26.02.1921
Neðri deild: 9. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í C-deild Alþingistíðinda. (2659)

36. mál, þjóðjarðir

Sveinn Ólafsson:

Það tekur því ekki fyrir mig að elta lengi ólar við hv. mótstöðumenn mína. Svör þeirra hafa flest farið fram hjá efninu. Þó hafa einstöku atriði fram komið, sem jeg neyðist til að gera athugasemdir við. Frsm. háttv. nefndar (St. St.) fór mest í aukaatriði, en gekk fram hjá því, sem ráðherra lagði mikla áherslu á, sem sje þá tryggingu, er frv. veitti, og í hverju hún væri aðallega fólgin. Til þess að sýna honum, að hann hefði gengið fram hjá þessu atriði, benti jeg honum á, að það hefði þótt meiri trygging í að fela Arnarstapaumboð sjerstökum umboðsmanni. Hann spyr nú, hvernig hafi farið með Arnarstapaumboð, og á víst að skilja það sem tilvitnun til vanskila, sem þar urðu eitt sinn hjá umboðsmanni, og bendingu um, að svo muni verða eftirleiðis, ef þeim sje haldið. Þessi spurning er vindhögg og dæmið of einstaklegt til að álykta eftir því. Missmíði og axarsköft hafa komið fyrir hjá opinberum starfsmönnum í ýmsum stjettum. Sýslumenn hafa hröklast úr embættum fyrir óhöpp eða óreglu og sjóðþurð, og neitar þó enginn því, að starf þeirra sje nauðsynlegt. Vandalítið væri að benda á glappaskot einstakra hreppstjóra og hrapallega meðferð þeirra á kirkjujörðum, en slík dæmi sanna nær ekkert um það, hvert fyrirkomulagið sje tryggast. Sú tilgáta hans, að hreppstjórar myndu aldrei leyfa sjer að byggja tvær jarðir sama manni, eins og umboðsmenn hafi leyft sjer að gera, er svo skopleg, að jeg nenni ekki að svara henni. Hvað viðvíkur viðbótarræðu hv. 2. þm. N.-M. (B. H.), þá skal jeg taka það fram, að jeg sagði ekki, að hrepparnir hefðu samtök um að fá jarðirnar sem ódýrastar, heldur að það 1iti stundum þannig út. Hvað eiðsvörnu virðingarmönnunum viðvíkur, þá má ekki gleyma því, að sannfæring þeirra getur oft litast af aðstöðu til vina, frænda og vandamanna, og þeim alveg ósjálfrátt, jafnvel hjá samviskusömustu mönnum; eða — hví er varnaður boðinn á því í lögum, að eiðsvarnir dómarar dæmi í málum vandamanna? Að öðru leyti tek jeg ekki alvarlega athugasemdir, sem ekkert hafa komið málinu við.

Hvað viðkemur Múlasýsluumboði, þá liggur ekki fyrir skýrsla um jarðirnar, og skal jeg því geta þeirra að nokkru.

Þær eru 5. Fyrst er Kollaleira við Reyðarfjörð með Búðareyri. Þar hefir bygð aukist mjög á síðari árum, og þar er aðalviðskiftastöð kaupfjel. Hjeraðsbúa. Önnur er Kappeyri í Fáskrúðsfirði, sem nú hefir tekið við bygðarauka Búðaþorps með sjávarúthaldi. Þriðja er Nes í Norðfirði, þar sem stærsta kauptún Austurlands stendur, en þar er að vísu að eins 1/3 eignarinnar ríkiseign. Fjórða er Vattarnes við Reyðarfjörð, einhver þektasta og besta verstöð eystra. Fimta er Glettinganes við Borgarfjörð, lítið kot að vísu, en verstöð góð og sjálfkjörinn vitastaður, jörð, sem mikið kapp var lagt á að fá keypta fyrir nokkrum árum fyrir 400 krónur, en sjálfsagt er að ætla vitaverði til ábúðar. — Hjer við mætti reyndar bæta 6. jörðinni, námujörðinni Helgustöðum. Enga þessa jörð ætti að selja, en talsverðu hygg jeg varði fyrir ríkissjóð, að sæmilega sje með þær farið.