24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 35 í C-deild Alþingistíðinda. (2670)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Jakob Möller:

Það fer eins og fyrri daginn, að misskilnings gætti í ræðu hæstv. fjármálaráðherra (M. G.). Hann sagði, að það, sem jeg sagði í ræðu minni í gær, hefði verið það sama og jeg talaði um hjerna á dögunum, enda vjek hann ekki einu orði að aðalatriði ræðu minnar í gær.

Aðalatriði ræðu minnar í gær var það, að hindra mætti innflutning á óþarfavarningi, samkvæmt fyrirmælum laganna, sem samþykt voru á síðasta þingi og staðfest voru 8. mars. En því bætti jeg við, að á síðasta þingi hefði bólað á tilhneiging í þá átt að reyna að teygja bókstaf þeirra laga, svo að þau gætu einnig náð til nauðsynjavara. Þessarar tilhneigingar varð einmitt vart hjá mönnum, sem að minsta kosti voru mjög nákomnir núverandi stjórn. En þegar til framkvæmdanna kom, reyndist lagabókstafurinn ekki nógu teygjanlegur, og þess vegna eru fram komin þessi bráðabirgðalög, sem jeg hefi fullyrt, og fullyrði enn, að ekki hafi orðið að neinu gagni.

Jeg ætlaði ekki að stofna til eldhúsdagsumræðna um málið að svo stöddu, að eins vekja athygli manna á því, að banna mætti innflutning á óþörfum varningi án þess að leggja hömlur á innflutning nauðsynjavara, og annars vegar á því, að höft á nauðsynjavöruinnflutningi eru gersamlega þýðingarlaus, ef ekkert er gert til þess að draga úr eyðslunni. Þó að höft sjeu lögð á innflutning á rúgmjöli, þá borða menn þó jafnmikið brauð, meðan það fæst. Að minsta kosti yrði höftunum að fylgja skömtun. En allar skömtunartilraunir stjórnarinnar hafa reynst þýðingarlausar.

Að þessum atriðum ræðu minnar vjek hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) ekki á annan hátt en með því að spyrja mig, hvort jeg vildi ekki viðurkenna, að tekist hefði að draga úr innflutningi á óþarfavarningi! Um það fullyrði jeg hvorki til nje frá. Jeg fullyrði að eins, að þetta hefði verið unt án þessara laga, samkv. lögunum frá 8. mars, — og það jafnvel betur en tekist hefir. Jeg vil þó segja, að það eru teljandi þær tegundir af óþarfavarningi, sem eru ófáanlegar hjer.

Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) viðurkendi, að viðskiftahömlur gætu haldið uppi verði á nauðsynjavörum, en lagði litið upp úr því og áleit, að ráða mætti bót á því með því að láta verðlagsnefnd lækka verðið. Hvers vegna hefir það þá ekki verið gert? Hjer eru seld kol, sykur og hveiti miklu hærra verði en unt væri samkv. verði því, sem á þessum vörum er nú á erlendum markaði. — Jeg hygg, að það mundi reynast erfitt viðfangs að ákveða verðlag hjer samkv. erlendu markaðsverði á vörum, sem keyptar hafa verið inn fyrir hærra verð, jafnvel með öllu óframkvæmanlegt. Þá þyrfti eftirlit verðlagsnefndar að minsta kosti að taka mjög fram því opinbera eftirliti, sem menn eiga hjer að venjast. — Og hvað sýnir reynslan? Verðlagsnefnd hefir verið skipuð hjer, og hefir hún fært lítið eitt niður verð á örfáum vörutegundum hjer í bænum, en mjer er sagt, að áhrifa hennar hafi alls ekki orðið vart úti um land. Hitt hefir víst alls ekki verið borið við, að verðfella vörur, sem keyptar hafa verið hærra verði erlendis, svo að útsöluverð þeirra svari til núverandi verðlags erlendis, nema ef vera skyldi á kaffi, nú fyrir skemstu, til undirbúnings undir þingið.

Jeg verð svo að vekja athygli manna á ósamræminu í ræðum hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) og hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.). Hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) hjelt því fram, að lækka mætti verðið á dýrum vörubirgðum, í stað þess að leyfa innflutning; alt annað kom fram í ræðu hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.). Hann sagði, að erfiðasta viðfangsefnið væru hinar dýru vörubirgðir, sem til væru í landinu hjá kaupmönnum og kaupfjelögum, og það stórkostlega tap, sem á þeim birgðum hlyti að verða, ef ódýrari vörur yrðu fluttar inn. Einmitt þetta hefir ráðið of miklu hjá stjórninni. Viðskiftahömlurnar hafa verið notaðar til að vernda þá, sem hafa slíkar vörubirgðir fyrirliggjandi. Orð hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) sjálfs sanna þetta.

Það, sem nú er að ske hjer í Reykjavík, gefur glögga hugmynd um afleiðingamar af slíkri lögverndun dýrtíðarinnar. Atvinnuvegirnir eru að komast í kaldakol. Botnvörpungarnir að hætta veiðum, sökum þess, hve allar nauðsynjar eru dýrar, sem reksturinn þarfnast, og sökum hins háa verkakaups, sem dýrtíðin heldur við.

Hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) gat þess í ræðu sinni, að ekki mundi ráð á nema helmingi þess gjaldeyris, sem nauðsynlegur væri til lífsnauðsynjakaupa, á þessu ári. En heldur stjórnin, að innflutningshaftafálm hennar megni nokkuð til að afstýra slíkum vandræðum? Reynslan er búin að sýna það. — Eina bjargráðið er að efla atvinnuvegina, svo að framleiðslan aukist, en ekki það, að íþyngja atvinnurekstrinum. Og í sambandi við þetta skal jeg enn taka það fram, og bið sjerstaklega hæstv. fjármálaráðherra (M. G.) að athuga það, að ef afraksturinn af atvinnuvegum landsmanna gerir ekki betur en borga helming þeirra nauðsynja, sem landið þarf að kaupa að, þá fæ jeg eigi sjeð, hvernig hægt verður að komast hjá því að taka lán — og það jafnvel eyðslulán.