24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 32 í C-deild Alþingistíðinda. (2669)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Atvinumálaráðherra (P. J.):

Jeg bjóst við, að hálfgerður eldhúsdagur yrði um viðskiftahöftin, er þetta mál kæmi fram, en þar sem nú er búið að kjósa sjerstaka nefnd til að rannsaka þetta mál, þá er alveg ástæðulaust að halda slíkan eldhúsdag við þessa umræðu. Þessi nefnd er að vísu rannsóknarnefnd á stjórnina, en hún er um leið rannsóknarnefnd á ráðstafanir Alþingis 1920. Aðalumræður um þetta mál fara þess vegna þá fyrst fram, er nefndin hefir lokið störfum sínum. Þó vildi jeg með nokkrum orðum minnast á verkefni þessarar verslunarmálanefndar, sem er nú búið að kjósa.

Það leit svo út eftir ræðu hv. frsm. (M. G.) fyrir þessari nefndarskipun, að aðalhlutverk nefndarinnar væri að athuga ágalla þá, er væru á viðskiftahöftunum og rekstri landsverslunarinnar. Á gallana þarf ekki að minna, þá má ávalt finna einhverja, og það er auðvitað nauðsynlegt að athuga þá og bæta úr. En því má þá heldur ekki gleyma, að það er ekki siður nauðsynlegt að athuga kosti eða nauðsyn þessa fyrirkomulags. Það er þá það fyrsta, sem jeg vil benda þessari nefnd á, að hún verður að eiga tal við og ráðfæra sig við viðskiftanefndina sjálfa og fá í hendur öll gögn, er snerta starf hennar, því að margt hefir verið fundið að henni, og margt verið um hana sagt, sem alls ekki er rjett. Jeg ætla hjer ekki að fara að svara neinu fyrir hönd viðskiftanefndarinnar, enda mun hún koma fram fyrir þingnefndina.

Eitt mesta vandræðaefnið eru vörubirgðirnar, sem nú liggja hjer á landi, í sambandi við verðfall það, sem þegar er byrjað erlendis, og jafnvel er farið að bóla á hjer. Um vörubirgðir landssjóðs er tiltölulega einfalt fyrir löggjafarvaldið að ráða fram úr, með því að höggva á þann hnút. Öðru máli er að gegna um vörubirgðir kaupmanna og margra kaupfjelaga. Sje verðfall á vörum erlendis eins mikið og af er látið, — það efast jeg nú að vísu um, — en birgðir af sömu vörum til í landinu til margra mánaða, þá er þarna vandinn. Nú segja sumir, að úr þessu verði bætt með því að hleypa nýjum vörum sömu tegundar inn í landið og á þann hátt pressa kaupmennina til að færa niður verðið. þetta er ekki ósanngjarnt í sjálfu sjer. Margir græddu svo á verðhækkuninni, á meðan hún stóð, að þeir ættu að eiga fyrir verðfalli nú. En eiga þeir þá fyrir því nú? Á það verður nefndin að líta, því ekki getur hjá því farið, að kaupmenn verði að færa niður. Mjer hefir nú sýnst, að hjer gæti verið um milliveg að ræða í þessu máli, eins og hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) benti á, því að það er þó ekki svo aðgengilegt að hleypa vörum inn í landið, sem landsmenn ekki beint þarfnast nje hafa gjaldeyri fyrir, það má ganga að því sem vísu, að skortur verði á gjaldeyri. Við verðum því, eins og hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) gat um, að takmarka okkur sem allra mest. Þetta vita líka allir. Það er mikil spurning, hvort við höfum gjaldeyri fyrir bláberar lífsnauðsynjar. Að hleypa nýjum vörum inn í landið, án annarar þarfar, en að þrýsta niður verðinu á samskonar vörum, sem til eru fyrir, það er, frá sjónarmiði heildarinnar, álíka búhnykkur og ef maður, sem keypti sjer fatnað nú í hádýrtíðinni, ætlaði sjer svo að bæta óhappið upp með því að kaupa sjer annan fatnað, þegar verðið fjelli, þótt hann þyrfti hans alls ekki við, en vantaði hins vegar helstu lífsnauðsynjar. það er að vísu auðsætt, að það er ótækt, ef dýrtíðin helst við í landinu lítið breytt, þegar mikið verðfall er komið erlendis á sömu vörum. En hitt nær heldur ekki neinni átt, í gjaldeyrisskortinum, að flytja inn vörur, sem vjer að öðru leyti getum verið án, til þess þá einungis að þrýsta niður verðinu á vörunum, sem fyrir eru. Hjer er ráðgáta fyrir nefndina.

Og gerum nú ráð fyrir, að öll verslunarhöft verði afnumin. Hvernig mun þá hliðrast til um gjaldeyrinn í hinni frjálsu samkepni? Segjum svo, að hann reyndist nú t. d. helmingi minni þetta ár en undanfarin ár? Myndi hann þá skiftast sanngjarnlega niður á verslunarrekendur, miðað við fyrri verslun þeirra? Mundi ekki hver og einn þar skara eld að sinni köku, eins og verið hefir í frjálsri samkepni, ýmsir verða út undan, og því fleiri, sem minna verður til skifta? þetta tel jeg víst, og þetta tel jeg íhugunarverðast. Og þá er spurningin: Verða það þeir, sem lífsnauðsynjarnar flytja inn, sem sitja í fyrirrúmi? Er ekki hætta á því, að hálfnauðsynjarnar þoki meira eða minna úr vegi lífsnauðsynjunum? Hjer er þungamiðjan í starfi nefndarinnar.

þá er að minnast á ástandið í landinu. Háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) lagði mikla áherslu á hinar breyttu kringumstæður frá því styrjöldin hætti. Allar ráðstafanir þá hefðu verið stríðsráðstafanir. Jeg vildi nú mega spyrja: Er ekki sýnilega fult eins alvarlegt ástand um innflutning vara í landið og meðferð þeirra nú, þegar innflutningurinn hindrast af gjaldeyrisskorti einungis, heldur en þegar hann hindraðist af flutningateppu og öðrum verslunarhindrunum stríðsins?

Þetta alt liggur til athugunar fyrir nefndina. Og þótt jeg viti, að hún taki starf sitt með mikilli alvöru, þá þótti mjer rjett að beina þessum spurningum til hennar, því þær allar og ýmsar fleiri hafa legið þungt á mjer og allri stjórninni, og það gleður okkur, að þessi nefnd ljettir nú nokkuð af áhyggjum stjórnarinnar.

Eitt vil jeg loks benda á, að þegar verið er að tala um verslunarhöft innflutningsnefndar, þá má ekki blanda saman öllum verslunarhöftum. Höftum, sem komin eru af gjaldeyrisskorti, má ekki blanda saman við höft, sem innflutningsnefndin hefir að öðru leyti átt þátt í, og er miklu meira af slíkum höftum en af er látið.