20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2486 í B-deild Alþingistíðinda. (2644)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Jakob Möller:

Jeg hefi ekki getað breytt mikið um skoðun á frv. við umr. þær, sem fram hafa farið um það.

Háttv. þm. Ísaf. (J. A. J.) sagði, að það mundi mest hafa spilt síldarsölunni undanfarið, að útlendingar hefðu flutt út hálfverkaða síld og selt hana sem íslenska síld.

Hygg jeg, ef þessu er svona varið, að þá væri athugunarefni, hvort ekki mætti ná betur tilganginum með lögunum, á þann hátt að framfylgja stranglega síldarmatslögunum.

Umræðurnar um samlagssölu snerta í raun rjettri ekki málið, því hjer verður um enga samlagssölu að ræða. Það er nú úr sögunni. 3. gr. frv. verður tæplega skilin öðruvísi en svo, að stjórnin eigi að selja fyrir hvern einstakling sjerstaklega og skila honum andvirðinu. Hæstv. atvrh. (P. J.) sagði, að stjórnin gæti ekki tekið söluna að sjer, ef þessi skilningur á 3. gr. væri rjettur. Finst mjer, að stjórnin þurfi vel að athuga þetta atriði, og sýnist mjer, að úr þessu verði tæplega öðruvísi skorið en með dómi. Gæti þá svo farið, að þetta yrði ríkissjóði nokkuð dýrt, ef dómurinn fjelli þannig, að stjórnin hefði farið rangt að. Skal jeg auðvitað eigi fullyrða, að skilningur minn á greininni sje rjettur, enda er jeg eigi lögfræðingur, en samkvæmt daglegu máli verður hún tæpast öðruvísi skilin.

Háttv. þm. Dala. (B. J.) sagði, að síldarsalan hefði tekist betur undanfarið, ef henni hefði verið hagað svo og svo. Má vel vera, að það sje rjett, en spurningin er, hvort þetta frv. muni geta ráðið nokkra bót á agnúunum, sem verið hafa. Og um það verð jeg mjög að efast, eftir að háttv. Ed. hefir numið takmörkunina á veiðinni burtu, því að stjórnin er bundin við að fara eftir þeim lögum, er þingið setur.

Sami háttv. þm. (B. J.) benti einnig á, að takmörkunin næðist með því, að stjórnin ákvæði, hve mikið magn hún seldi. En þetta getur ekki verið rjett. Annaðhvort hefir stjórnin heimild til að takmarka eða hún hefir hana ekki. Hún getur að vísu neitað að selja nema eitthvert ákveðið magn, en geri hún það, getur hún ekki bannað einstökum mönnum að selja síld sína, sem þeim var fullfrjálst að veiða. Það gæti raunar hugsast, að stjórnin takmarkaði veiðina með því að gefa út bráðabirgðalög í því skyni, en þess er tæplega að vænta, þar sem það er ekki samkvæmt vilja þingsins, og sýnist það fremur óviðeigandi að hvetja stjórnina til að fara í kringum þau lög, sem þingið setur.

Skiftir hjer engu, hversu orð kunna að falla hjá einstökum þingmönnum og vilji þeirra í þessu efni. Stjórnin verður alt að einu að fara eftir þeim lögum, sem þingið hefir sett, og það er í raun og veru alveg óhugsandi, að stjórnin telji sjer leyfilegt að framkvæma það, sem að vísu fólst í hinu upphaflega frv., en hefir nú verið felt í burtu. Sýnist mjer, að þetta sje sú eina rjetta ályktun, sem hægt er að draga af frv.

Háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.) taldi það óhugsandi, að stjórnin seldi síldina í smáskömtum, en þá veit jeg ekki, hvernig ætti að selja hana yfirleitt, því að ekki verður hjá því komist að selja hana í smáskömtum, eftir því sem hún veiðist. Það var öðru máli að gegna þegar gerðir voru samningar um sölu síldarinnar til Svíþjóðar, en nú mun það óhugsandi. Ef menn hugsa sjer, að stjórnin verði bundin við það að hafa ein kaup á allri síldinni í einu, þá geta þeir, sem hún vill selja, sett henni stólinn fyrir dyrnar. Því verður stjórnin að haga sjer eins með söluna eins og einstakir menn. En hvort sem verður, þá er ómögulegt að girða fyrir það, að kaupandinn fái hina og þessa til að bjóða fyrir sig. Og þótt útlendingar fái að veiða, þá stöndum við ekki skrefi nær.

Háttv. 1. þm. Rang. (Gunn S.) taldi það hneyksli, að trúa ekki stjórninni til að fara með þetta mál. En jeg hefi ekki sagt eitt orð í þá átt, og satt að segja hefi jeg heldur tekið hennar málstað í þetta skifti. Jeg hefi reynt að gera grein fyrir því, að þessi lagasetning, sem gert er ráð fyrir, sje óframkvæmanleg.

Háttv. samþingismaður minn var að tala um, að óþarfi væri að takmarka veiðina, af því að hún takmarkaðist af sjálfu sjer. vegna getuleysis almennings. En það hefir ekki vakað fyrir mönnum að takmarka veiði Íslendinga, heldur útlendinga. Ef háttv. þingmaður gæti fært rök að því, að þeir væru getuminni en áður, þá væri ástæða til að taka athugasemd hans til greina. En jeg. veit ekki betur en að geta útlendinga sje meiri nú en áður, enda eru ríkin farin að styrkja þá til veiðanna hjer við land. Mjer finst, að þingmenn ættu ekki að villa sjálfum sjer sýnir með þessu, en gera sjer fulla grein fyrir því. Og sje ekki gagn að lagasetningu þessari, þá er rjettara að falla frá henni.