10.05.1921
Neðri deild: 66. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (2596)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Gunnar Sigurðsson:

Jeg verð að láta í ljós ánægju yfir því, að háttv. 1. þm. Eyf. (St. St.) skyldi taka dagskrá sína aftur, og vona jafnframt, að hún komi ekki aftur við 3. umr.

Jeg sje mig knúðan til að svara háttv. þm. Ak. (M. K.). Hann talaði illkvitnislega í minn garð og kvað brtt. mínar stafa af misskilningi. Jeg verð að álíta, að sá misskilningur sje hjá háttv. þm. (M. K.), með því hann segir þær enga breytingu á því, sem er. Þó segir hann, að brtt. mínar geri málið lítils virði. Þetta get jeg ekki skilið. Jeg álít brtt. mjög víðtækar og frv. ekki geta orðið að lögum eins og það er. Jeg legg áherslu á, að síldin komist á eina hönd, og tel það einnig þýðingarmikið atriði að takmarka framleiðsluna. Hitt aftur á móti hefir engin veruleg áhrif, hvorki um söluna nje framleiðsluna, þótt útlendingar slæðist með, ef sömu lög gilda um þá.

Og svo jeg minnist á landbúnaðinn í þessu sambandi, þá hygg jeg, að til mála geti komið, að Norðmenn taki það svo óstint upp, ef frumvarpið yrði samþ. í þeirri mynd, sem það er nú, að þeir leggi innflutningstoll á saltkjöt. Og væri það ver farið.

Hvað snertir brtt. við 9. gr., þá skildi jeg ekki tilgang háttv. þm. Ak. (M. K.), að útíloka þessa menn. Það lá beinna við að gefa þeim undanþágu. Það kom talsvert annað hljóð í strokkinn hjá háttv. þm. Ak. (M. K.), þegar hann heyrði hvernig hæstv. forsrh. (J. M.) tók í málið, eins og vænta mátti. Háttv. þm. (M. K.) skifti heldur snarlega um stefnu. Annars fyndist mjer eftirleiðis vel við eiga, að hv. þm. Ak. (M. K.) sparaði sjer að láta skoðun sína í ljós um mál, fyr en hann vissi um vilja hæstv. forsrh. (J. M.); en á því er raunar sá galli, að það kemur einatt fyrir, að ilt er að vita fyrirfram um hans skoðun. Annars tek jeg ekki undir það að fela stjórninni allar framkvæmdir í máli þessu, svo mikið hefi jeg sjeð af framkvæmdasemi hennar. Það væri til að svæfa málið algerlega.