21.03.1921
Neðri deild: 28. fundur, 33. löggjafarþing.
Sjá dálk 125 í C-deild Alþingistíðinda. (2718)

61. mál, skipting Ísafjarðarprestakalls

Frsm. meiri hl. (Pjetur Ottesen):

Fyrir hönd meiri hl. allsherjarnefndar vil jeg hjer gera þess grein, hvers vegna hann hefir ekki sjeð sjer fært að mæla með framgangi þessa máls. Að vísu er það kunnugra en frá þurfi að segja, hverjum örðugleikum landshættir og strjálbýli valda um allar samgöngur hjer á landi. Þess vegna er það ekki nema eðlilegt, að á ýmsan hátt komi fram kvartanir frá þeim, sem ekki þykjast njóta jafnrjettis við aðra, um hlunnindi eða fjárframlög frá ríkinu, í heilbrigðismálum, kirkjumálum, verklegum framkvæmdum eða hverju öðru sem er. En eins og það er eðlilegt, að þessar kvartanir komi fram, er það í rauninni líka eðlilegt, vegna staðhátta og ýmsra annara ástæðna, að allir geti ekki notið sömu aðstöðu, allra helst þar sem þessi hlunnindi hljóta að takmarkast af því, sem ríkissjóður getur lagt fram, því augljóst er það, að ekki muni vera takmarkalaust gjaldþol einna 90 þús. manna. Það ætti því að vera mönnum ljóst, að undir slíkum kringumstæðum verði að slá allmiklu af kröfum einstaklinga og sýslna, — jafnvel af því, sem þær annars þættust eiga sanngirniskröfu til.

En eins og nokkuð er tekið fram í nál., hefir meiri hl. allsherjarnefndar litið svo á, að með endurbótum fræðslufyrirkomulags okkar hafi starfssvið presta að ýmsu leyti verið gert þrengra og auðveldara en áður var, þar sem svo er litið á, að af þeim sje að mestu leyti ljett eftirlitinu með alþýðufræðslunni, að fráskildum undirbúningnum í kristnum fræðum undir fermingu. En af þessu ætti einnig að leiða það, að prestum gæfist nú meiri tími en áður til að gegna þeim svo nefndu eiginlegu prestsverkum, og geti því betur uppfylt þarfir fólksfleiri prestakalla en áður, og á þessu á þjóðin líka heimtingu. Enn fremur má líka benda á það, að prestarnir njóta nú í rauninni allmikillar aðstoðar í starfi sínu, þar sem er aukin fræðsla í landinu og þau hollu og siðbætandi áhrif, sem það ætti að hafa. Auk þess er fólki nú, betur en áður, gefinn kostur á því að eiga aðgang að ýmsum andlegum bókmentum, ekki einasta þeim guðfræðiritum, sem gefin eru út á okkar máli, heldur einnig erlendum guðfræðiritum, við sívaxandi tungumálaþekkingu. Auðvitað dettur mjer það ekki í hug, að þessi breyting geri prestastjettina óþarfa með öllu; en starfsvið þeirra getur stórum aukist.

Meiri hl. getur ekki fallist á það, að fólksfjöldinn einn, út af fyrir sig, sje nægileg ástæða til þess að skifta prestaköllum. Prestum ætti ekki að vera ofætlun að þjóna ekki mannfleira kalli en hjer er um að ræða, ef aðrar ástæður hömluðu ekki. Má í þessu sambandi minna á það, að í Reykjavík eru undir 18 þúsund, en aðeins 3 þjónandi prestar. Hinsvegar hefir hv. flm. (S. St.) haldið því fram, að það væri svo miklum torveldleikum bundið að þjóna Ísafirði og Bolungarvík saman, að skifta yrði þess vegna. — Það er náttúrlega nokkuð hæft í því, að þetta geti verið nokkrum erfiðleikum bundið, en þó ekki svo mjög, sem látið hefir verið í veðri vaka, eftir upplýsingum, sem meiri hl. nefndarinnar hefir fengið um þetta, og komnar eru frá mjög kunnugum og áreiðanlegum manni, utan þings. Og því neita jeg ekki, að landleiðin er allerfið, og stundum ekki hættulaust að ferðast þar um slóðir. En það er svo um svo margar leiðir hjer á landi, og þótt fjölfarnar sjeu, að það er ýmsum erfiðleikum bundið að fara þær, svo það er alls ekkert einsdæmi, hvað þessa leið snertir, eða um neina undantekningu að ræða.

Og eftir þeim upplýsingum að dæma, sem þessi kunnugi maður hefir gefið okkur (S. St: Hver er þessi kunnugi maður?), þá er sú landleið, sem hjer er um að ræða, ekki eins mikill þröskuldur fyrir prestinn á Ísafirði eins og hv. flm. (S. St.) heldur fram. Því er heldur ekki, sem betur fer, þannig varið, að ekki sje hægt að komast þetta öðruvísi en landveg. Það er miklu oftar, sem sjóleiðin er notuð, enda er það aðeins rúm klukkutímaferð á mótorbát. En auðvitað er sjóleiðin stopul, og eins með þessa sjóferð eins og svo margar aðrar, að stundum þarf að bíða byrjar, en þegar vel viðrar, eru þarna góðar og greiðar samgöngur. Þessi leið var líka farin mikið áður, og þó eitthvað kunni að vera hæft í því, að samgöngur á sjó hafi eitthvað minkað milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur upp á síðkastið við það, að verslun hefir aukist í Bolungarvík, þá haldast þó uppi enn allmiklar samgöngur þar í milli.

Þá hefir hv. flm. (S. St.) haldið því fram, bæði í ástæðunum fyrir frv. og við 1. umr. málsins, að færi presturinn landveg á annexíuna, kostaði hver ferð 40–50 kr., en færi hann sjóveg, þá mundi það kosta 100–120 kr. Þessi kostnaður byggist víst á því, að presturinn kaupi fylgdarmann báðar leiðir, fari hann landveg, en vjelbát til að flytja sig sjóleiðina. Það er auðvitað altaf hægt að slá fram svona tölum, og máske hægt að færa þess nokkur rök, að kostnaðurinn geti orðið þessi, ef svo væri að farið, eins og kaupgjald og verðlag er nú. En þar sem því verður ekki með neinum rökum mælt í gegn, að tíðar samgöngur, bæði á sjó og landi, eru milli þessara staða, og presturinn getur í flestum tilfellum að mestu eða öllu leyti losnað við þennan kostnað, þá verður það hvorttveggja í senn, rangt og villandi að leggja þessar tölur til grundvallar fyrir því, hver hinn verulegi kostnaður prestsins við þessar ferðir sje. —

Það er því æði hæpin tilraun hjá hv. flm. (S. St.), að ætlast til þess, að menn taki svona ástæður og röksemdir fyrir góða og gilda vöru.

Þá er því haldið fram af hv. flm. (S. St.), að þetta sje óbærilega mikill kostnaður fyrir embættismann í kaupstað með 2–3000 króna árslaunum. En það er aðgætandi, að með dýrtíðaruppbótinni komast þó þessi laun, nú að minsta kosti upp í 5000 krónur, og þeir prestar, sem lengi hafa þjónað og komnir eru upp í 3000 kr., hafa með uppbótinni alt að 7000 kr. í árslaun.

Það er því ekki einasta það, að hv.flm. og frsm. minni hl. (S. St.) gefi villandi upplýsingar um kostnaðinn við að þjóna annexíunni, heldur gengur hann alveg framhjá dýrtíðaruppbótinni, þegar hann talar um launin, en dýrtíðaruppbótin er þó ekki óverulegur hluti launanna, þar sem hún er nú hvorki meira nje minna en 137% hjá öllum öðrum en sveitaprestum. Af þessum ástæðum, og svo því, sem mestu skiftir þó, hvernig hag ríkissjóðs er komið, getur meiri hl. nefndarinnar ekki mælt með því, að þessi skifting nái fram að ganga.