21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (2698)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Frsm. (Jón Þorláksson):

Jeg hefi ekki mikið fram að taka, því meðnefndarm. mínir hafa að nokkru leyti tekið af mjer ómakið. Jeg vissi, að hv. þm. Ak. (M. K.) var að nokkru leyti annarar skoðunar og skrifaði undir nál. með fyrirvara. Jeg ætla ekki að fara að rökræða þetta atriði hjer, en verð þó að mótmæla, að nokkur haldi því fram, að það sje allra meina bót að afnema höftin, heldur sje stigið eitt spor í áttina til að ráða fram úr þeim vandræðum, sem nú kalla brýnast að, sem er það, að tilkostnaður er svo mikill, að framleiðslan í landinu borgar sig ekki.

Viðvíkjandi afstöðu nefndarinnar til laganna frá 8. mars, og hvernig stjórnin eigi að beita þeim, langar mig til að segja, að jeg lít svo á, að þeir nefndarmenn, sem skrifað hafa undir nál. án fyrirvara, hafi þar með bundið sig til að leggja á vald stjórnarinnar, hvernig þeim væri beitt, en að hún gerði það upp á sína ábyrgð. Og jeg tel það ekki rjett, að einstakir nefndarmenn geri tilraun til, með umr., að taka ákvarðanir, er gæti losað stjórnina frá að framkvæma lögin upp á eigin ábyrgð. Úr því að þeir hafa ekki gert tillögur til deildarinnar um, að atkv. skeri úr, og engin till. hefir komið fram um að nema lögin frá 8. mars úr gildi, þá verður deildin að láta sjer lynda, að stjórnin hagi sjer eftir bestu vitund. Hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) o. fl. vildi láta það verða að samkomulagi, að lögin hjeldust fyrst um sinn, og jeg er því ekki mótfallinn, að lögin verði ekki numin úr gildi, þó jafnvel að stjórnin noti þau ekki; kringumstæðurnar geta breyst.

Viðvíkjandi því, að jeg hafi sagt, að ekki taki því að hafa innflutningshöft á glingurvarningi, þá tók jeg það fram, að ef landsmenn í raun og veru vildu eitthvað á sig leggja til gjaldeyrissparnaðar, þá lægi næst að hefta innflutning á tollskyldum óþarfa, og ef það ráð væri tekið, þá teldi jeg ekki rjett að nema þau úr gildi.

Hæstv. atvinnumálaráðherra (P. J.) sagði, að viðskiftanefndin þyrfti að standa þar til ný reglugerð væri sett. Nefndin áleit, að stjórnin gæti samið þá reglugerð strax, eða á meðan málið væri hjer í deildum, og yrðu það þá aðeins nokkrir dagar, og geri jeg ráð fyrir, að viðskiftanefndin verði þá daga að starfa á sama grundvelli og hin fyrirhugaða reglugerð ákvæði, og ef nú er ekki von á neinu skipi frá útlöndum á næstunni, þá er sama, hvort nefndin starfar þessa fáu daga eða ekki.

Hæstv. forsætisráðherra (J. M.) mintist á, á fundi, sem ráðherrarnir og nefndin hjeldu, að það yrði að hafa eftirlit með erlendum gjaldeyri, en viðskiftamálanefndin áleit, að það heyrði ekki undir hana, heldur peningamálanefndina, og jeg geri ráð fyrir, að ef nefndin hefði verið spurð, þá mundu hafa orðið daufar undirtektir hjá henni að flytja höftin inn á annað svið. Hann mintist einnig á, að innflutningshöft hefðu nú verið sett í Sviss, en þar stendur öðruvísi á. Það er gert til að verjast því, að inn flytjist ódýr útlendur varningur, er geti útrýmt innlendum iðnaði, og veldur þar um gengismunur landanna. En þær ástæður, sem eru fyrir hendi í Sviss, eru ekki fyrir hendi hjer.

Annars vil jeg minnast á eitt atriði, sem hv. 4. þm. Reykv. (M. J.) nefndi rjettilega, að það gæti haft þýðingu, að þessi heimildarlög til að takmarka eða banna innflutning á óþörfum varningi væru fyrir hendi, því það væri gott að geta vísað til þeirra, t. d. við fjármálasamninga erlendis.

Að hægt sje að fara eins langt í því að banna innflutning eins og hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) vildi, tel jeg algerlega ómögulegt, t. d. að því er snertir innflutning á niðurs. mjólk. Þetta sýnir aðeins ókunnugleika hv. þm. (Sv.Ó.). Hjer í Reykjavík er alls ekki hægt að halda lífinu í börnunum, án þessarar mjólkur. Þá eru ummæli hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) og hv. 2. þm. Árn. (Þorl. G.) um fjölmenni kaupmannastjettarinnar. Jeg legg nú ekki mikið upp úr slíkum ummælum á meðan ekki er sýnt fram á þau með tölum. Meðan þau styðjast einungis við almennar tilfinningar manna, sem koma úr sveitum, þar sem engin verslun er, álít jeg þau að engu hafandi. (Sv. Ó.: Jeg veit það.). Þessir hv. þm. (Sv. Ó. og Þorl. G.) geta ekki vitað neitt um það, því að það eru 10 ár síðan skýrsla um það var gefin út, þangað til nú, að verið er að gera hana, en sú skýrsla hefir ekki verið birt enn.

Jeg álít óþarfa að vera að rökræða það, sem komið hefir fram í umr. hjer, að takmörkun á innflutningi skerði atvinnu manna. Sú atvinna, sem tekin hefir verið upp samkvæmt lögum þjóðarinnar, á fyllilega rjett á sjer. Þótt vandræði komi fyrir heildina, þá verður ekki úr þeim bætt með því að láta einstaka menn gjalda þeirra, en allan almenning sleppa. Þetta er stakasta ranglæti. Jeg felli mig betur við, að þær ráðstafanir, sem gera þarf, komi við alla jafnt, skelli á gömlu þrenningunni: kaffi, tóbaki og brennivíni. Annars er það undarlegt af hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) að viðhafa jafnhörð orð um þá, er versla með þennan varning, um leið og stjórnin flytur frv. um að landið taki að sjer einkasölu einmitt á þessum varningi.

Eitt atriði er enn, sem jeg vil minnast á. Hjer liggja fyrir bráðabirgðalög, sem nefndin leggur til að verði synjað staðfestingar. En þar í liggur ekki nein ásökun til stjórnarinnar fyrir að hafa gefið lögin út. Það var viðurkent af öllum í nefndinni, að ástæður væru þá alt aðrar, er lögin voru gefin út, og að till. nefndarinnar byggist á því, að nú sjeu breyttar ástæður frá því er þá var. Mjer hefir verið bent á það af gömlum þingmanni, að rjettara hefði verið að láta dauðdaga þessa frv. verða á þann hátt að vísa því frá með rökstuddri dagskrá, því að hitt mætti skilja sem ásökun til stjórnarinnar. Þess vegna hefi jeg viljað taka þetta fram.