10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2433 í B-deild Alþingistíðinda. (2587)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Gunnar Sigurðsson:

Það blandast víst engum hugur um það, að hjer er um mjög mikið nauðsynjamál að ræða, þar sem síldaratvinnuvegurinn er. En jeg skal taka það fram, að mjer þykir þetta mál, bæði af hálfu sjútvn. og stjórnar Síldveiðifjelagsins, illa undirbúið, þótt sjútvn. hafi gert tilraunir til þess að breyta því til batnaðar.

Jeg rjeðst því í það á síðustu stundu að gera nokkrar brtt. við frv. Aðalatriðið, sem fyrir mjer vakti að koma með þessar brtt., var að útiloka það, að algerlega væri tekið fram fyrir hendurnar á útlendingum um að koma hjer síld á land, þótt hv. flm. (M. K.) teldi það nauðsynlegt. En mjer er það nú með öllu óskiljanlegt, að úr því að ekki sje hægt að meina mönnum að veiða síld utan landhelgi, að þá ætti að fara að meina mönnum að fara með síldina á land til verkunar. Það gæti líka komið okkur illa, að ganga svo hart að útlendingum þessum, þar sem vjer erum svo mjög upp á þá komnir, Svía með síldarmarkaðinn og Norðmenn með kjötmarkaðinn. Þeir gætu hæglega gert okkur þá skráveifu, sem okkur kæmi mjög illa. Hins vegar gætu þeir ekkert sagt við því, þótt þeir væru settir á sama bekk og okkar síldveiðifjelög. Það á að takmarka veiðina, og það er líka hægt, að því er útlendingana snertir. Samkvæmt 1. gr. þarf sjerstakt leyfi hjá ríkisstjórninni til þess að verka síld hjer í landi. Það er nú að vísu erfitt að skera úr því, hverjir skuli fá slíkt leyfi og hverjir ekki, en jeg sje þó ekki, að annað ráð sje fyrir hendi. Og í höndum sanngjarnrar og röggsamrar stjórnar ætti leyfisgjöfum að geta verið svo hagað, að ekki væri gengið á hlut neinna landanna. Það mundi þegar mjög draga úr komu þessara þjóða, er þeir eru neyddir til að selja í samlögum við landsmenn og með sama verði og þeir.

Eftir frv. stjórnar Síldveiðifjelagsins er hægt að banna útlendingum að verka síld hjer, en ekki hægt að koma í veg fyrir það, að Íslendingar yrðu leppar fyrir þá, og það mundi áreiðanlega verða í stórum stíl.

Í mínum brtt. er nú gengið út frá því, að fjelagsstjórnin skuli skipuð 5 mönnum, og skal ríkisstjórnin skipa formann, en fjelagið kjósa hina 4. Þetta gerði jeg til samkomulags, því að annars væri æskilegast, að stjórnin hefði sem allra mest vald. En eins og frv. er nú, er ekki að sjá, að stjórninni sje ætlað að gera annað en að veita þessi leyfi. Að vísu á hún að samþykkja þá væntanlegu reglugerð, en það er of lítið. Satt að segja hefði jeg helst kosið, að salan væri algerlega í höndum stjórnarinnar eins og nú standa sakir.

Þessi lög eru „skematisk“, beinagrind, sem á að fylla út með væntanlegri reglugerð. Jeg hefði kosið þau ítarlegri frá byrjun. Þau munu reynast mjög gölluð þegar til framkvæmda kemur, og þess vegna er ein brtt. mín sú, að þau skuli endurskoða á næsta reglulegu Alþingi. Jeg álít að um þetta mál þurfi merkilegan lagabálk; jeg fylli ekki flokk þeirra manna, sem hefir ótrú á þessum atvinnuvegi, heldur álít jeg, að síldveiðarnar muni í framtíðinni reynast þjóðinni arðsöm atvinnugrein, ef vel er á haldið.

Þá hefi jeg gert brtt. við 9. gr.; að í stað 50 smálesta komi 10 smálestir.

Mjer skilst, að það hafi vakað fyrir frv. höfundinum, að þeir, sem hafa stærst skip, skuli og hafa mest yfirráð. En nú er það að verða uppi á teningnum, að 30–50 smálesta skip sjeu heppilegust til síldveiða og muni í framtíðinni útrýma stærri skipunum við þann atvinnuveg, og sýnist því ástæðulaust að útiloka slíka menn frá atkvæði. Þetta finst mjer óviðeigandi og hin mesta óbilgirni í garð þessara manna. Þykist jeg vita, að það hafi ekki verið tilgangur háttv. sjútvn., en það getur orðið svo í framkvæmdinni.

Jeg vil taka það fram þegar, að jeg er reiðubúinn að taka aftur brtt. mínar þangað til við 3. umr. og reyna að koma mjer saman við þá hv. þm., sem þá munu hafa í hyggju að koma fram með brtt. Jeg býst og við því, eftir lauslegu tali við hv. frsm. (M. K.), að um samkomulag geti verið að ræða um ýms atriði, nema um það að leyfa útlendingum að verka hjer síld. Jeg vil gjarnan láta takmarka veiði útlendinga hjer við land, en sú takmörkun mun koma nokkurnveginn af sjálfu sjer, þó að ekki sje beinlínis ákvæði í frv., sem banni þeim veiðina.

Þá hefir mjer láðst að fella burtu sektarákvæðið úr 10. gr., sem þó átti að falla í burtu um leið og feld var niður 4. gr. Mun jeg gera það við 3. umr.