21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 112 í C-deild Alþingistíðinda. (2710)

14. mál, bann innflutnings á óþörfum varningi

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg vil geta þess, að hjer er í rauninni ekki annað til umr. en það, hvort eigi að nema úr gildi bráðabirgðalögin frá 15. apríl. Allar aðrar ráðstafanir, t. d. hvort eigi að afnema lögin frá 8. mars 1920, og setja reglugerð í staðinn, um bann gegn innflutningi á óþörfum vörum, eiga að bíða seinni tíma. Samt skal jeg geta þess, að jeg gæti ekki greitt atkv. með afnámi 1. frá 8. mars 1920, nema eitthvað kæmi í staðinn, sem gæfi heimild til að banna innflutning á óþörfum vörum. Jeg er alveg sannfærður um það, að innfluttur óþarfavarningur árin 1918, 1919 og 1920 er margfalt meiri heldur en verslunarskýrslur fyrir árið 1917 sýna, að flutt hafi verið inn það ár. 1917 var afarerfitt að ná í vörur og menn höfðu yfirleitt ekki jafngóð efni og seinni árin. Jeg er því sannfærður um, að innflutningur á óþarfa hefir verið mörgum, mörgum sinnum meiri 1918–20; jafnvel skift miljónum króna árlega.

Hv. 1. þm. S.-M. (Sv. Ó.) benti á, að það mætti takmarka innflutning á niðursoðinni mjólk. Jeg vil algerlega taka undir þau andmæli, sem komið hafa fram gegn því. Neysla þessarar mjólkur er orðin svo almenn í kaupstöðum, að það má telja hana til nauðsynjavöru.

Það, sem mjer finst stinga einna óþægilegast í augun, er ýmiskonar brauðvara. Jafnvel 1917 er keypt af henni fyrir 200 000 kr. Samt er nytsemi þessarar vöru sáralítið; þvert á móti er hún að mestu argasti óþarfi.

Jeg er líka sammála þeim mönnum, sem segja, að verslunarstjettin sje alt of mannmörg. Jeg er viss um, að ef þeir reikningar væru gerðir upp á hagfræðilegan hátt, mundi það sýna sig, að þar mætti spara hundruð þúsunda.

það er ekki svo að skilja, að jeg vilji bera verslunarstjettinni nokkuð ósæmilegt á brýn. Það er fjarri mjer. En það er alkunna, að margir smásalar lifa góðu lifi af því að selja ónauðsynlegan varning í búðarkytrum, og hafa þó örlítil viðskifti. Og það er alveg ótrúlegt, hvað miklar tekjur þeir virðast hafa af slíkri viðskiftaatvinnu. En hin háttrómaða frjálsa samkepni hefir ekki notið sín í allri þessari ringulreið. Hún hefir spilst. Í stað þess að halda niðri vöruverðinu, hafa menn reynt að halda því uppi, til þess að geta flotið, þrátt fyrir litla viðskiftaveltu. Úr þessu óheilbrigða ástandi verður að bæta, og það með einu „radikölu“ aðferðinni, sem til er, að búa svo um hnútana, að menn geti ekki þrifist við slíkt óþarfavarningssölubrask.

Sumir vilja gera lítið úr sparnaðinum. Velmegun þessarar þjóðar hefir þó hingað til bygst á sparsemi, samfara iðjusemi og dugnaði, og þannig mun það verða í framtíðinni. Nú eru þeir dagar að líkindum taldir, sem hægt var að grípa upp stórfje með litlu ómaki. Hv. 1. þm. Árn. (E. E.) nefndi ullariðnaðinn. Að mínu áliti væri peningum vorum betur varið í innlendan ullariðnað heldur en til þess að kaupa bráðónýtan, útlendan fatnað. Það væri ekki vanþörf á að gera lík samtök um land alt um stofnun ullariðnaðarfyrirtækja og gerð voru, þegar Eimskipafjelag Íslands var stofnað. Við fleygjum besta efninu, ullinni, út úr landinu, fyrir sárlítið verð, en kaupum í staðinn rándýr og ónýt, útlend efni.