14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2457 í B-deild Alþingistíðinda. (2602)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Frsm. (Magnús Kristjánsson):

Um brtt. á þskj. 607,sem nú eru aðallega til umræðu, skal jeg strax taka það fram, að þær eru þess verðar, að þeim sje gaumur gefinn. Á við þær máltækið gamla, að betri sje hálfur skaði en allur, og býst jeg við, að þeir háttv. þm., sem kunna að aðhyllast þær, geri það sökum þess, að þeir telji litlar líkur til, að frv. eins og það var upphaflega nái fram að ganga, og að þeir neyðist þannig til að halla sjer að því næst besta, þegar það besta er ekki fáanlegt.

Spurningin, sem hjer liggur fyrir, virðist mjer vera þessi: Eigum vjer að ráða yfir málum vorum og vera húsbændur á okkar heimili, eða eigum við ekki að vera það?

Spurningunni er með till. þessum svarað þannig: Við erum þess ekki megnugir. Við óttumst reiði útlendra ríkja, við beygjum okkur fyrir valdinu.

Mjer virtist að í gær í ekki alveg óskyldu máli væri fjandanum gefinn 1 fingur; nú verða honum líklega gefnir 2, og má þá renna grun í, hvort öll hendin muni ekki á eftir fara. Jeg skil ekki þá menn, sem sýnist það einskis virði að ráða sjálfir einir yfir fiskimiðum vorum, sem miðla mætti öðrum af, gegn einhverju endurgjaldi. Var sú hugmynd okkar að miðla einhverju af gæðum þessum og fá hlunnindi í gegn, en það þýðir líklega ekki mikið að tala meira um það hjeðan af, því afdrif málsins munu nú ráðin. Mun eigi þykja um annað að velja en hallast að brtt. háttv. 4. þm. Reykv. (M.J.) og hv. 2. þm. Reykv. (J.B.), því að betra sje, að þær nái fram að ganga en að ekkert sje gert, þó að gagnið að þeim komi alls ekki að miklum notum. En þess skal jeg láta getið, að svo mikið ber þeim á milli og hinu upphaflega frv., að full ástæða er til að óttast, að útgerðarmenn muni eigi sinna málinu, og því enginn fjelagsskapur verða stofnaður.

Eini kosturinn við brtt. er, að söluráðstafanirnar eru sameiginlegar, en auðvitað eru þær það líka í frv., svo hjer hefir þá eigi verið breytt til batnaðar heldur.

Að síðustu vil jeg taka það fram, að jeg felst ekki á brtt. við 9. gr. frá hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.). Mun misskilningurinn enn vera fyrir hendi hjá honum.

Ákvæði 9. gr. er öllum meinlaust, en þó mörgum að gagni. Brestur þennan háttv. þm. (Gunn. S.) kunnugleik að dæma um málið, því að hann er lítt kunnugur á Norðurlandi, en þar þekki jeg gerla til. Eru á vertíðum oft aflalitlir kaflar, og er þá eðlilegt, að útgerðarmenn vilji nota þessi skip sín til síldveiða í bili; en væri það hins vegar óþægilegt að þurfa að sækja um leyfi fyrir þessi skip sín fyrirfram.

Hætta getur engin af þessu ákvæði stafað, því eigendurnir eru bundnir til að sæta öllum ákvæðum fjelagsins um söluna, eins og aðrir. Vildi jeg því mælast til, að háttv. flm. till. vildi taka hana aftur.