20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2477 í B-deild Alþingistíðinda. (2633)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Jón Baldvinsson:

Það er rjett, að þetta frv. hefir tekið allmiklum stakkaskiftum í háttv. Ed. Ákvæðið um Síldveiðifjelagið er felt burtu, öll ákvæði um að sækja þyrfti um leyfi stjórnarinnar til veiða hjer við land eru skorin burt og það ákvæði, að stjórnin skyldi taka söluna í sínar hendur, er orðið að heimild. Frv. er því í raun og veru orðið alt annað; háttv. Ed. hefir gerbreytt því og alveg eyðilagt þann aðaltilgang þess, að fyrirskipa stjórninni að hafa söluna á hendi. En þó að svo sje, geta þessi lög komið að haldi, ef stjórnin vill fylgja því í þá átt, sem þessi deild vill, og nota heimildina út í æsar. Það er því miður ekki tími til að breyta því; annaðhvort verður að fella það eða samþykkja eins og það er. En það væri gott að fá upplýsingar um það, hvernig stjórnin ætlar að nota heimildina, eða hvort hún ætlar að nota hana, því ef svo er ekki, er þýðingarlaust að samþykkja frv.

Jeg er sammála háttv. þm. Ak. (M. K.), að það sje um undanhald Ed. að ræða í máli þessu, en jeg er honum ekki sammála um það, að undanhaldið hafi byrjað í þessari háttv. deild. Jeg held einmitt, að það, sem að síðustu varð ofan á hjer í þessari deild, hafi verið hin heppilegustu úrslit málsins.

En þó að þessu hafi nú verið kipt í burt og aðeins orðin eftir heimild handa stjórninni, held jeg samt, að rjettara sje að samþykkja frv.; því vilji stjórnin nota heimildina, þá getur hún vitanlega nálgast skipun. En jeg bíð eftir að heyra undirtektir stjórnarinnar og læt hjer staðar numið í bili.