04.03.1921
Efri deild: 14. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

18. mál, vátryggingarfélag fyrir fiskiskip

Frsm. (Karl Einarsson):

Jeg get að mestu látið mjer nægja að vísa til nefndarálitsins um frv. þetta og aths. við það, Alþt. 1921. B. (33. löggjafarþing), en skal þó drepa að eins lauslega á nokkrar af breytingum þeim, er frv. gerir á lögunum frá 1909.

1. gr. frv. hefir inni að halda aðalbreytinguna, sem gerð hefir verið, en hún er sú, að sjálfsábyrgðin fellur burt, og þá einnig hin gagnkvæma ábyrgð. Þá verður sú breyting á.b. lið 2. gr. sömu laga, að felt er burt skilyrði það, sem þar er gert fyrir beinni vátrygging, og í öðru lagi trygt alt verð skipanna, í stað 8/10 hluta verðs. Loks er stjórn samábyrgðarinnar, í niðurlagsorðum greinarinnar, gefið meira svigrúm en áður, svo að hún getur nú t. d. tekið að sjer ábyrgð skipa, sem eru á leiðinni upp til landsins.

Eins og getið er um í nefndarálitinu, þá hefði nefndin helst óskað, að starfsvið fjelagsins yrði stækkað svo, að það gæti tekið öll íslensk skip í samábyrgðina, en hún kannast hinsvegar við, að þetta muni vera ókleift að sinni.

Hvað breytingum þeim viðvíkur, sem verða við 3. gr. frv., þá er þar um að segja, að skip hafa stækkað svo og veiðarfæri hækkað í verði, að hámark það, sem hjer er sett, er í rauninni ekki hærra, heldur lægra, en í hinum upprunalegu lögum.

Að því er snertir 4. gr. þá er hún eðlileg afleiðing þess, að sjálfsábyrgðin fellur burt.

Um 5. gr. get jeg látið mjer nægja að vísa til nefndarálitsins. Þar er það tekið fram, að ákvæðið um, að 2% af tryggingarfjárhæðinni verði eigi bætt nema svo standi á, sem getur um í a-lið 5. gr., hafi átt að falla niður, en hafi svo slæðst inn af ógáti. Var sú breyting einmitt fyrirhuguð, samkvæmt ráði forstjóra sambandsins. Hann benti á, eitt sinn er hann kom á nefndarfund, að þetta skyldi falla burt, og sagði að hann hefði skrifað við þetta „reglugerðarákvæði“ í uppkasti sínu að lögunum.

Hvort nauðsynlegt er að hafa ákvæði eins og fyrri breytingartillögu nefndarinnar, skal jeg láta ósagt. En ekki getur sakað, að það sje tekið fram berum orðum í lögunum, að ef vátryggjandi bíði tjón á eign sinni við það að bjarga einhverju meira verðmæti, sem einnig hafi verið vátrygt í samábyrgðinni, þá skuli honum greitt það að fullu.

Annars vil jeg skjóta því til hæstv. forseta, að breytt sje hjer um orð, og í stað „endurgreiðist að fullu“ komi „greiðist að fullu“, og verði borið þannig upp til atkvæða, því að hjer er ekki um endurgreiðslu að ræða í eiginlegum skilningi.

Í 6. gr. er að eins um þá breytingu að ræða, að stjórn samábyrgðarinnar má láta falla niður sjórjettarpróf, ef henni virðist það með öllu óþarft, og verður ekki sjeð, að nein hætta geti stafað af því.

Í 7. gr. er að eins í einum stað skotið inn „gerðardóm“. Hefir þetta orð sjálfsagt fallið burt í prentun laganna 1909, og er hjer því að eins um leiðrjettingu að ræða.

Um 8. og 9. gr. vísa jeg eingöngu til nefndarálitsins.

Um 10. gr. er það að segja, að 2000 kr. í stað 1000 kr., eins og er í lögunum, er víst síst of langt farið. Og hvað þá breytingu snertir, að í stað orðanna „yfirdómi landsins“, komi „hæstarjetti ríkisins“, þá er hún sjálfsögð, úr því farið var að breyta lögunum á annað borð.

Jeg ætla svo ekki að fara fleiri orðum um frv., en óska, að því verði vísað til 3. umr. með þeim breytingum, sem lagt er til að gerðar sjeu.