10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (2595)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Mig furðar á þessum sífeldu endurtekningum um, hve málið sje illa undirbúið. Jeg verð að mótmæla að svo sje, en það er auðvitað hægur vandi að segja þetta, án þess að færa nokkur rök fyrir því.

Hvað því viðvíkur, að hæstv. forsætisráðherra þótti varhugavert að gefa fjelaginu svo mikið vald, þá er því til að svara, að valdið er ekki mest hjá fjelaginu eða framkvæmdastjóra þess, heldur hjá hæstv. stjórn. Því enginn má stunda þennan atvinnuveg án leyfis stjórnarinnar, enda öðlast lög fjelagsins og reglur eigi gildi, nema með samþykki hennar.

Til þess að útrýma þeim ótta, sem hefir gripið menn, hefir mjer dottið í hug að koma með breytingu, þess efnis, að setja í frv. ákvæði á þá leið, að stjórninni sje heimilt að fresta framkvæmdum laganna, að einhverju eða öllu leyti. ef nauðsynlegt þykir.

Ef frv. er samþykt með þessu ákvæði, gæti það þá orðið til gagns, þótt framkvæmdum væri frestað í bráð, sem jeg alls ekki geri ráð fyrir að þyrfti. Við verðum að leggja kapp á, að geta rekið atvinnuvegi okkar, án íhlutunar óviðkomandi manna. Ef það er rjett, sem haldið er fram, að útlendingar leggi kapp á að njóta hagnaðar af þessum atvinnuvegi fyrir þegna sína, þá er ekki nema maklegt, að einhver hlunnindi komi á móti.

Jeg vildi aðeins benda á, hvort þetta ákvæði gæti ekki komið til mála. Hæstv. forsætisráðherra hefir óskað viðtals við nefndina. Tek jeg því þakksamlega og vænti að málið gangi til 3. umr.