15.02.1921
Sameinað þing: 1. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (26)

Rannsókn kjörbréfa

Halldór Steinsson:

Það hefir verið venja hjá Alþingi að fara mjúkum höndum um kosningakærur og láta ráðast, hvort úrslitin hefðu getað orðið önnur. Þetta er ekki rjettur siður. Það er skoðun mín, að Alþingi eigi að taka til greina kærur, ef kæruatriðin eru á rökum bygð. Hjer stendur sjerstaklega á, því að eitt atriðið er þannig, að það hefði getað ráðið kosningaúrslitum. Annars er enginn vafi á því, að þessi 4 atriði eru lagabrot, og sannanlegt, að þau eru á rökum bygð. Það átti að kjósa eftirmann Sveins Björnssonar eftir gömlu stjórnarskránni. Það var engin heimild til að semja nýja kjörskrá og bæta inn á hana fjölda manna, heldur átti að kjósa eftir aðalkjörskrá frá í vetur, og aukakjörskrá frá því í vor. Hvert einstakt kæruatriði er að mínu áliti nóg til að vísa kosningunni frá. Kæruna verður að taka til greina, því að hjer er um það að ræða, hvort kosningar til Alþingis eigi yfir höfuð eftirleiðis að fara fram samkvæmt lögum, eða ekki. Jeg held að það væri betra, ef svo á að ganga framvegis, að rökstuddar kærur eru ekki teknar til greina, að taka úrskurðarvaldið af þinginu og fela það t. d. hæstarjetti.