10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2440 í B-deild Alþingistíðinda. (2589)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Stefán Stefánsson:

Jeg hjó eftir því í upphafi, að háttv. frsm. málsins (M. K.) mundi vera það kærara, að sem flestir tækju til máls áður en hann talaði. Skal jeg verða við þeirri ósk hans fyrir mitt leyti.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) vildi ekki leggja mikið upp úr vilja Siglfirðinga í þessu máli. Jeg get ekki verið honum þar samdóma. Þess ber einnig að gæta, að þetta er eina röddin, sem heyrst hefir um frv. utan af landi. Og í þessum eina stað, þar sem frv. hefir verið rætt, hafa 240 atkvæðisbærir menn verið eindregið á móti því. Gæti þetta bent til þess, að líkar yrðu undirtektir undir frv. í fleiri hjeruðum, ef það væri þar rætt.

Þessi háttv. þm. (M. J.) sagði, að Siglfirðingum væri sjerstakur hagur í því, að þetta frv. yrði ekki samþykt. Það má vel vera. En þingmaðurinn á eftir að sannfæra mig um það, að landinu í heild væri ekki hagur í því líka, að frv. næði ekki fram að ganga.

Þessi sami háttv. þm. (M. J.) sagðist ekki leggja mikið upp úr því, að Norðmenn mundu verka síldina utan landhelgi. Jeg held, að þetta sje sagt æðimikið út í bláinn. Jeg gat þess við 1. umr. málsins, að árið 1919 hefðu útlendingar fiskað 70 þús. tunnur síldar á þennan hátt, og það án þess að nokkrar hömlur væru á það lagðar, að þeir fengju að verka síldina í landi. Jeg býst því við, að þetta frv. verði til þess að hvetja þá til að halda áfram þessari aðferð, en ekki til þess að letja þá. Og ef þetta fer mikið í vöxt, þá er það fyrir okkur bæði fjártap og atvinnutap. Og jeg held, að það sje mikið spursmál, hvort slíkt mundi ekki hafa áhrif á aðstöðu okkar á erlendum markaði. Jeg er ekkert að ögra með þessu, en vil aðeins benda á þetta sem afleiðing af samþykt frv.

Þessi háttv. þm. (M. J.) neitaði ekki, að af þessu frv. gæti hlotist viðskiftastríð. En vildi þó leggja út í það.

En hitt segi jeg, að við sjeum ekki færir um að heyja viðskiftastríð. Hann gat þess líka, að ekki væri að búast við því, að þetta mál fengi heppileg úrslit, og því ekki vænst, að síldarútvegsmönnum sje það eins mikið áhugamál eins og öðrum, er stunda þennan sama útveg. En jeg legg eins mikið upp úr því, sem aðrir landsmenn en leyfisbeiðendur segja um þetta, og hygg, að þeir, sem fara fram á þetta, hafi eins mikið vit á því og hverjir aðrir.

Háttv. frsm. (M. K.) gat stuttlega um þetta við 1. umr. þessa máls. En mjer finst jeg ekki hafa fengið nægilegar upplýsingar að því leyti, hverjar afleiðingarnar af þessu kynnu að verða, hvort þær yrðu til góðs eða ills. Það eru miklar líkur til, að þær verði talsverðar á annanhvorn veginn. Það má því segja, að þetta sje mjög mikilsvarðandi mál og þurfi því vendilega athugun og undirbúning. En þessi undirbúningur virðist mjer of fljótlegur, og því þörf á meiri rannsókn á málinu heldur en þegar hefir verið gerð.

Mjer datt í hug að flytja svo hljóðandi rökstudda dagskrá:

„Með því að búast má við, að nú sje komið að þingslitum og ekki vinnist tími til að athuga þetta mál svo sem þarf, þá telur deildin rjett að vísa því til stjórnarinnar til frekari rannsóknar til nœsta þings, og tekur fyrir nœsta mál á dagskrá“.

Af þessu sjest, að jeg vil að menn fái öll þau gögn í hendur, er hægt sje á að byggja, til þess að ráða málinu til lykta. Þetta er mikilsvarðandi atvinnuvegur, því hann veitir miklu fjármagni inn í landið og mörgum atvinnu. Hann á því heimtingu á því, að honum verði sýndur sá sómi, að þetta mál sje svo vel undirbúið, sem hægt er, og fyr er ekki rjett að láta þetta frv. ganga undir atkvæði.

*)Hjer er slept úr handritinu setningu, sem virðist vera ófullkomin og óskiljanleg eftir sambandinu. Ræðumaður (St. St.) hefir ekki leiðrjett ræðuna.