24.02.1921
Neðri deild: 8. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í C-deild Alþingistíðinda. (2680)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Fjármálaráðherra (M. G.):

Út af ummælum hv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) vildi jeg benda á það, að kaupmaður, sem verður neyddur til að setja niður vörur sínar, verður jafnt gjaldþrota, hvort það er fyrir tilstilli verðlagsnefndar eða ekki, að hann lækkar verðið.

Ástæðan til þess, að jeg ekki vil slíta alveg viðskiftahöftin, er ekki fyrst og fremst hræðslan við gjaldþrot. Aðalástæðan fyrir mjer er sú, að meðan gjaldeyrisskortur helst vil jeg ekki láta eyða gjaldeyri í óþarfa. Það er rangt, að ráðstafanir, sem miða í þá átt, hafi nokkursstaðar orðið til tjóns, þær hafa áreiðanlega alstaðar orðið til bóta.

Jeg hefi ekki sagt, að þetta væri tvímælalaust eini rjetti vegurinn. Jeg hefi að eins haldið þessu fram sem mínu áliti, en meðan ekki er búið að sannfæra mig um, að önnur leið sje færari, þá verð jeg að halda fast við þetta.

Það er kátlegt að heyra því haldið fram, að stjórnin vilji ólm leggjast á móti því, að menn fái ódýran varning. Tilgangur okkar er að spara gjaldeyrinn, og á því tvennu er mikill munur.

Sumir hv. þm. virðast ganga út frá því sem vísu, að þeir kaupmenn, sem kynnu að fá leyfi til að flytja inn ódýrar vörur, muni miða útsöluverð við hið ódýra verð eingöngu, þótt þeir eigi mikið af eldri og dýrari vöru. En þetta er jeg ekki svo sannfærður um. Jeg get alveg eins búist við, að þeir geri með sjer samtök um að eyðileggja ekki hver annan, og haldi áfram að miða útsöluverð við hið eldra markaðsverð meðan hinar eldri birgðir verða fyrirliggjandi. (J. Þ.: Þar á verðlagsnefnd við).