20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2479 í B-deild Alþingistíðinda. (2635)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Gunnar Sigurðsson:

Jeg er sammála hv. þm. Ak. (M. K.), að jeg er afaróánægður yfir þeim málalokum, sem hjer hafa orðið. Háttv. Ed. hefir breytt svo frv. þessu, að það sem áður mátti gott heita, er nú að engu orðið og alt skilið eftir í höndum stjórnarinnar. Og eftir að hafa heyrt undirtektir hæstv. atvrh. (P. J.), gef jeg ekki mikið fyrir slíka ráðstöfun.

En þó skal jeg taka það fram, að vildi stjórnin beita sjer fyrir þetta mál með oddi og egg, þá mætti mikið vinna á þessum heimildargrundvelli, með festu og vilja þessarar háttv. deildar að baki. Jeg er eins og allir vita andstæðingur stjórnarinnar, en þó sje jeg, að hún gæti mikið gagn gert í þessu máli, ef hún hefði vilja á því, og ætti hún þá að byggja á þeim grundvelli, sem Nd. Alþingis hafði lagt.

Þetta mál er svo mikilsvert, að það getur alveg riðið þessum atvinnuvegi, sem svo stopull er, að fullu, ef ekki er alt gert til þess að bjarga sölunni. Þess vegna vænti jeg, að frv. verði samþ., og vil jeg þá, sjeð frá því, skora á stjórnina að nota þessa heimild og byggja á þeim grundvelli, sem meiri hl. Nd. hefir lagt.