02.03.1921
Neðri deild: 12. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 121 í C-deild Alþingistíðinda. (2714)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Magnús Jónsson:

Af því, að háttv. flm. beindi máli sínu til mín, vil jeg ekki skorast undan að gefa þær vísbendingar í málinu, sem mættu verða því að liði hjer í þessari háttv. deild, einkum vegna þess, að meðferð málsins, þegar það hefir verið hjer á döfinni undanfarið, sýnist benda til þess, að háttv. þm. hafi ekki meir en svo trúað þeim, sem málið hafa flutt, og litið á meðmæli þeirra eins og einhverskonar kjördæmisreipdrátt frá þeirra hendi.

Vegna kunnugleika míns, þá get jeg borið það, að þær ástæður, sem tilfærðar hafa verið með frv. og háttv. flm. talaði um, eru í alla staði sannar og óýktar; það veit jeg af eigin reynslu, því að jeg þjónaði þessu prestakalli dálítinn tíma. Og þó veit jeg, að erfiðleikarnir hafa heldur aukist síðan jeg var þar vestra, eða farið í vöxt heldur en minkað. Bæði hafa ýmsir örðugleikar vaxið, og svo er jeg, ef svo mætti segja, svo heppinn, að þann tíma, sem jeg þjónaði þar, var fríkirkjusöfnuður í Bolungarvík, og dró það úr störfum sóknarprestsins á Ísafirði þann tíma.

Mjer er það ljóst, að síðan tekið var að steypa saman prestaköllum, hefir það víða valdið mikilli óánægju, og annexíur eru víða svo erfiðar, að ef sinna ætti öllu slíku, mundi það ógerningur. En hjer stendur í rauninni alveg sjerstaklega á. Fyrst er nú það, að þó að annexíur sjeu víða erfiðar, þá munu þær ekki víða vera lakari heldur en þessi. Þó að vegalengdir sjeu viða miklar, þá mun þó víðast greitt yfirferðar á landi. T. d. sagði einn maður, sem kunnugur var fyrir norðan, við mig, að hann vildi heldur vera prestur í hálfri Húnavatnssýslu en hafa Bolungarvík eina fyrir annexíu frá Ísafirði, þar sem menn oft og tíðum verða að bíða langan tíma eða fara mjög hættulegar ferðir. Leiðin á annexíuna er svo ill yfirferðar, að það er ekki hægt að ætlast til, að prestar fari hana stöðugt, nema þeir sjeu ungir og heilsuhraustir. Enda mun landleiðin nú ekki berandi saman við það, sem hún áður var. Eftir því, sem mjer var sagt, var haldið við vegi með því að ryðja hann árlega, svo að hann varð nokkurnveginn fær. En nú mun búið að leggja það niður, og breyttir tímar og hugsunarháttur, og kannske líka tómlæti, hafa valdið því, að menn hafa trjenast upp á því. Og það er ekki um aðra leið að velja eða sjóinn. En hann er, eins og kunnugir menn vita, harla óviss þeim, sem þurfa að fara milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur á ákveðnum, fastsettum tímum, og landleiðin þá oft og einatt bráðhættuleg og illfær, nema berserkjum.

Og ef nú Bolungarvík yrði gerð að viðkomustöð strandferðaskipanna, þá hyrfi enn meir þörfin á að sækja til Ísafjarðar, og mundi því enn versna um ferðir þar í milli.

Enn ein ástæða til þess að losa Ísafjarðarprestakall við Hólssókn er sú, að full þörf er orðin á því að gera Hnífsdal að annexíu. Þar eru nú yfir 400 manns. Og þó að ekki sje nema þriggja stundarfjórðunga gangur, þá er það allskostar óviðunandi, að jafnfjölment kauptún þurfi að sækja kirkju svo langa leið, því að þeir, sem helst vildu sækja kirkju, geta ekki sótt til Ísafjarðar, það sem er gamalt og farlama fólk, og það sem ekki vegna heimilisástæðna getur farið svo langt frá heimilinu. Jeg segi þetta ekki af því, að jeg viti um neina sjerstaka hreyfingu í þessa átt, en jeg þekki af eigin reynslu, að þessa er full þörf. Yrði þá Hnífsdalur þriðjungakirkja, í stað Hólskirkju.

Þó Bolungarvík væri tekin frá prestakallinu, mundi Ísafjarðarprestakall samt verða fjölmennasta prestakallið utan Reykjavíkur, eða það yrðu áhöld um það og Akureyri. Það eru ekki aðallega erfiðleikarnir, heldur einmitt þessi mikli mannfjöldi, sem í mínum augum gerir kröfuna um að skifta þessu prestakalli sundur miklu þyngri á metunum en aðrar svipaðar kröfur. Hjer er ekki um fámennan annexíusöfnuð að ræða, heldur eitt af fjölmennustu kauptúnum landsins, svo að sú sókn ein mundi verða allofarlega meðal prestakalla landsins, hvað fólksfjölda snertir. Og auk þess á nú að þjóna henni frá annari sókn, sem, eins og áður er sagt, mundi verða annað fólksflesta prestakall landsins. Hjer er því um alveg sjerstakt tilfelli að ræða. Þegar svo ofan á þetta bætist, að annexíuvegurinn er bæði illur og oft og einatt lokaður tímum saman, þá má sjá, hve mikil nauðsyn er á að fá þessu kipt í lag.

Jeg fann oft til þess, þegar jeg var þar, að jeg hefði þurft að dvelja um tíma í Bolungarvík, bæði við húsvitjanir, undirbúning barna undir fermingu og til að kynnast fólki. En þá stóðu á mjer óteljandi járn frá Ísafirði, því að störfin kölluðu þá að þar. Það er líka ærið nóg verkefni fyrir prest þar, og því sjerstök ástæða til að skifta þessum prestaköllum, því að það er ofvaxið einum presti að sinna tveim jafnfjölmennum prestaköllum.

Háttv. flm. (S. St.) gat um fjárhagshlið málsins. Þá var þar ekki svo lítill óánægja yfir þessum gjöldum til prestlaunasjóðs, er svo gengju til annara presta.

Öll borguð sóknargjöld urðu um 3700 kr., og mun það hafa látið nærri, að Ísafjarðarprestakallið borgaði með þessu öllum prestum prófastsdæmisins. Yfir þessu var ekki svo lítil óánægja.

Það er nú ekki heldur svo sem söfnuðirnir standi varnarlausir gegn Alþingi. Þeir eiga nefnilega þann kost að ganga úr þjóðkirkjunni og setja á stofn fríkirkju, og halda með þeim hætti sóknargjöldunum heima hjá sjer.

Þá getur söfnuðurinn launað sinn prest sæmilega, valið hann og haldið honum, ef honum líkar við hann. Þessi vegur stendur þeim altaf opinn. Ef kostnaður yrði við skiftinguna, þá mundi það verða enn greinilegri kostnaður, ef ekkert kæmi í prestlaunasjóðinn úr þessari fjölmennu sókn, og gæti því orðið kostnaður úr sparnaði.

Jeg hefi ekki verið beðinn fyrir neina hótun í þessa átt, en af því að háttv. flm. (S. St.) vitnaði til mín um þetta prestakall, og jeg veit, hve mikil þörf er á því að Hólshreppur verði sjerstakt prestakall, vildi jeg mæla með því, að þetta frv. næði fram að ganga. Það er ekki svo, að þetta mál hafi ekki fengið nógan undirbúning. Það hefir verið lagt bæði fyrir synodus, hjeraðsfund og biskup, og fengið meðmæli þaðan, og kemur nú til þingsins kasta, hvort það muni sinna þessum málaleitunum.