19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 67 í C-deild Alþingistíðinda. (2688)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Þorsteinn Jónsson:

Þegar þingið í fyrra samdi heimildarlögin um að banna eða takmarka innflutning á óþörfum varningi, þá hafði það það í huga, að landsstjórnin semdi reglugerð um þær vörutegundir, sem hún teldi óþarfar, og bannaði innflutning á þeim. En í stað þess að gera þetta, stofnsetti hún viðskiftanefndina og fjekk henni vald til þess að ráða því, hvað skyldi flutt inn og hvað ekki. Jeg ætla mjer ekki að fara að leggja harðan dóm á þessar ráðstafanir, en það mun víst, að innflutningur hefði verið litlu meiri, þótt engar viðskiftahömlur hefðu verið. Það er gjaldþol þjóðarinnar, sem ræður mestu innflutningi á vörum til landsins. Að því er snertir nauðsynjavörur, þá verður eftirleiðis engrar viðskiftanefndar þörf þeirra vegna. Öðru máli er ef til vill að gegna með óþarfavörur. En þó finst mjer önnur leið rjettari en sú, að fela viðskiftanefnd ráð yfir því, hvað af þeim er flutt til landsins. Hún er sú, að banna gersamlega allan innflutning á ónauðsynjavörum með lögum. Í þeim lögum ættu að vera taldar upp þær vörur, sem eru á takmörkunum að vera nauðsynlegar og ónauðsynlegar. Yfir innflutningi þeirra vara á stjórnin að ráða. Og sjer til aðstoðar í því efni þarf hún enga viðskiftanefnd, heldur getur haft til þess einhvern mann í stjórnarráðinu.

Þetta vildi jeg að eins láta í ljós, nefndinni til athugunar, og ef tillögur hennar ganga engar neitt í þessa átt, þá væri jeg fús að flytja frv. um þetta efni En þar sem tími sá er útrunninn, sem þmfrv. mega koma fram, nema með undanþágu frá þingsköpum, þá vildi jeg óska, að hv. nefnd flytti frv. þess efnis, sem jeg hefi lagt til.