10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2446 í B-deild Alþingistíðinda. (2592)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Magnús Jónsson:

Jeg ætlaði aðeins að segja, að jeg hefi sama skilning á þessu eins og háttv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.), að útlendingar eru útilokaðir eftir frv. Ef t. d. menn í Noregi og Svíþjóð sendu hingað skip, og eru ekki búsettir. (M. K.: Þeir þurfa að vera búsettir). Ekki veit jeg til þess, að svo sje nú, enda væri þá óskiljanlegur þessi þytur, sem mjer skilst, að mest sje einmitt út af búsetuákvæðinu.

En það er þetta, sem jeg verð að leggja meiri áherslu á, það, að síldarsölunni sje komið í gott horf, og það höfum við í hendi okkar að gera, heldur en að takmarka veiðina. Það er líka miklu erfiðara í framkvæmdinni.

Háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) vitnaði í fiskveiðarnar 1919, en þá var það ekkert annað en andmæli eða demonstration móti tunnutollinum. Sagði hann og, að veiðst hefðu 70 þús. tunnur af síld, sem söltuð hefði verið á skipum utan landhelgi, og að slík veiði mundi mjög fara í vöxt, ef frv. yrði samþ. En mig gildir það einu, hversu margir tugir þúsunda hafa verið fluttir út af slíkri síld, en hitt veit jeg, að það voru færri tugir góð og gild vara. Og á þá háttv. þm. (St. St.) eftir að svara því, hvernig reynslan var, og það get jeg sagt, að reynslan var sú, að það verður aldrei reynt aftur.

Eins er með hina mótbáruna, því það er ekki hægt að taka tillit til, hvað einstakir Siglfirðingar segja. Þeir hafa mestan áhuga á því, að sem flestir verki síld þar, en minni á hinu, hvernig síldarsalan gengur, eða hve mikið útvegurinn gefur af sjer; því það eru fáir Siglfirðingar, sem gera út. Með þessari rökstuddu dagskrá sinni vill þessi háttv. þm. (St. St.) gera lítið úr því að bíða eitt ár, og virðist mjer það ekki benda á sjerlegan áhuga á málinu.

Jeg fyrir mitt leyti álít það stórháskalegt að bíða, ekki síst þar sem útvegurinn er nú lamaður eftir tvö síðustu ár og getur horfið í hendur útlendingum alveg, ef ekki er að gert. Og þá er óvíst, að hann komist í hendur landsmönnum aftur. Útgerðarmenn eru illa staddir og geta ekki gert út, nema góð trygging sje fyrir sölu síldarinnar.

Sú ástæða, að komið sje nærri þingslitum og þing sje dýrt, er nokkuð út í bláinn og miðar að því að kasta krónunni til að spara eyrinn. Þessi atvinnuvegur veltir stórfje, svo einn eða tveir þingsetudagar mundu borga sig. ef þessu máli væri vel borgið.

Jeg treysti því fastlega, að deildin láti mál þetta ganga til 3. umr.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hefir óskað eftir viðtali við nefndina, sem bar þetta mál fram, og það boðar ef til vill, að einhver lausn fáist á þessu máli.

Æskilegast væri því, ef háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) vildi taka dagskrá sína aftur.