20.05.1921
Neðri deild: 76. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 2488 í B-deild Alþingistíðinda. (2645)

122. mál, útflutningur og sala síldar

Stefán Stefánsson:

Það er nokkuð til í því, sem sagt hefir verið, að þetta frv. sje mjög á annan veg en það var, er það fór hjeðan úr deildinni, enda hafa því verið valin ýms niðrandi nöfn, þar sem hv. frsm. (M. K.) nefndi það „óskapnað“ og hv. 1. þm. Rang. (Gunn. S.).

Jeg lít svo á, að frv. þetta, ef það verður að lögum, muni hafa talsvert spillandi áhrif á síldarsölu hinna smærri útvegsmanna, er veiða síld á vjelbáta. Hagur þeirra flestra er ekki svo, að þeir geti keypt dýrar tunnur og salt, og verða því að selja síldina nýveidda, og þá er það svo venjulegast, að hærra verð fæst fyrir þá síld hjá útlendum en innlendum mönnum, eins og eðlilegt er, þar sem þeir hafa að öllum jafnaði betri aðstöðu, bæði með söluna erlendis og flutningskostnað og annað fleira.

Hvernig mundi nú stjórnin fara að, ef útlendingur kæmi til að kaupa nýveidda síld? Sem sagt veiða margir síldina á smáum bátum, og verða því að selja í smáskömtum daglega. Og hvað gerir þá stjórnin, ef útlendingar vildu ekki kaupa þessa síld af mönnum, einmitt vegna þess, að þeir vildu ekki eiga undir því, hvort stjórnin heimilaði þeim að flytja út og selja síldina á erlendum markaði? Eða mun hún telja slíka sölu sams konar og selda erlendis, þar sem þeir menn væru kaupendur?

Flestir innlendir síldarútvegsmenn vilja ógjarnan kaupa síld af öðrum, heldur aðeins selja þá síld erlendis, sem þeir láta veiða. Jeg hugsa því, að þetta verði til þess, að þessir smáútvegsmenn verði að hætta við síldveiðar, þar sem þeir geta ekki búist við að fá það verð, sem þeir þurfa að fá, eða þá geta alls ekki selt, sem jeg hygg, að þá verði venjulega afleiðingin.

Það þarf ekki smávegis efni til að kaupa tunnur og salt, er nægi um veiðitímann. En það þarf ekki stór efni til að kaupa fáein síldarnet, og bátarnir eru litlir, og veiða þeir svo eftir hendinni, er tími og tækifæri leyfir.

Veiðiskapur þessara manna yrði stórlamaður með þessu frv., ef ekki eyðilagður.

Jeg verð að líta svo á, að takmörkun á veiðinni sje ekki heimil eftir frv. Jeg sje ekki, að stjórnin geti sett nein takmörk um það, hvenær sú mesta veiði, sem hún treystir sjer til að selja, er komin á land.

Nú stendur hjer í frv., að ríkisstjórnin afhendi eigendum söluverð síldar þeirrar, er hún selur, jafnóðum og það greiðist, en mjer skildist á hæstv. atvrh. (P. J.), að stjórnin tæki ekki að sjer framkvæmd frv. eða laganna á annan hátt en þann, að gefa jafnaðarverð. Þetta sýnist mjer stríða á móti orðalagi og meiningu greinarinnar, og því vafasamt, hvað af þessu gæti leitt í framkvæmdinni.

Málið er því bæði vafa- og vandamál, enda hefir það altaf verið að taka meiri og meiri breytingum, og er, að öllu athuguðu, eðlilegast, að það bíði úrslita næsta þings og því sje vísað til stjórnarinnar, og geri jeg það að tillögu minni, að því verði vísað til hennar að umr. loknum.