19.03.1921
Neðri deild: 27. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 70 í C-deild Alþingistíðinda. (2690)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Atvinnumálaráðherra (P. J.):

Jeg vil fara nokkrum orðum um það, hvernig verslunarhöftin eru til komin. Get jeg þar að mestu skírskotað til inngangsræðu minnar í þessu máli, um skilning stjórnarinnar á lögunum frá 8. mars 1920, en skal þó nokkru við bæta.

Ástæðan til þess, að frv. til laganna frá 8. mars 1920 kom fram, var óttinn við gjaldeyrisskort, ef vöruinnflutningur yrði ekki að stórum mun takmarkaður. Þessi ótti, sem kom fram á þinginu 1920, fór nú sívaxandi eftir þingslitin, líka hjá stjórninni; sá hún því, að lögin voru eigi að ófyrirsynju sett, enda þótt henni dyldust eigi vandkvæðin, sem yrðu á framkvæmd þeirra, ef þau ættu að ná tilgangi sínum.

Stjórnin sá það nú, að án aðstoðar var henni ómáttugt að framkvæma þau og að henni var því nauðsynlegt að fá menn til þess að taka þennan starfa að sjer, og satt að segja er mjer óskiljanlegt, hvernig menn geta haldið því fram, að hægt væri að komast af án nefndar. — Stjórnin hafði áður haft með rekstur landsverslunarinnar að gera, og hafði það bakað henni hina mestu erfiðleika, og var framkvæmdarstjórn landsverslunarinnar skipuð til þess að bæta úr þessu. Þegar nefndin settist á rökstóla, var það hennar fyrsta verk að gera tillögu til reglugerðar um tilhögun starfsins. Gerði nefndin í einu hljóði það skilyrði, ef henni ætti nokkuð að verða ágengt, að vald hennar væri eigi skorðað við tilteknar vörutegundir, sem innflutningsnefnd skyldi banna, heldur skyldi henni frjálst að takmarka innflutning á hverskonar vöru, sem hún áliti að flyttist of mikið af til landsins eða of mikið fyrirliggjandi af. Á þetta fjelst stjórnin. Hún þóttist sjá það glögt, að tilgangslaust var að skipa innflutningsnefndina, ef bannið næði að eins til þeirra vörutegunda, sem kallaðar eru óþarfar. Og í því lá einmitt vandinn, þegar að því kæmi, sökum gjaldeyrisskorts, að takmarka hæfilega innflutning nauðsynjavöru.

Veit jeg, að snúa má út úr þessum orðum mínum, ef þau eru skilin alt of bókstaflega, en um það hirði jeg eigi.

Það, sem vakti fyrir stjórninni, var, að svo framarlega gæti gagn orðið að nefndarskipuninni og hömlunum, að gætt yrði þess, að gjaldeyrir færi ekki út úr landinu fyrir þær vörur, sem nóg væri af fyrir, enda þótt nauðsynlegar væru í eðli sínu.

Nefndin, sem var skipuð 5 mönnum, 2 bankastjórum, 2 verslunarfróðum mönnum og lögfræðingi úr stjórnarráðinu, var stjórninni sammála um þetta. En það, sem jeg hygg að ylli því, að minna gagn varð að nefndarstörfunum en ella hefði orðið, var það, að þegar nefndin tók til starfa, var sá rekspölur kominn á innkaup, sjerstaklega iðnaðarvöru, að ekki varð við ráðið. Margir búnir að festa kaup erlendis og sumir búnir að borga, svo að ógerlegt var að hamla innflutningi þeirra vara, þegar svo var komið. En þrátt fyrir það, þótt nefndin kæmi of seint til sögunnar, er jeg þess fullviss, að hún hefir gert stórmikið gagn og heft stórum öfgarnar í innflutningnum. Og jeg er ekki trúaður á, að gjaldeyristregðan hefði dregið mjög úr honum, því að vörurnar hefðu verið fengnar að láni að meira eða minna leyti.

Í þessu sambandi skal jeg geta þess, að megn óánægja reis út af höftunum, einkum á Norður- og Austurlandi. Þetta kom mönnum þar á óvart; þeir þektu ekki kringumstæðurnar og bjuggust líka við, að hömlurnar mundu tilfinnanlegast koma niður á kaupmönnum og kaupfjelögum úti um land, en aftur á móti hlynna að kaupmönnum í Reykjavík og einkum heildsölunum þar. Ýfðist upp eldri gremjan frá stríðsárunum, þegar heildsalarnir spruttu hjer upp eins og fíflar í túni, en verslun kaupmanna úti um land drógst aftur úr, sökum samgönguleysis við útlönd. En af því hafði leitt, að flestir töpuðu sínum eldri samböndum erlendis og urðu að ganga undir heildsalana í Reykjavík. Hefði þetta ekki valdið óánægjunni, hygg jeg, að menn hefðu felt sig sæmilega við innflutningshöftin. Innflutningsnefndin reyndi nú til að aftra því eftir mætti, að afstöðumunur yrði tilfinnanlegur millum kaupmanna hjer og úti um land, og hygg jeg, að þetta hafi tekist fyllilega, enda var langmest bannað af vörum til Reykjavíkur.

Þegar verðfallið kom úti í heimi á ýmsum vörutegundum í vetur, duldist stjórninni það eigi, að vandi væri að framkvæma svo innflutningshöftin, að þau yrðu ekki til þess að halda við dýrtíðinni innanlands. En hjer við er þess að gæta, að verðlækkunin kom seint og hefði lítið getað notið sín síðustu mánuðina vegna vöntunar á gjaldeyri til að kaupa verðföllnu vöruna fyrir. Stjórnin fór þess samt á leit við verðlagsnefndina, að hún reyndi að þrýsta niður verðinu innanlands eftir líkum hlutföllum og orðið hefði erlendis, en nefndin skýrði stjórninni frá því, að hún treysti sjer ekki til þess að hafa mikil áhrif á verðlækkun á fjölbreyttum iðnaðarvarningi; slíkt væri svo miklum vandkvæðum bundið. Þetta var nú litlu fyrir þingbyrjun, og áleit stjórnin því ekki rjett að afnema höftin nje breyta þeim fyr en þing kæmi saman. —

Liggur nú hjer þá fyrir álit samvinnunefndar viðskiftamálanna bæði um bráðabirgðalögin og málið í heild sinni, og hefir hv. nefnd beggja deilda fallist á að fella hömlurnar niður á þeim vörum, er teljast nauðsynjavörur. Er það tilgangurinn með þessu að fá verð gömlu vörunnar, sem hjer liggur, lækkað með frjálsum innflutningi nýrrar vöru. Stjórnin hefir nú að vísu ekki sömu trú og meiri hluti nefndarinnar á því, að þetta sje einhlít ráðstöfun til verðlækkunar, eins og jeg mun síðar víkja að; hins vegar kannast hún við, að það sje svo miklum vandkvæðum bundið að fá verð vörunnar lækkað með öðru móti, og þykir því rjett, ef háttv. deild vill hverfa frá hinni tilrauninni og hverfa að þessari, að setja sig ekki þar á móti.

Hvað snertir samanburðinn á þessum átta vörutegundum, sem háttv. frsm. (J. Þ.) talaði um, þá sannar hann nú í raun og veru lítið, því verðlækkun var orðin á þeim nú þegar allmikil, og engin hætta á, að dýrtíð hjeldist á þessum vöruteg. meiri en erlendis, þó að viðskiftahöftunum væri haldið við. Aftur á móti eru það iðnaðarvörurnar, sem mjög erfitt var að setja hámarksverð á. Vegna þess að kringumstæður hafa breyst, erfiðleikar eru á framkvæmd viðskiftahaftanna, og sýni það sig þar á ofan að vera vilji þingsins að afnema höftin, þá lýsi jeg því yfir, fyrir stjórnarinnar hönd, að hún muni ekki gera þetta að neinu kappsmáli.

Þá vil jeg víkja nokkrum orðum að innflutningsnefndinni. Það kom til umræðu milli stjórnarinnar og viðskiftanefndarinnar, hvort þörf mundi á nefndinni. Ef innflutningur verður gefinn frjáls á öllum nauðsynjavarningi og listi saminn yfir þær vörur, sem eigi má flytja inn, þá telur stjórnin eigi næga ástæðu til, að nefndin haldi áfram. Hlutverk nefndarinnar var einkanlega það að meta, hvaða vörur nauðsynlegt væri að flytja inn í landið, og eins hvernig gjaldeyrinum yrði best ráðstafað.

Þó sýnist stjórninni eigi rjett að afnema nefndina fyr en búið er að ákveða, hvaða vörur skuli banna með reglugerð, sem mundi verða tilbúin að líkindum fyrir lok þessa mánaðar. Háttv. 2. þm. Reykv. (J. B.) mintist á það, að með því að láta lögin frá 8. mars 1920 standa, þá væri með því verið að byggja brú fyrir stjórnina í þessu máli. Það er auð vitað undir háttv. deild komið, hvað hún gerir í þessu máli. Hins vegar hefir stjórnin látið það í ljós, að hún teldi ekki heppilegt, að viðskiftahöftunum væri ljett af algerlega.