23.02.1921
Neðri deild: 7. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 22 í C-deild Alþingistíðinda. (2664)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Jakob Möller:

Það mun víst ekki vera til þess ætlast, að miklar umræður verði um þetta mál nú. En þó vil jeg segja örfá orð, vegna þess, að að þessu máli hefir verið vikið áður hjer í deildinni, og þá haldið miklu meir eindregnum vörnum uppi fyrir þessum ráðstöfunum en nú var gert.

Á síðustu dögum þingsins í fyrra kom fram frv. um skipun nefndar til að hafa hönd í bagga með peningaviðskiftunum við önnur lönd. Frv. það náði ekki fram að ganga, en aðalefni þess var svo tekið upp í frv. það, sem hjer liggur fyrir, sem stjórnin gaf út sem bráðabirgðalög 15. apríl s. 1. — Síðasta þing veitti stjórninni að eins heimild til að hefta innflutning á óþörfum varningi. Það kom fram þá, að stjórnin hafði tilhneigingu til að teygja þessa heimild svo, að hún, næði einnig til nauðsynjavöru. En sem betur fer hefir stjórnin ekki treyst sjer til að láta undan þessari tilhneigingu sinni í framkvæmdinni. En að þessi hafi verið til gangur stjórnarinnar sjest á því, að hún byrjaði á því að semja reglugerð, sem hún hefir síðan sett fæturna undir með þessu frv. Stjórnin hefir aldrei verið ávítuð fyrir það að hefta innflutning á óþarfa varningi, heldur hefir hún verið vítt fyrir það, með rjettu, að hún hefir gert of lítið að því. Hún hefir ekki framkvæmt lögin frá 8. mars, heldur sett bráðábirgðalög og borið fram till. um það að hefta innflutning á nauðsynjavörum. Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) hjelt því fram um daginn, að viðskiftahömlurnar hefðu orðið til þess að hefta innflutning á óþarfa varningi. Þetta undraðist jeg. Til þessa þurfti ekki ný lög; lögin frá 8. mars nægðu, þ.vi að þau áttu við allskonar glingur og prjál, sem hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) nefnir svo.

Þegar um þetta frv. ræðir, liggur ekki lengur fyrir að athuga, hvernig eigi að hefta innflutning á óþarfa varningi, heldur er hjer spurningin um það, hvort hefta eigi frjálsa verslun á nauðsynjavörum eða ekki. Um það verður ágreiningurinn. Því hefir verið haldið fram, að viðskiftahömlumar hafi reynst árangurslausar, og það lá í hlutarins eðli, að svo hlyti að fara. Innflutningurinn hlýtur að haldast í hendur við eyðsluna, hvort sem heftur er innflutningur að nafninu til eða ekki. En stjórnin hefir enga tilraun gert til þess að draga úr eyðslunni, því jeg get ekki talið skömtunarkákið á tveim vörutegundum tilraun í þá átt. Hún gat engin áhrif haft, því að það eyðist að eins þess meira af öðrum vörutegundum, og heildarútkoman verður sú sama. Ef þessi skömtun hefði átt að verða annað en kák, varð að skamta miklu fleiri vörutegundir, neyða menn til að spara og nota meira innlendar afurðir. Þessi skömtun hefir einnig verið framkvæmd á þann hátt, að hún er hreinasti hjegómi. Jeg get sagt fyrir mig, að jeg hefi aldrei þurft á hveiti eða sykurseðlum að halda. Ef sá hefir verið tilgangur stjórnarinnar með öllum þessum höftum og nefndum, að takmarka innflutning á óþarfa varningi, þá hefir hann mistekist. Menn þurfa ekki annað en ganga hjer búð úr búð og sannfæra sjálfan sig um, að meira en nóg er til af öllu, sem óþarfi má teljast. Ef sá hefir verið tilgangurinn að takmarka innflutning nauðsynjavöru, þá hefir hann einnig mistekist. Jeg veit ekki til þess, að þurð hafi orðið á matvöru, fyr en hv. þm. Ak. (M. K.) segir, að lítið sje orðið af hveiti. En þar á landsverslunin sök á máli, en ekki hömlurnar að öðru leyti.

Jeg hefi bent á það, að viðskiftahöftin hafa ekki náð tilgangi sínum, og jeg held, að flestir verði mjer sammála um það atriði. Hæstv. fjármálaráðh. (M. G.) drap á það, þegar annað mál var hjer til umræðu, að hægt væri að fá skýrslu frá innflutningsnefnd og sjá á henni árangur þann, sem orðið hefði af starfi hennar. Vitanlega er hægt að fá skýrslu, en þó að innflutningsnefnd sýni það, að hún hafi neitað einhverjum um innflutningsleyfi, þá sannar það ekkert. Jeg veit um verslun, sem er ekki hjer í bænum, og hún sótti um innflutningsleyfi á veiðarfærum. Þetta var versluninni bráðnauðsynlegt, en henni var synjað um leyfið. Hún bað þá heildsala hjer í bænum að útvega sjer veiðarfærin, hann fór til innflutningsnefndar og fjekk leyfið samdægurs.

Í skýrslu innflutningsnefndar verður auðvitað sýnd þessi neitun, en menn geta sjeð, að hún sýnir ekki, að viðskiftahöftin hafi takmarkað innflutning. Og svo verður um fleiri leyfissynjanir nefndarinnar, það sem einum er varnað er öðrum leyft. Eins má benda á það, að umsóknirnar verða fleiri. Kaupmenn sækja um leyfi fyrir meira en þeir þurfa, til þess að fá þá frekar eitthvað. Neitanir um innflutningsleyfi sýna þess vegna ekkert um innflutninginn, þó skýrslan sýni, að minna hafi verið flutt inn síðasta ár en árið þar á undan, sannar það ekkert í þessu máli. Allir vita um peningakreppuna, sem verið hefir, og vöntunina á erlendum gjaldeyri. Auk þess getur innflutningur orðið mismunandi á ýmsum árum vegna þess, að fyrir getur legið mismunandi mikið af vörum við ársbyrjun. Jeg býst þess vegna ekki við því, að mikið verði að græða á þessari væntanlegu skýrslu, en engu að síður verður fróðlegt að sjá hana og sjálfsagt að rannsaka alt því viðvíkjandi.

Því hefir verið haldið fram, að afnema eigi allar þessar tilraunir til að hefta innflutning, og það verð jeg að taka undir. Ástæðan fyrir þessari kröfu er ofureinföld; það hefir sýnt sig, að viðskiftahömlurnar hafa orðið árangurslausar, og verra en það, því hefir jafnvel verið haldið fram, að þær yrðu til þess að auka innflutning. Hæstv. fjármálaráðh. (M. G.) hefir sýnt sig algerlega skilningslausan gagnvart þessu, en í raun og veru er það vel skiljanlegt; þegar vörur eru að falla á erlendum markaði, er áhættumikið að flytja inn meira en nauðsyn krefur í hvert skifti, og það heftir þess vegna innflutninginn, ef verslunin er frjáls. En nú, þegar viðskiftanefnd leyfir ekki innflutning fyr en þær birgðir eru búnar, sem í landinu eru, þá ýtir það undir menn að flytja mikið inn. Það verndar þá fyrir verðfallinu. Þessi vernd viðskiftahaftanna dregur úr varúð manna og dregur úr áhuga þeirra á því að gera góð innkaup. Hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.) gat þess, að í nóv. síðastliðnum hefði komið umsókn um allmikinn innflutning á sykri. Jeg veit ekki, hvort svo hefir verið, en hitt veit jeg, að ef þessi beiðni hefir verið borin fram, þá hefir það verið gert í skjóli innflutningshaftanna. Mennirnir hafa sjeð, að þeim var óhætt að flytja mikið inn, viðskiftahöftin verðu þá gegn væntanlegu verðfalli. Nú varð það landsverslunin, sem sykurinn flutti, og einmitt í þessu sama skjóli. Ef höftin hefðu ekki verið, hefði innflutningur á sykri ekki orðið eins mikill, og á því hefði sparast stórfje.

þessar viðskiftahömlur eru sjerstaklega hættulegar, þegar vöruverð er að lækka. Þær hljóta að halda við dýrtíðinni í landinu. Ef hömlurnar eru ekki, heldur frjáls verslun, er altaf hægt að ná í vöru með lægsta verði, því að menn kaupa varlega inn, en oftar, og almenningur nýtur verðfallsins jafnóðum. Nú er svo ástatt, að einum aðalatvinnuvegi landsins ríður lífið á, að dýrtíðin hjaðni. Það er lífsskilyrði fyrir sjávarútveginn, að kaupgjald lækki, en innflutningshöftin hindra það. Auk þess er honum nauðsynlegt að geta fengið þær vörur, sem til framleiðslunnar fara með hæfilegu verði. Ef engin bót er á þessu ráðin, er sú afleiðing hugsanleg og jafnvel sennileg, að útvegurinn hætti að bera sig. Mönnum er farið að skiljast þetta, og þó að margir yrðu til þess að mæla höftunum bót fyrst í stað, þá fer tala þeirra stöðugt lækkandi. Það má nefna það til dæmis, að í upphafi voru blöðin ekki andvíg þessum höftum, nema eitt, en nú þorir ekkert blað að mæla þeim bót. Eitt blað hjer í bænum hefir að vísu hringlað fram og aftur í þessu máli, en nú held jeg, að það hafi ekki hug til að taka viðskiftahöftin upp á arma sína. Og almenningsálitið hefir fordæmt þau. Stjórnin hefir borið það fyrir sig, að bankarnir hafi heimtað þetta, en henni hefir verið bent á, að hún á að vera yfir bönkunum, ekki undir þeim. Hún á ekki að vera vikadrengur bankanna og gera það eitt, sem þeim sýnist. Jeg segi þetta með tilliti til þessa máls og líka með tilliti til annars máls, sem hjer hefir verið rætt, gjaldeyrislánið. Þó bankinn segi nei, er það skylda stjórnarinnar að skipa þeim að gera það, sem almenningsheill krefur. Stjórnin á ekki heldur að hlaupa þegar í stað í bankana, þegar eitthvað ber að höndum, og leita álits þeirra. Hún á að tilkynna þeim álit sitt og láta þá breyta samkvæmt því.

Höfuðorustan um þetta mál stendur ekki að þessu sinni, og þess vegna fer jeg ekki nánar út í það, en jeg geymi mjer rjett til að ræða það síðar.