útlendinga hefir valdið því, að það, sem framleitt var, kom ekki að fullum notum, með því að keppinautarnir áttu hægara aðstöðu hvað markaðinn snerti, og þeir innlendu menn urðu þá ver úti í viðskiftum sínum. Það má segja, að þessi 3 síðustu ár hafi verið óhagstæð, og það mun ekki vera of djúpt tekið í árinni að segja, að þessi atvinnuvegur standi nú á harmi glötunarinnar, ef ekki er að gert. Það er því eðlilegt, að hugsandi menn og forgangsmenn í þessum atvinnurekstri geri eitthvað til að ráða hót á þeim misfellum, sem nú eru, og stofni með sjer fjelagsskap í því skyni að vinna að því, að atvinnuvegurinn verði rekinn á sem hagkvæmastan hátt. Stefna þessa frv. er nú sú, að takmarka veiðina, með því að gera útlendingum erfiðara fyrir en verið hefir til að keppa við innlenda menn. Í öðru lagi að reyna að haga sölunni svo, að síldin verði aðallega seld hjer á landi, seld á skipsfjöl hjer. Á síðari árum hefir þetta verið lítt mögulegt, því kaupendur hafa gert með sjer samtök um að heimta vöruna flutta heim til sín, eða þangað sem þeim hentaði hest.

Í þriðja lagi kemur það atriði til greina, að framleiðslan verði hæfilega mikil, svo verðfall verði ekki af því, að of mörg framboð sjeu fyrir hendi. Og enn er eitt atriði, sem getur orðið til hagnaðar, en það er, að allir standa jafnt að vígi að njóta bestu kjaranna. Auk þess er áhersla á það lögð, að nákvæmt eftirlit sje haft með vöruvönduninni og að tilraunir sjeu gerðar til þess að auka markaðinn fyrir hana.

Jeg hygg nú, að háttv. þingdeild sje það ljóst, að hjer er ekki um neinn hjegóma að ræða, heldur mjög mikilsvert mál. Enda hefir fregnin um þetta mál flogið svo að segja land úr landi og vakið feikna eftirtekt. Af þessu virðist mjer mega ráða, að þar sem þessir útlendingar telja þennan atvinnuveg svo þýðingarmikinn fyrir sig, þá sje hann það ekki síður fyrir oss, ef rjett er á haldið. Ef þessi fjelagsskapur kæmist á fót, þá er líklegt, að koma megi alveg í veg fyrir það, að stórtjón hljótist af þessum atvinnurekstri nú þegar á þessu ári. Það er því beinlínis skylda þingsins að sjá fyrir því, að þetta mál nái fram að ganga.

Það gæti komið til mála að setja inn í þetta frv. ákvæði um að fresta framkvæmd laganna, ef fullkomin vissa fengist fyrir því, að nú væru fyrir hendi viðunanleg tilboð frá útlendum fjelögum um kaup á þeirri síld, sem veidd yrði á þessu ári, t. d. sem svaraði 150 þús. tunnum.

Nefndin hefir nú við athugun frv. gert nokkra breytingu á því, t. d. felt burtu ákvæði, er fjelagið lagði mjög mikla áherslu á, en sem nefndin áleit, að mundi valda deilum við erlend ríki. Frv., eins og það var, gerði útlendingum með öllu ómögulegt að stunda veiði hjer; en slíkt fær ekki staðist, því margir útlendir menn hafa öðlast rjett búsettra manna hjer, að því er snertir verkun aflans á landi, og þá er ekki hægt að meina þeim að veiða utan landhelgi og verka á stöðvum sínum á landi. En úr því að þessu er breytt, sje jeg ekki, að frv. geti valdið neinni óánægju milli landsstjórnarinnar og annara ríkja.

Nefndin hefir einnig gert aðrar breytingar, t. d. að allir fjelagsmenn fái sama rjett, hvort sem þeir leggja meira eða minna af mörkum. Í upprunalega frv. var þetta eigi nægilega skýrt fram tekið. Nefndin hefir síðan sjeð, að breyta mætti orðalagi á 1. gr. frv., og mun koma með breytingu í þá átt við 2. umr.

Jeg vildi beina þeim tilmælum til hæstv. forseta, ef frv. verður samþ. nú, að láta það koma svo fljótt til umræðu aftur, að frá því megi ganga í þessari viku hjer í þessari deild.