21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (2694)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg er samdóma hv. 1. þm. Reykv. (Jak. M.) um það, að ekki sjeu nauðsynlegar langar umræður um málið, eins og það liggur fyrir í deildinni.

Mjer þykir rjett að segja í fám orðum frá afstöðu stjórnarinnar til þessa máls. Annars mun atvinnumálaráðh. (P. J.) og ef til vill fjármálaráðh (M. G.) ræða það frekara.

Í samtali við viðskiftamálanefnd lýsti stjórnin því yfir, að hún ljeti sjer lynda, að viðskiftahöftin yrðu afnumin, og um þetta varð samkomulag í nefndinni, eins og háttv. 3. þm. Reykv. (J. Þ.) lýsti yfir í byrjun þessarar umr. En jeg vil geta þess, að ráðuneytið lítur svo á, að rjett sje að hafa hömlur fyrst um sinn á óþörfum varningi. Og ráðuneytið heldur því enn fremur fram, að vegna gjaldeyrisskorts muni ráðlegt og heppilegt að hafa eftirlit með útlendum gjaldeyri.

Jeg skal í sambandi við þetta geta þess, að í fyrradag barst stjórninni skeyti frá sendiherra vorum í Kaupm.höfn, um að í Finnlandi, þar sem líkt stendur á og hjá okkur, verði viðskiftahömlurnar numdar úr gildi 1. apríl, en jafnframt því er stjórninni heimilað eftirlit með erlendum gjaldeyri. — Jeg skal ekkert segja um það, hvort bankarnir geta haft þetta eftirlit hjer, en stjórnin telur eftirlitið nauðsynlegt. Og sem dæmi upp á það, að ekki sjeu allar þjóðir afhuga innflutningshöftum, er það, að í Sviss á nú að taka upp innflutningshöft á vörum og setja viðskiftanefnd.

Á sameiginlegum fundi viðskiftamálanefnda þingsins, þar er stjórnin mætti, var spurt að því af einum manni, hvort ráðuneytið teldi viðskiftahöftin nauðsynleg. Málið lá ekki þannig fyrir þá, að ástæða væri til að svara þessu. Nú get jeg sagt það, að ráðuneytið telur þetta ekki nauðsyn. Annars hefði það ekki látið sjer lynda niðurstöðu háttv. nefndar.

Alt ráðuneytið er hins vegar sammála um það, að viðskiftahöft hafi verið nauðsynleg. En um framhald á þeim, undir breyttum kringumstæðum, hefir ekkert verið ráðið í stjórninni. Og ráðuneytið varð sammála um að halda þeim óbreyttum þar til þing kæmi saman.

Hins vegar voru dálítið skiftar skoðanir í ráðuneytinu um, hve lengi ætti að halda í höft þessi á nauðsynjavörum, hvort ætti að ljetta þeim af þegar verðfallið byrjaði, hvort gera ætti ráð fyrir að ljetta þeim af nú með vorinu, eða má ske ekki fyr en í lok þessa árs.

Eins og menn vita, eru mjög skiftar skoðanir og hafa verið um allan heim, á hvern hátt unt er að verjast innflutningi óþarfs varnings. Það eru sem sagt skiftar skoðanir um þetta meðal þeirra, sem ætla mætti að hefðu vit á þessum málum. Þess vegna er ekki nokkur ástæða til að gera þetta að deiluefni milli þings og stjórnar. Ef þingið ekki vill, að viðskiftahöftunum sje haldið, þá hefir engin stjórn leyfi til að heimta það. Svo er örðugt um það að dæma, hvað rjettast sje í þessu efni. Það verður að viðurkenna það, að aðstaðan er allmikið breytt, einkum vegna verðfallsins. Verðlagsnefndin hefir ekki reynst máttug til að færa niður svo sem bar t. a. m. vefnaðarvöru. En hæfilegt verðlag þurfti nefndin að setja á ýmsar vörur, til þess að vega á móti innflutningshöftunum.

Mín persónulega skoðun er sú, að rjettast hefði verið að halda aðflutningshöftunum í engu minna mæli en nú eru þau. Og jeg hygg, að það mundi hafa komið í ljós einmitt enn betur, að þau væru heppileg, er þeim hefði verið haldið áfram enn þetta ár. Þau nutu sín auðvitað ekki í byrjun. Það dylst engum, að oss ríður mest á því að forðast að kaupa frá útlöndum annað en það, er beint er bráðnauðsynlegt, en ónauðsynlegar eru ekki einungis þær vörur, er aldrei er þörf á, heldur og nauðsynjavörur fram yfir þörf. En það hefði kostað mikla sjálfsafneitun. Það hefði kostað að neita sjer um útlendar vörur, sem menn eru vanir að hafa sjer sumpart til þæginda. Það hefði kostað að breyta um lifnaðarháttu. En það þýðir ekki að reyna að gera þetta, eins og til hagar hjá oss, á móti vilja þjóðarinnar, og það lítur út fyrir, að almenningur vilji ekki láta gera þetta með valdi.

Jeg er að vona, að eitthvað megi gera í þessa átt með frjálsum samtökum. Jeg veit, að fjelagsskapur um þetta hefir myndast annarsstaðar, og jeg hefi heyrt getið um, að eitthvað hafi verið reynt í þessa átt til sveita hjer á landi. Það mætti orða það, að minka kornvörukaup, svo sem fært er, en nota meir hina ágætu innlendu fæðu, sem vjer höfum svo mikið af, t. a. m. síld, er nú er flutt út og kastað í sjóinn, er þangað kemur. Jeg hefi reyndar sjeð það í einu dagblaðinu, að íslenskir magar væru ekki „innrjettaðir“ fyrir slíka fæðu. Hugsanlegt væri einnig, að spara mætti með fráfærum. Einnig mætti nota meira innlendan skófatnað og innlent fataefni. Með samtökum má ef til vill ná því, sem innflutningshöftunum var ætlað. Jeg hafði óttast, að ekki væri hægt að fá samtök í þessa átt, en nú er jeg ekki vonlaus um það. Það er nauðsynlegt að rifa seglin og reyna að komast af með sitt eigið. Því þótt útlenda varan sje að lækka, þá er það meir í orði en á borði. Því innlenda varan, sem við þurfum að borga með, hefir lækkað tiltölulega miklu meira, og sumar vorar útflutningsvörur orðið svo að segja óseljanlegar.

Vil jeg svo ekki fara frekara út í þetta mál, því það er rjett, eins og tekið hefir verið fram, að eins og málið liggur fyrir hjer, eru engar ástæður til langrar umræðu.

Mjer þótti vænt um það samkomulag í nefndinni, að banna megi innflutning á óþörfum varningi. Að vísu gerir hún lítið úr, hvað hann kosti, en þó ekki sje hægt að spara með því nema 1 miljón, þá munar um það nú.

Jeg vil að eins drepa á eitt. Hv. þm. V.-Ísf. (Ó. P.) sagði, að það gæti orðið atvinnumissir fyrir verslunarstjettina, ef bannaður væri innflutningur á óþörfum varningi. Þetta er rjett. En það er minni skaði en að leyfa innflutninginn. Og þó einstakir verslunarmenn verði að hætta, þá gerir það ekki svo mikið til.

Þar sem sú stjett virðist orðin helst til mannmörg.