14.05.1921
Neðri deild: 70. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2469 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Bjarni Jónsson:

Önnur af brtt. er til að ráða bót á því, að menn verði ekki útilokaðir frá þessum fjelagsskap. Hin fer fram á það, að lögin gangi þegar í gildi. Og slík brtt. er nauðsynleg, ef verða á að gagni veiðinni í sumar, að lögin gangi í gildi tafarlaust.

Jeg hefi fengið, að nokkru leyti, svarað fyrirspurnum mínum hjá hæstv. stjórn, en raunar hefir því þó ekki verið svarað, undir hvaða skrifstofu það heyri, ef kvartanir koma fram.

Mjer var aðeins svarað því, að engar umkvartanir hefðu enn komið á 1. skrifstofu stjórnarráðsins. (Fjrh.: Ekki á 3. skrifstofu). (Atvrh.: Og heldur ekki á 2. skrifstofu, eftir því, sem jeg best veit). Þá sjer maður, að fljótt mun ganga um afgreiðslu utanríkismálanna, ef spyrja þarf allar skrifstofurnar um jafneinfalt mál sem þetta.

Í frv. er aðeins sett búsetuskilyrði, en það er ekkert nýmæli, því jeg hygg, að svo muni vera í hvaða landi sem er. Hins vegar hefi jeg ekki fengið svar við því, hvað utanríkisstjórnin ætlast fyrir viðvíkjandi þessu búsetuskilyrði, að Ísland hefði til jafns við atvinnu í öðrum löndum. Vænti jeg nú að fá svar við þessu úr einhverri af utanríkisskrifstofunum.

Það er talin aðalnauðsyn þessa máls, að sölunni verði komið á rjettan rekspöl með fjelagsskap og aðstoð banka og landsstjórnar, en lendi ekki í höndum útgerðarmanna. Jeg er þeirrar skoðunar, að sölunni sje hvergi betur borgið heldur en í höndum ríkisstjórnarinnar, og mun jeg því þeirri brtt. fylgja, sem stefnir í þessa átt.

Hitt gat jeg um áður, að jeg er ekki svo hræddur um misklíð hjá öðrum ríkjum, þó að menn vilji setja skilyrði til verndunar atvinnurekendum landsins. Það getur hugsast millibilsástand um menn, sem átt hafa hjer eignir, og ætti stjórnin því að hafa rjett til þess að gera undanþágur um slíka menn, svo fyrirbygt yrði, að þeim verði skaði gerður eða misbeittir á annan hátt. Enda hygg jeg sjálfsagt, að úr þessu verði bætt, og ætti stjórninni ekki að verða skotaskuld úr því, þó að frv. verði samþ.

Annars hygg jeg, að utanríkisstjórnin, þótt ekki hefði nema eina skrifstofu, myndi geta notað þessi mál til samninga, en þar sem nýlega hefir sannast, að hún muni þreföld vera, þá mun alt ganga auðveldara fyrir henni, t. d. að hún nái samningum við Spánverja og víðar.

Annars þótti mjer það undarlegt í svari hæstv. forsrh. (J. M.), að hann vildi eins og gefa það í skyn, að jeg hefði sagt, að frv. þetta væri utanríkismál. Má vera, að jeg hafi ekki hagað orðum mínum þann veg, að ekki megi hártoga, en jeg átti við, að samningar, er rísa kynnu út af máli þessu, þeir heyrðu undir utanríkismál. En þá þarf maður að vera vandur að orðum sínum, ef slíkt skilst ekki. Jeg gæti nú trúað, að illviljaðir menn myndu mæla á þá leið, að þegar gripið sje til slíkra svara við hógværum spurningum, þá muni stjórnin hafa litlar röksemdir fram að færa, nema það eigi þá að vera fyndni, og móti henni hefi jeg aldrei verið, ef jeg hefi getað skilið, hversu vel henni er fyrir komið.

Hæstv. forsrh. (J. M.) sagði, að ekki væri að marka, þó að enn hefðu ekki kvartanir fram komið, því að aðrar þjóðir ljetu málin afskiftalaus, þangað til þau hefðu náð fram að ganga á þingi. Þetta er nú ekki allskostar rjett, því oft hefir verið kvartað áður en frv. er orðið að lögum. Að minsta kosti man jeg svo langt, að þegar kolaverslunareinokunin var á ferðinni, kom fram löng lest af sendiherrum, mig minnir 6–7, og mæltu í móti, og þetta gerðu þeir áður en þingið hafði afgreitt málið.

Vona jeg svo, að háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) mæli fyrir þeim brtt., sem við höfum borið hjer fram saman, og að hann fallist á viðbótina, sem er við 1. lið á þskj. 607. Þykist jeg því ekki þurfa að tefja hv. deild með lengri ræðu, og læt því máli mínu lokið.