14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2452 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Jón Baldvinsson:

Þetta mál er upphaflega komið frá sjávarútvegsnefnd, og var ástæðum frv. lýst nokkuð við 1. og 2. umr. Á síðari árum hefir gengið mjög erfiðlega með síldarútveginn, og hafa menn sjeð, að svo búið mátti ekki standa og að það er stór voði fyrir þjóðina, ef skipulagsleysið helst áfram. Útgerðarmenn hafa líka sjeð þetta, og vilja því reyna að koma betra skipulagi á veiði og sölu síldarinnar. Þeir hafa sjeð af því, hvernig salan hefir gengið, að ekki dugir að hver bauki í sínu horni og vinni, beint eða óbeint, hver á móti öðrum. Og þetta mál er fram komið í þeim tilgangi, að löggjöfin stuðli að samvinnu í þessum efnum.

Jeg gerði við 1. umræðu þessa máls hjer í deildinni nokkurn ágreining út af þessu frv. Sjerstaklega var jeg ekki samþykkur því að banna útlendingum síldveiði hjer við land, eins og frv. gerir, og taldi það varhugavert gagnvart öðrum ríkjum að fela einu fjelagi svo að segja öll ráð yfir síldarútveginum. Mjer virtist hæstv. forsætisráðherra (J. M.) hallast að sömu skoðun og jeg. Hann sagðist búast við, að því yrði betur tekið af öðrum ríkjum, ef ríkið hefði einkasölu, heldur en ef einstakt fjelag væri „autoriserað“ til þess að hafa alla síldarsöluna á hendi.

Jeg hefi nú komið fram með brtt. í þessa átt á þskj. 607, ásamt samþm. mínum, háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.). Þessar till. ganga í þá átt, að ríkið sjálft hafi sölu og útflutning allrar síldarinnar. Að vísu gerum við ráð fyrir, að Síldveiðifjelagið verði stofnað og Hafi talsvert starfsvið. Það er ef til vill mesta mein síldarútvegsins nú, hvað markaður fyrir síld er þröngur. Því gerum við ráð fyrir, að fjelagið hafi það starfsvið að takmarka veiðina, í samráði við ríkisstjórnina. En aðaltilgangur okkar er, að ríkið hafi á hendi söluna. Með því viljum við koma í veg fyrir, að útgerðarmenn sjálfir bjóði út síldina, hver öðrum í óhag, og verði þess valdandi, að menn halda, að miklu meira sje á boðstólum en í raun og veru er, svo að verðið lækki niður úr öllu valdi.

Ekki verður heldur deilt um það, að það er miklu sæmilegra gagnvart útlendingum, að ríkisstjórnin hafi yfirtökin, heldur en að þeir sjeu settir undir íslenskt útvegsmannafjelag.

Við 1. gr. frv. gerum við þá breytingu, að ríkisstjórnin auglýsi, hvenær umsóknir um leyfi skuli vera komnar í hennar hendur. Þessa ákvæðis hefði ef til vill ekki verið þörf, en okkur fanst vissara að taka þetta fram, því upplýsingar um það, hverjir ætla að veiða síld, þurfa að koma svo snemma, að hægt sje að gera áætlun um veiðina, ef til takmarkana á henni kemur, og um sölu síldarinnar.

Þá viljum við fella niður 2., 3. og 4. gr. frv., sem fjalla um að útiloka útlendinga frá því að veiða eða verka hjer síld til útflutnings, og er það í samræmi við að ríkið hafi söluna á hendi.

Aftur á móti gerum við ráð fyrir, að 5. gr. haldist. Síldveiðifjelagið verður þá stofnað og starfar, og er ekki alveg óhugsandi, að það taki að sjer söluna með tímanum.

Þá gerum við ráð fyrir, að Síldveiðifjelagið skipi 3 menn til aðstoðar og ráðuneytis ríkisstjórninni um sölu og útflutning síldarinnar, þar sem sennilegt er, að það hafi mönnum á að skipa, sem hafa þekkingu á þessu sviði.

5. brtt. á þskj. 607 er í 5 liðum, og lúta þeir allir að einkasölu ríkisstjórnarinnar og ýmsum nánari fyrirmælum, meðal annars um að draga kostnað frá söluverði síldarinnar. Aftur á móti kemur ekki til mála, að stjórnin hafi á hendi skiftingu á söluverði síldarinnar milli eigendanna, heldur verður Síldveiðifjelagið að hafa hana sjálft.

Þá er bráðabirgðaákvæði um það, að verði Síldveiðifjelagið ekki stofnað strax, þá skuli ríkisstjórnin samt takast á hendur sölu á þeirri síld, sem útflutningshæf er metin. Það ætti að minsta kosti að vera meiri trygging fyrir sölu. En jeg hygg, að trygg sala sje eitt stærsta atriðið fyrir útveginn. t. d. til þess að auka lánstraust útgerðarmanna gagnvart bönkunum hjer.

Jeg ætla ekki að segja mikið meira að sinni. Jeg vil þó benda á, að hjer er að velja um tvær stefnur. Önnur kemur fram í till. háttv. meiri hl. sjútvn. Hún er sú, að einu einstöku fjelagi, Síldveiðifjelagi Íslands, sje falið að hafa alt vald á síldarútveginum og útlendingum sje bönnuð veiði.

Hin stefnan, sem við höldum fram, er sú, að banna útlendingum ekki síldveiðar og láta ríkisstjórnina hafa síldarsöluna á hendi.

Meiri hluti sjútvn. vill setja ákvæði um að fresta framkvæmdum, ef stjórninni sýnist svo. Það gæti orðið til þess, að ekkert yrði úr skipulagi. Að samþykkja það ákvæði er sama og að gera ekkert í málinu.

Ef frv. verður samþykt með breytingum meiri hl. sjútvn., um heimildina fyrir stjórnina til að fresta framkvæmdum frv. að nokkru eða öllu leyti, sje jeg ekki betur en að stjórnin sje sett í hinn versta gapastokk. Annars vegar eru það innlendir síldveiðimenn, sem heimta skipulag og söluna í sínar hendur, en hins vegar útlendingar, sem vilja vitanlega frestun á öllu, og eftir þeim gauragangi, sem þegar er kominn í norska og sænska útvegsmenn út af þessu máli, er jeg ekki í miklum vafa um, að stjórnin láti undan þeim, og þá stendur alt við það sama og nú er.

Okkar till. fara meðalveginn. Þær gera ráð fyrir skipulagi meðal síldveiðimanna, en útiloka þó ekki útlendinga frá veiðum hjer við land. Og eftir þeim þurfa útlendingar að láta af hendi alla þá síld, sem þeir verka í landhelgi, til landsstjórnarinnar, til söluráðstöfunar eins og Íslendingar. Og eftir þessum till. okkar er heldur ekki gert ráð fyrir neinum undanþágum eða frestun á framkvæmdum, en slík ákvæði mundu að minni hyggju aðeins verða til þess að spilla málinu.