26.02.1921
Neðri deild: 9. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í C-deild Alþingistíðinda. (2657)

36. mál, þjóðjarðir

Frsm. (Stefán Stefánsson):

Háttv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) sagðist vita, að betra yrði eftirlitið með þjóðjörðunum, ef frv. þetta næði fram að ganga. Mjer liggur við að segja: „Mikil er trú þín, kona.“ Háttv. þm. (Sv. Ó.) veit, að ríkisstjórninni mun ávalt takast vel að velja slíka menn; hann veit, að hún mun aldrei verða hlutdræg, aldrei láta fylgismenn sína eða gæðinga ganga fyrir öðrum, Háttv. þm. (Sv. Ó.) gefur mjer tilefni til að taka það fram, að jeg efast um þetta, því að þessi maður, sem á að hafa á hendi umboðið, verður þá að hafa margfalda yfirburði fram yfir hreppstjórana, sje þeim engan veginn treystandi til umboðsstarfsins, hverjum í sínum hreppi, og jeg get búist við, að það Verði erfitt að fá slíkan mann á hverjum tíma sem er.

Sami háttv. þm. (Sv. Ó.) hreyfði því, að það hefði verið kafað svo grunt hjer í deildinni, þegar Arnarstapaumboð var undanskilið framkvæmd laganna, og hann þá bar fram hina sömu tillögu og hann flytur nú, um að Múlaumboð falli einnig undir þetta lagafrumvarp, að þess hafi ekki verið gætt, að hann rjeði engu um það, hver yrði umboðsmaður eftir sinn dag. Það er ekki mitt að svara þessu ámæli, heldur er það háttv. þm. Mýra. (P. Þ.) að taka upp hanskann hvað þetta snertir, þar sem hann var frsm. þess máls.

Hv. þm. (Sv. Ó.) gat þess enn fremur, til að fegra afstöðu sína til þessa máls, að hjá honum væri alls ekki um neitt vantraust á hreppstjórunum að ræða, þeir væru eiginlega vel færir um að hafa þetta umboð á hendi. Já, — en þá er heldur ekki nein ástæða til að taka umboðið úr höndum þeirra. Þm. gat þess, að farið væri með þetta sem hreppsmál. Að vísu má hugsa sjer það, en með því er ekki sagt, að þá hljóti að verða illa með eignina farið, því það mundi valda tjóni fyrir sveitarfjelagið. Annars virðast lögin næg trygging fyrir góðu eftirliti með eignunum. Því jeg fæ ekki sjeð, að engin trygging sje í því, að sýslumaður samþykki ábúðarskilmála. Hann ætti þó að geta sjeð, hvað sje löglegt eða rjettmætt og hvaða skilmálar sjeu með öllu óhlutdrægir. Það er næstum óskiljanlegt, að ekki megi fyllilega treysta sýslumönnum að þessu leyti. Annars vil jeg spyrja hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.) og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.), að ef til dæmis væru í sama hreppi, segjum 2—3 jarðir, sem væru mjög vel fallnar til sundurskiftingar í grasbýli, og svo skyldi fara, að fjöldi manna vildi fá lóðir. Þá risi upp í hreppnum að öllum líkindum smáþorp. Væri þá ekki sjálfsagt að svifta hreppstjórann umboðinu? Mjer skilst eftir stefnu frumv., að svo yrði að fara, en það yrði nokkuð erfitt í framkvæmdinni, yrði sennilega þingmál í hvert sinn, sem slíkt kæmi fyrir.

Hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.) sagði, að ekki væri nema einn ábúandi á hálfri Flatey. En var nú ástæða til, að einn maður fengi bygðar tvær lendur? Að mínu áliti er það illa farið, hvernig umboðsmenn hafa hagað sjer í þessu falli, hvernig þeir hafa leyft sjer að byggja jafnvel vildisjarðir þeim, sem ekki hafa flutt á þær til ábúðar, heldur nytjað þær, og svo flutt meira og minna af heyfengnum burt af jörðinni. Þetta hefir orðið til þess, að jörðin hefir níðst niður, bæði að ræktun túns og viðhaldi húsa. Það hefir jafnvel komið fyrir, að mönnum hafa verið bygðar stórar jarðir á þennan hátt, sem engin nauðsyn bar til að gera. Slíkt virðist ekki vera vel samrýmanlegt því, að mörg góð bændaefni eru í vanda stödd af því að þá vantar jarðnæði. Þetta álít jeg að hreppstjórar mundu ekki leyfa sjer, en þetta hafa umboðsmenn leyft sjer, eins og kom fram í ræðu hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.). En í því tilfelli hefir að vísu getað staðið svo á, að fleiri hafi ekki beiðst ábúðarinnar.

Hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.) þótti undarlegt, að hjer skyldi verða slíkur þytur út af frv. þessu, þar sem Arnarstapaumboðið var samþykt nær orða og umræðulaust. En hjer er öðru máli að gegna, þar sem hjer er að ræða um þrjú smá þorp, í mikilli fjarlægð hvert frá öðru.

Hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.) gat þess enn fremur, að hreppstjórar stæðu ekki beint undir ríkisstjórninni, en það yrðu umboðsmenn að gera, þar sem eignirnar ættu að vera háðar beinu eftirliti stjórnarinnar. Þetta er ekki þýðingarmikið atriði, þegar þess er gætt, að þeir þurfa að gera stjórninni árleg skil, og það er verk sýslumannanna, sem standa beint undir stjórninni, að líta eftir, hvernig þeirra reikningsskil eru. Ef vangoldið er frá hreppstjóra árum saman, er auðvitað sjálfsagt, að sýslumaður tilkynni þá vanrækslu, og yrðu þá að sjálfsögðu gerðar þær ráðstafanir, sem hlýða þætti.

Jeg man svo ekki eftir, að það kæmi fram í ræðum háttv. þm. nokkrar fleiri verulegar ástæður, sem leggjandi sje áhersla á, og hefi því ekki meira að segja að sinni.