21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 111 í C-deild Alþingistíðinda. (2709)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Frsm. (Jón Þorláksson):

Þegar nefndin gerði þá till. sína, að leggja það á vald stjórnarinnar, hvort hún noti heimild laganna frá 8. mars 1920, þá var nefndinni kunnugt um, að stjórnin var ákveðin, eða sem næst ákveðin, í að nota heimildina, ef það yrði lagt á hennar vald, og geta nefndarmenn því ekki haldið því fram, að þeir hafi lagt þetta á vald stjórnarinnar í því trausti, að hún notaði heimildina ekki, eins og mjer skildist hv. 2. þm. Reykv. (J. B.) segja, að hann hefði gert.