14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2461 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Bjarni Jónsson:

Jeg heyrði því miður ekki alla ræðu háttv. þm. Ak. (M. K.), en kom inn, er hann sagði að frv. þetta væri komið frá rjettum hlutaðeigendum, útgerðarmönnum. Þetta gefur mjer tilefni til að spyrjast fyrir um það, frá hvaða útgerðarmönnum það sje komið, hvort það sje frá þeim, sem nú eru útgerðarmenn eða hafa gert út undanfarin ár, eða hinum, sem í hyggju hafa að stunda útgerð í framtíðinni. Mjer skilst, að það sje hættuleg leið að stofna fjelag með þeim hætti, sem hjer er gert ráð fyrir. Slíkur fjelagsskapur gæti haft svo mikið holmagn í framtíðinni, að hann gæti útilokað nýja menn. Þótt mjer sje ríkt í hug að vernda þennan atvinnuveg og gera söluna hagkvæmari, þá vil jeg þó eigi þola það, að hægt sje að gera einum hærra undir höfði en öðrum í þessu efni.

Þá kem jeg að þeirri hlið málsins, sem út á við snýr. Mjer er að vísu ekki kunnugt, hversu langt oss er fært að fara í lagasetningu um þetta efni, en hygg oss sje fært að fara svo langt sem aðrar þjóðir. Mundi oss því óhætt að hafa sömu ákvæði í lögum þessum, sem Norðmenn og Svíar hafa í lögum sínum um þetta efni. Bar því nefndinni að kynna sjer lög nágrannaþjóðanna og athuga, í hverju þetta frv. væri þeim frábrugðið. Jeg hefði gaman af að heyra, hver ákvæði gilda um þetta hjá nágrannaþjóðum vorum, og bið því nefndina að gefa mjer upplýsingar um það, því að jeg veit, að hún muni vendilega hafa kynt sjer alt, er að máli þessu lýtur. Þá vil jeg og fá að vita, undir hvaða skrifstofu þetta utanríkismál muni heyra, hvort það sje 1., 2. eða 3. skrifstofan. Einnig vil jeg spyrjast fyrir um það hjá hæstv. forsrh. (J. M.), hvaða upplýsingar hann hafi fengið um kvartanir þær, er koma kunni frá stjórnum hlutaðeigandi ríkja. Jeg marka ekki, þótt jeg hafi lesið í norsku blaði, að óánægja væri út af þessu, en þykir hinsvegar ekki ólíklegt, að norska og sænska stjórnin hafi látið í ljós óánægju við íslensku stjórnina. Um þetta vil jeg spyrja hæstv. forsrh. (J. M.), svo og það, hvort hann telur það fullnægjandi, sem hann fær að vita um þetta hjá ræðismönnum Norðmanna og Svía, hvort hann treysti því, að semja til fullnustu við þá. Eða hvort stjórnirnar hafi látið þess getið, að hingað mundi koma „diplomat“, sem komi fram fyrir þeirra hönd til að semja um málið, til þess að þurfa ekki að vasast með slíkt mál pósteða símaleiðina. Jeg geri ráð fyrir, að þessari spurningu verði svarað játandi, að sendiherrans sje von með næsta skipi, og tel jeg slíkt vel farið.

Þess vegna hefi jeg spurt að þessu öllu, að jeg álít nauðsynlegt, að þingið fái glögglega að vita, hverjar umkvartanir kunni í vændum að vera. Jeg mun haga atkvæði mínu eftir upplýsingum þeim, sem stjórnin gefur. Þótt jeg vilji vernda atvinnuveg þennan, þá vil jeg gera það án þess, að úr verði misklíð eða hatur milli ríkjanna.

Jeg las það í einu norsku blaði fyrir skemstu, að hvað utanríkismálin snerti, þá væri Ísland hluti úr danska ríkinu. Þetta gefur mjer tilefni til að minna á umræður, sem fram fóru hjer í deildinni fyrir nokkrum dögum út af skilningnum á 7. gr. sambandslaganna. Hygg jeg, að ekki væri vanþörf á að aðskilja utanríkisstjórnina meira en orðið er. Það er ekki svo að skilja, að jeg álíti þetta norska blað nokkurt goðasvar í þessu efni eða að álit norsku stjórnarinnar á utanríkismálum Íslands fari eftir því, en ef til vill eru einhverjir fleiri á líku máli um þetta. Getur þá hæglega farið svo, að eftir nokkur ár verði þeir enn fleiri, ef ekki er ráðin bót á í tíma.

Jeg vil svo að endingu skora á stjórnina að fara að mínum tillögum um þessi mál. Ella mun jeg fyr eða síðar reyna að koma henni fyrir landsdóm.