24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (2676)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Magnús Kristjánsson:

Af því að jeg hefi lent í þeirri nefnd, sem skipuð hefir verið í þetta mál, vildi jeg segja um það nokkur orð, jafnvel þó að jeg geri ráð fyrir því, að verða þar í minni hluta, og þó jeg geri ekki ráð fyrir því að geta sannfært þá menn, sem aldrei vilja láta sannfærast, eins og t. d. hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.). Það er margföld reynsla fyrir því um hann, að hann heldur sífelt áfram að berja höfðinu við steininn, og mundi heldur brjóta það en láta sannfærast. Þessi hv. þm. (Jak. M.) hefir bæði fyr og nú haldið því fram, að öll afskifti þings og stjórnar af verslunarmálum væru til ills eins, og að þingið ætti nú að taka í taumana og leggja landsverslunina niður og afnema öll viðskiftahöft. Þetta er hin megnasta fjarstæða, sem virðist sprottin annaðhvort af þekkingarleysi á málinu eða þá af öðrum hvötum, svo sem óþarflega mikilli umhyggjusemi fyrir hagsmunum verslunarstjettarinnar, sem þessi hv. þm. (Jak. M.) á óneitanlega mikið gott upp að unna. Þessar villukenningar þessa hv. þm. (Jak. M.) verða því væntanlega ekki teknar alvarlega.

Öllum ætti að vera það ljóst, að eina ráðið til að losast sem fyrst úr fjárhagsvandræðunum er að minka innflutninginn og að stuðla að því, að almenningur fái nauðsynjar sínar með sem vægustu verði.

Þá verð jeg að víkja nokkrum orðum að ræðu hv. 1. þm. G.-K. (E. Þ.). Lengi framan af virtist hv. þm. (E. Þ.) tala eins og skynsamur maður, og jeg fór að gera mjer góðar vonir um, að hann væri á rjettri leið. En skyndilega kemur eins og þruma úr heiðskíru lofti, að alt tekur að snúast í höndunum á hv. þm. (E. Þ.), og hann fer að hrekja það, sem hann í fyrri parti ræðu sinnar virtist vilja sanna.

Aðalgallinn á skoðun þessara háttv. þm. (Jak. M. og E. Þ.) er sá, að þeir álíta viðskiftahöftin til slíkrar bölvunar, að þau verði að afnema þegar í stað. Mjer virðist þeim farast líkt og mönnum, sem legðu árar í bát, er þeir væru staddir í sjávarháska, og forðuðust alla sjálfsbjargarviðleitni, en ljetu tilviljun eina ráða, hvort heldur flyti eða sykki eða hvar þá bæri að landi. Að sleppa öllum tökum, það er þeirra bjargráð. Ein orsökin til núverandi ástands á að vera sú, að landsstjórnin hefir haft afskifti af sölu nauðsynjavara. Þeir vilja gefa öllum kaupsýslumönnum leyfi til að flytja inn vörur eftir eigin geðþótta og með hvaða verði sem vera skal. Þetta á að vera allra meina bót. En jeg vona, að þingið hafi svo mikla ábyrgðartilfinningu, að stefna þessi verði ekki ofan á, og setji strangar reglur um, að kaupmenn geti ekki auðgast á ástandinu, heldur verði að selja vörur sínar fyrir sannvirði.

Hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) sagði í gær, að verðlagsnefndin ætti að vera nokkurskonar bjargráðanefnd fyrir þennan bæ. En það er rangt. Hún á að vera bjargráðanefnd fyrir alt landið.

Það hefir verið talað um það, að verðlagsnefndin hafi ekki haft umsjá með verðlagi landsverslunar. En engin nauðsyn hefir verið á að leggja verðlag á þær vörur, með því að þær ávalt hafa verið seldar eins sanngjarnlega og unt hefir verið.

Að halda því fram í fullri alvöru hjer á Alþingi, að erfiðleikarnir stafi af því, að landsstjórnin hafi hlutast of mikið til um verslunar- og viðskiftamál, er fjarstæða, sem ekki getur náð neinni átt og því ekki svaravert. En þeir, sem hafa hagsmuni af að telja almenningi trú um þetta, er ekki ofgott að reyna það. En þeir, sem vilja líta með skynsemi og ró á málið, munu fljótt komast að raun um, að orsakirnar liggja annarsstaðar.

Þessu máli er þannig varið, að úr því það er komið inn á þingið, verður það nú að leggja úrskurð á það, hvort eigi að sitja í fyrirrúmi, eiginhagsmunastefna örfárra einstaklinga eða almenningsheill. Jeg mun ókviðinn bíða úrskurðar seinni tíma um það, hvor stefnan hafi verið þjóðinni hollari, mín eða þeirra hv. þm. (Jak. M. og E. Þ.),er jeg nú hefi átt orðaskifti við.