20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2483 í B-deild Alþingistíðinda. (2640)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Út af ræðu háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) skal jeg geta þess, að enda þótt standi svo í 3. gr. frv., að ríkisstjórnin afhendi eigendum söluverð síldarinnar jafnóðum sem það greiðist, þá verð jeg að álíta svo, að þetta orðalag útiloki ekki, að það megi og verði að haga úthlutun síldarverðsins eftir sömu reglum og farið var eftir við úthlutun fiskverðsins í útflutningsnefndinni 1918–1919. Er það algerlega óframkvæmanlegt fyrir stjórnina að haga því á annan veg en svo, að gert sje nokkurskonar jafnaðarverð hjá öllum seljendum, er jafngóða vöru hafa.

Get jeg lýst því yfir fyrir hönd stjórnarinnar, að sje þessi skilningur minn ekki viðurkendur rjettur á orðalagi 3. gr., þá getur stjórnin alls ekki framkvæmt heimildina. Ef sumt t. d. selst ágætlega, sumt illa og sumt alls ekki, þá er engin önnur leið til en jafna verðið millum seljenda.

Mega eigendur eigi bera þann halla, sem af mismunandi sölu kynni að verða, því að hann mundi oft og einatt geta átt sjer stað án þess þeir ættu nokkra sök á.