24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 38 í C-deild Alþingistíðinda. (2671)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Fjármálaráðherra (M. G.):

Háttv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) segir, að jeg hafi misskilið sig. Jeg held nú sannast að segja, að hann fari að verða nokkuð torskilinn.

Jeg var aðeins að svara því, sem hann vefengdi hjá mjer um daginn, en vjek ekki að frv.; það er hlutskifti hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) að svara fyrir það.

Háttv. þm. (Jak. M.) neitaði því ekki, að innflutningshöftin hefðu dregið úr óþörfum innflutningi, en vill þó alt að einu afnema þau; og þó að þetta frv. verði felt, þá fæst samt engin fræðsla um það, hvort höftin hafi orðið að gagni eða ekki. Háttv. þm. (Jak. M.) segir, að innflutningshöftin hafi verið lögð á vegna kaupmanna, og þó eru það þeir, sem berjast fyrir afnámi þeirra, enda er það líka fjarri sanni, að þau hafi til orðið vegna þeirra. Mjer finst, að ekki sje sanngjarnt að minnast á kolaverðið í þessu sambandi, og hvað viðkemur orðum háttv. þm. um starf verðlagsnefndarinnar og því, að hún hafi eigi sett niður verð á vörum landsverslunarinnar nje átt að gera það, þá held jeg að mjer sje óhætt að segja, að það verður ekki með rökum sagt, að verðlagsnefnd hafi legið á liði sínu, heldur þvert á móti, lagt á sig mikið erfiði, eins og betur mun eiga eftir að koma í ljós bráðlega.

Að öðru leyti mun hæstv. atvinnumálaráðh. (P. J.) svara því, sem viðkom frv. í ræðu hv. þm. (Jak. M.).