14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2455 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Gunnar Sigurðsson:

Mjer þykir vænt um, að brtt. á þskj. 607 eru fram komnar, því að þær ganga inn á sömu leið og jeg hafði upphaflega hugsað mjer. Jeg held, að reynsla síðari ára hafi sýnt, að það er nauðsyn á því að koma síldarsölu vorri á eina hönd, og þá held jeg, að ríkisstjórnin sje sjálfsögð til að hafa síldarsöluna á hendi, í samráði við útgerðarmennina.

1. brtt. á þskj. 607 er í fullu samræmi við mína brtt., að öðru leyti en því ákvæði, að stjórnin skuli auglýsa, hvenær umsóknir eigi að vera komnar í hennar hendur. En jeg held, að það ákvæði sje ekki nein skemd.

2. brtt. á sama þskj., um að 2., 3. og 4. gr. falli niður, er líka í fullu samræmi við mínar brtt., um það, að útlendingar sjeu settir á bekk með okkur, en ekki skör lægra.

Viðvíkjandi fjelagsstjórninni, þá geng jeg inn á, að 5. gr. í brtt. á þskj. 607 komi í stað 2. málsgreinar í mínum brtt. En verði brtt. á þskj. 607 feld, þá tek jeg mína upp sem miðlunartillögu.

Jeg vil taka það fram, að jeg held fast við 10 smálestir í brtt. við 9. gr. Jeg bjóst við því, að háttv. frsm. (M. K.) mundi ganga inn á það, og vil spyrja hann, hvort samkomulag geti ekki orðið um það. Jeg vænti þess, að hann geri það að minsta kosti ekki að kappsmáli. (M. K.: Það geri jeg þó). Það þykir mjer einkennilegt.

Jeg vil mótmæla því, að stjórninni verði veittur nokkur frestur á málinu, þar sem það nú hefir dregist þrem árum of lengi og leitt af sjer 10 milj. kr. tap, minst. (B. J. : 15 miljóna). Jeg vil ekki stuðla til þess, að haldið verði áfram með framleiðslu á síld, til þess svo að moka henni í sjóinn. En hitt er sýnilegt, hve ótækt það er að leggja atvinnuveginn niður og láta útlendinga taka hann upp aftur.

Á næsta þingi má svo endurskoða lögin og breyta þeim eftir því, sem reynslan sýnir þörf á.