02.03.1921
Neðri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (2713)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Flm. (Sigurður Stefánsson):

Jeg geri ráð fyrir, að það sje betra, að flutningsmennirnir láti nokkur orð fylgja þessu frv. Skal þó ekki vera langorður, því jeg hefi á tveim þingum áður flutt þetta frv., og fært þar fram þær ástæður, sem til þess liggja, að frv. er fram komið. Þessar ástæður eru enn fyrir hendi og eru teknar fram í greinargerð frv. sjálfs.

Það hefir viljað brenna við á undanförnum þingum, að háttv. þm. hafa freistast til að ætla, að jeg taki munninn nokkuð fullan, þegar jeg hefi verið að lýsa staðháttum á Vesturlandi. Þetta er mjög eðlilegt. Því lýsi maður rjett staðháttum á Vestfjörðum, þá stingur sú lýsing mjög í stúf við staðháttalýsingu í öðrum fjórðungum landsins. Erfiðleikar og kostnaður þar, vegna staðhátta, er ekki saman berandi við aðra fjórðunga landsins.

það er engin von til þess, að alókunnugir menn, sem vanir eru að hleypa skeiðfráum hesti yfir grund, geti gert sjer þessa grein, nje heldur þeir dæmt um sjóferðir þar vestra, sem sjálfir hafa aldrei á sjó komið.

Öll ferðalög eru þar með öðru móti en viðast hvar annarsstaðar. Fæturnir eru fararskjótar ferðamannsins á landi, en báturinn á sjónum. Er þar sjór dutlungasamari en annarsstaðar, vegna bylja og kastvinda ofan af fjöllunum. Þetta hefi jeg sjálfur reynt í 40 ár, svo vel mætti háttv. deild trúa orðum mínum. Og nú vill enn fremur svo vel til, að jeg er hjer ekki einn til frásagna um þessi mál. Nú eru hjer tveir hv. þm. í deildinni, sem bæði geta og munu vera fúsir til að sanna mál mitt.

Á jeg þar við háttv. meðflutningsmann minn, þm. Ísaf. (J. A. J.), sem þar er borinn og barnfæddur, og háttv. 4. þm. Reykv. (M. J.), sem verið hefir sóknarprestur Ísafjarðarprestakalls. Veit jeg að þessa menn báða skortir hvorki þekking nje vilja til þess að taka sanngjarnlega í málið.

það mun ef til vill verða vitnað til þeirrar reynslu, að prestar á Ísafirði hafi dvalið þar langdvölum, og frá því sjónarmiði verða álitið, að ekki sje eins örðugt eða torvelt að þjóna þessu prestakalli eins og af er látið.

En aðstaðan hefir breyst mjög á síðustu árum, og jeg vil geta þess, að mjer er nær að halda, að þeir prestar, sem verið hafa á Ísafirði tugum ára saman, mundu heldur ekki hafa orðið mosavaxnir þar, ef þeir hefðu átt að stríða við — jeg vil segja — helming þeirra örðugleika, sem nú eru orðnir á prestsþjónustu í því prestakalli.

Það er tekið fram í aths. við frv. hve erfiðleikarnir hafa breyst, en jeg vildi þó gera nokkuð nánar grein fyrir því.

Hólskirkja hefir verið þriðjungakirkja við Ísafjarðarkirkju um langan aldur. Gátu prestar áður, er þeir fóru á annexíuna, oft notað bátsferðir, sem þá voru mjög tíðar. Þá var engin verslun í Bolungarvík, og þurftu hreppsbúar að sækja allar nauðsynjar sínar í Ísafjörð. Voru því oft daglegar ferðir þar á milli, þegar ekki gaf á sjó. Þetta ljetti mikið með prestunum, að þeir gátu notað þessar ferðir, enda kostuðu þær sama og ekki neitt.

Eftir því, sem jeg veit best til, munu nú vera í Bolungarvík 4–5 verslanir, og munu þær fullnægja verslunarþörfum hreppsbúa, svo að engin þörf er fyrir þá að sækja nauðsynjar sínar á Ísafjörð, enda eru allar sjóferðir orðnar svo dýrar, að Bolvíkingar fara ekki á Ísafjörð, nema þeir bráðnauðsynlega þurfi.

Þar sem ferðir eru svo strjálar og dýrar, er það ofvaxið prestum að borga kostnað við þær af launum þeim, sem þeim eru ætluð.

Ef presturinn fer á landi, þarf hann að borga fylgdarmanni 40–50 krónur fyrir ferðina. Mun það ekki talið mikið, þar sem hann þarf að bíða frá laugardegi til sunnudagskvölds, og stundum til mánudags.

Þó maður líti ekki á annað en að presturinn geti gengið Óshlíð, þá verður það um 800–1000 kr. á ári, sem hann þarf að borga, og mikið meira, ef hann þarf að kaupa mótorbát, sem ekki kostar minna en 100–120 kr. báðar leiðir.

Jeg skal svo ekki fara frekar út í þessar ástæður fyrir frv., eða lengja tímann með að lesa þær upp. Jeg veit, að háttv. deildarmenn, hvort þeir eru með eða móti, munu hafa kynt sjer þær.

Jeg vil þó drepa nokkuð á almennar athugasemdir um málið.

Í seinni tíð hefir ekki borið svo lítið á þeim hugsunarhætti hjá þjóðinni, að það skifti ekki miklu, hvort prestar geti rækt köllun sína eða gegnt skylduverkum sínum nokkurnveginn sómasamlega.

Sá mikli mentunarstraumur, sem nú flæðir yfir sveitir landsins, gengur sumstaðar í þá átt að skola burtu prestunum, sem „inutile pondus terræ“, eða gagnslitlum gripum á þessari upplýstu öld.

En söfnuðirnir líta öðruvísi á þetta mál. Brauðasamsteypurnar hafa, svo að segja, svift marga þeirra prestsþjónustu, að því leyti, hvað erfitt er að ná til presta. Ýmugustur sá, sem söfnuðirnir úti um sveitirnar hafa á brauðasamsteypunum, lýsir sjer í hinum mörgu óskum og áskorunum til þingsins um að sundra því, sem hefir verið sameinað. Söfnuðirnir láta sjer heldur ekki í ljettu rúmi liggja, hvað þeir gjalda til prests, eða hvert það gjald rennur, því að auðvitað er söfnuðunum ekki sama, hvort þeir enga eða litla prestsþjónustu fá.

Hjer er líka að líta á mikilsvert atriði frá þingsins hálfu.

Það hafa verið gerðar margar tilraunir til að reyra kirkjuna fastar við ríkið. Kirkjan er hreint og beint orðinn skjólstæðingur ríkisins. Það hefir með höndum öll fjármál hennar og getur skamtað henni úr hnefa. Jeg ætla þó ekki að lasta þingið fyrir meðferð þess á málum kirkjunnar, því að það hefir oft sýnt mikla rjettsýni og sanngirni í þeim efnum. En þetta leggur ríkinu því meiri skyldur á herðar, þar sem það er fjárhaldsmaður kirkjunnar. Og það er ekki góður fjárhaldsmaður, ef hann ekki lítur á hagsmuni og þarfir skjólstæðingsins.

Það eru tálvonir fyrir hinu háa Alþingi, að ætla að kveða niður þær óskir og áskoranir frá söfnuðum landsins um aukna prestsþjónustu, sem því berast, og með því smátt og smátt losast við þær. Það sannast, að hversu oft, sem þingið neitar eða synjar að verða við þeim, að þá mun það ekki losna við þær, en söfnuðirnir láta í ljós rjettmæta óánægju sína út af því, að þeim finst rjettur sinn fyrir borð borinn.

Þetta mál er líka þannig vaxið, að þinginu er í lófa lagið að haga sjer í því eftir því, sem efni og ástæður ríkissjóðs leyfa, en vorkunarlaust að meta óskirnar eftir nauðsyninni, og líta með sanngirni á þörfina. Ef gera þarf breytingu á prestaskipun landsins, þá er það ekki nema eðlilegt og í alla staði sanngjarnt að líta fyrst á það, hvar nauðsynin er mest, og halda síðan áfram á þeirri braut, um prestaskipunina. Vitanlega er það um alt land, að flestar samsteypurnar eru mjög óvinsælar hjá söfnuðunum, sem þar eiga hlut að máli.

En ef þær óskir, sem koma frá söfnuðunum, ekki geta talist sanngjarnar, þá er þinginu innan handar að taka þær ekki til greina, og haga sjer þar eftir. Jeg játa það, að það getur verið óþægilegt fyrir þingmenn að koma með svona frv., ef ekki fylgir þeim sparnaður, en hinsvegar álít jeg sjálfsagt að taka til greina rjettmætar óskir, og ekki rjettlátt, að þingmenn synji kröfum safnaðanna, þó nokkur kostnaður fylgi þeim.

Að því er snertir þessa skiftingu, þá vill svo til, að kostnaðarauki fyrir ríkið verður svo lítill, að hann ætti ekki að standa fyrir því, að frv. næði fram að ganga.

Íbúarnir í prestakallinu munu hátt á 4. þúsund, eða 3783 síðastliðið ár. Með núverandi sóknargjöldum munu þau nema 3800 kr., og auk þess eru heimatekjur töluverðar af Hólssókn, t. d. um 200 króna prestsmötugjald, og miklu hærri upphæðir í heimasókninni. Svo alls mun það verða um eða yfir 5000 krónur, sem prestakallið greiðir í prestlaunasjóð. Það er því ekki nema í alla staði eðlilegt, að menn mæni eftir krónunni, sem þeir borga í hann til að launa öðrum prestum í þeim köllum, sem eru miklu hægari en þeirra, þegar þá sjálfa skortir viðunanlega prestsþjónustu.

Verði sóknargjöldin hækkuð, mun þessi upphæð hækka svo, að ekki mun miklu þurfa við að bæta, að dugi til að launa tveim prestum í hæsta launaflokki. Munu þau og enn hækka eftir því, sem mannfjöldinn vex, en það leiðir af sjálfu sjer, ef marka má af því, að fólksfjöldinn hefir hjer um bil áttfaldast í prestakallinu, og þar af fjórfaldast í Hólshreppi. Prestakallið er nú orðið eitt með fólksflestu prestaköllum á landinu, svo að ekki munu nema 12–13 prestaköll, sem eru mannfleiri en Hólsprestakall yrði.

Jeg skal svo ekki þreyta háttv. deild á lengri ræðu, en vísa frv. til athugunar háttv. þm., og vona að hv. deild líti á hinar erfiðu ástæður safnaðanna og sóknarprestsins í þessu prestakalli, meðan það er óskift, og nauðsynina á skiftingunni.